Marta Jane fæddist í Reykjavík 25. desember 1976. Hún lést 7. mars 2025.
Útför Mörtu fór fram 21. mars 2025.
Ég kynntist Mörtu minni þegar hún var um tvítugt en þá flutti hún að heiman í íbúð úti í bæ. Á þessum tíma var ég í því hlutverki að veita henni stuðning á heimili hennar og óraði mig ekki fyrir því þá hvað við yrðum góðar vinkonur en samband okkar var einstakt. En síðan þá eða í tæp 30 ár höfum við oft hist og eytt miklum tíma saman, bakað, tekið til í geymslunni sem er mjög eftirminnilegur og skemmtilegur tími. Við töluðum einnig mikið saman í síma og á facetime.
Þó að Marta hafi fæðst með Downs-heilkenni var hún klár og dugleg, áhugasöm, fljót að læra og tileinka sér nýja hluti eins og versla á netinu og að keyra um landið.
Marta var svo skemmtileg og hlý og ef það leið of langur tími milli þess sem við hittumst fékk ég „að heyra það“ en samt fylgdi bros með og þétt faðmlag þegar hún sagði „mikið var gamla mín“ og svo spurði hún alltaf hvað væri að frétta af Bjössa og stelpunum okkar.
Það geislaði af Mörtu væntumþykja þegar hún talaði um foreldra sína, þau Guðmund og Hrafnhildi, og einnig systkini sín og systkinabörn. Jólagjafir til þeirra allra voru henni hjartans mál og ekki kom til greina að minnka þetta jólagjafastúss.
Hún var dugleg að halda heimili og var hún sérstaklega samviskusöm að flokka og gerði það eflaust betur en margir. Gaman er að segja frá því að ég hef ekki séð neinn brjóta fatnað eins vel saman og Marta gerði. Einnig passaði hún alltaf upp á það að eiga poka til að þrífa upp eftir Bláey sína.
Marta vildi alltaf þrífa eldhúsinnréttinguna sína fyrir jólin, hún var áhugakona um bakstur og man ég sérstaklega eftir bolludeginum hér fyrir nokkrum árum þegar hún bakaði rjómabollur og færði foreldrum sínum og vinnufélögum, það dugði ekkert minna. Það var gaman að sjá hvað henni þótti vænt um fólkið sem stóð henni næst og var hrærivélin sem hún fékk eftir ömmu sína eins og gull í hennar huga.
Marta var mjög heppin með vinnustað og vinnufélaga og mátti hún aldrei heyra á það minnst að taka sér meira leyfi en hún átti inni. Bláey var boðin velkomin á vinnustaðinn og fór Marta með hana í langan (oft of langan) göngutúr í hverju hádegi. Marta elskaði Bláey sína og sinnti henni mjög vel, alveg til fyrirmyndar.
Marta og Hallmar unnusti hennar höfðu komið sér upp fallegu heimili og framtíðin var björt þegar hann lést af slysförum. Greinilegt var að hún saknaði hans alla tíð og hafði hún það fyrir venju að heimsækja leiði hans reglulega og lét hún fótbrot fyrir síðustu áramót ekki stoppa sig.
Marta mín tók fullan þátt í lífinu og tókst vel til. Hún bjó ein í íbúð, átti bíl, hélt heimili, starfaði í fullu starfi í Pennanum, upplifði gleði og sorgir eins og aðrir og tókst vel til. Hún kvaddi okkur alltof snemma en hægt er að hugga sig við það að hún var að gera það sem hún elskaði og það var að fara í göngutúr með Bláey sína.
Ég mun alltaf minnast elsku Mörtu minnar með hlýhug og gleði og votta yndislegum foreldrum hennar, systkinum og öðrum ættingjum mína innilegustu samúð.
Ásta Guðbrandsdóttir.