Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Ragnar Ingi Aðalsteinsson gaukaði að vísnaþættinum vísu úr hversdagsleikanum:
Ljá mér styrk og lífsfögnuð
léttu þrautatímann,
að ég finni, góði guð,
gleraugun og símann.
Ingólfur Ómar Ármannsson sendi þættinum einnig línu: „Stundum skýst upp í kollinn á manni eitthvað sem tengist fyrri tímum, s.s. gömlum æskubrekum og nota sumir orðið æskusyndir. Oft fæðist skondið vísukorn út frá því.“ Þessum orðum fylgir vísa:
Ama hrindir ólund þver
art í skyndi hlýnar.
Vekja yndi enn hjá mér
æskusyndir mínar.
Þá barst kveðja frá Árna Björnssyni: „Mér flaug í hug eftir allar Esjuvísurnar um daginn þessi haustvísa eftir Jón Rafnsson verkalýðsleiðtoga:
Finnst mér ærið, Esja kær
yndisblærinn þrotinn:
eðla mær svo ung í gær
orðin hæruskotin.“
Esjan er Agli Guðmundssyni líka efst í huga, sem sendi þessa kveðju: „Ég geng og skokka stundum í Esjuhlíðum í misjöfnum veðrum. Þegar ég las vísurnar um Esjuna í miðvikudagsmogganum rifjaðist upp fyrir mér hnoð sem orðið hefur þar til í þoku og rigningarsudda.
Esja drottning í djúpu myrkri
á dökkum síðum kjól.
Móskarðshnjúkar í þoku þykkri
Þórbergur sá þar sól.
Regni úðuð apalgrá
öllum lækjum vex í.
Í morgun fór ég Esju á
ekki var hún sexí.“
Bergur Torfason lærði vísuna um eldinguna á Stóru-Reykjum árið 1954, sem birtist á föstudag, þannig og fellur fyrsta línan þá betur í stuðla:
Illir fóru andar á stjá
ýmislegt að sýsla.
Stalín hljóp í strompinn hjá
Stóru-Reykja-Gísla.
Að síðustu kastaði Sigurdór Sigurðsson, Báreksstöðum, síðar Akranesi, fram hringhendu:
Angri gleymi eg við skál,
opnast heimur víður.
Um mig streymir innst í sál
unaðs hreimur þýður.