Gæludýr Ráðherra vill rýmka reglur um gæludýrahald í fjöleignarhúsum með frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi.
Gæludýr Ráðherra vill rýmka reglur um gæludýrahald í fjöleignarhúsum með frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumvarp Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, um breytingar á lögum um fjöleignarhús í þá veru að rýmka mjög heimildir til gæludýrahalds í fjöleignarhúsum, gengur of langt að mati Húseigendafélagsins

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Frumvarp Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, um breytingar á lögum um fjöleignarhús í þá veru að rýmka mjög heimildir til gæludýrahalds í fjöleignarhúsum, gengur of langt að mati Húseigendafélagsins. Þetta segir Hildur Ýr Viðarsdóttir formaður félagsins í samtali við Morgunblaðið.

Í frumvarpinu sem Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur áður lagt fyrir Alþingi, þá sem óbreyttur þingmaður, er mælt fyrir um að hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum sé ekki lengur háð samþykki annarra eigenda í húsinu. Sambærilegt frumvarp hefur verið lagt fram fjórum sinnum áður, án þess að fá brautargengi.

Í núgildandi lögum sem eru frá árinu 2011 er kveðið á um að slíkt gæludýrahald sé heimilt, enda njóti það samþykkis 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang í fjöleignarhúsi.

Þó er ekki þörf á slíku samþykki sé íbúð gæludýraeiganda með sérinngang í húsið, en ákveðnir fyrirvarar eru þó gerðir við það.

Hildur Ýr segir breiðan hóp fólks eiga aðild að Húseigendafélaginu og því sé ekki hægt að mæla fyrir munn allra í þessu máli, enda séu bæði hunda- og kattavinir í félaginu sem og fólk sem hafi ofnæmi fyrir slíkum dýrum, hræðist þau eða vilji forðast af öðrum ástæðum. Augljósir kostir séu þó við gæludýrahald, þau séu gleðigjafar og sporni gegn einmanaleika meðal fólks, en á móti komi að einnig þurfi að horfa til sjónarmiða þeirra sem hræðist hunda og ketti sem og þeirra sem haldnir séu ofnæmi fyrir dýrunum.

Horfa þurfi til hagsmuna allra

Málið sé því ekki einfalt. Gæta þurfi að fjölbreyttum sjónarmiðum þegar ákvarðanir eru teknar. Hundar gætu t.a.m. valdið öðrum truflunum. Horfa þurfi til hagsmuna allra aðila.

„Það hefur verið talið að lögin eins og þau eru nú líti til allra þessara sjónarmiða. Það þarf samþykki 2/3 hluta íbúa fyrir hunda- og kattahaldi, en ef búið er að veita samþykki og í ljós kemur mikið ofnæmi hjá íbúa sem gerir honum óbærilegt að búa í námunda við dýr og það er stutt af læknisfræðilegum gögnum, þá á kærunefnd húsamála að leita lausna skv. gildandi lögum,“ segir Hildur Ýr.

„Ef íbúð er með sérinngang má vera með hunda og ketti án leyfis annarra. Þó eru settar ákveðnar skorður, tilkynna þurfi um dýrið áður en það kemur í húsið, húsfélag getur sett reglur um dýrahald með einföldum meirihluta og ef reglur eru eðlilegar, málefnalegar og á jafnræði reistar. Svo er hægt að leggja bann við dýrahaldi ef það veldur öðrum ama, ónæði eða truflunum,“ segir hún.

Gengið langt í gagnstæða átt

Hildur Ýr segir að í frumvarpinu sé verið að ganga langt í gagnstæða átt við gildandi regluverk. Reglurnar eins og þær eru nú hafi þótt sanngjarnar, en með því að leyfa dýrahald án samþykkis annarra íbúa sé ekki verið að horfa til þeirra sem erfitt eiga með að búa í námunda við dýr. Snúið geti verið fyrir þá að fá samþykki 2/3 hluta íbúa fyrir gæludýrabanni sem leitt geti til þess að viðkomandi gæti þurft að flytjast búferlum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson