„Maður kemur í manns stað,“ er einn af þessum sígildu frösum úr heimi íþróttanna. Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, á eflaust eftir að nota hann eða eitthvað sömu merkingar í þessari viku

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Maður kemur í manns stað,“ er einn af þessum sígildu frösum úr heimi íþróttanna.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, á eflaust eftir að nota hann eða eitthvað sömu merkingar í þessari viku.

En Þorsteinn þarf nú að glíma við það raunverulega vandamál að sýna fram á að maður komi í manns stað.

Eða kona í konu stað ef einhverjir vilja hafa það þannig.

Glódís Perla Viggósdóttir hefur verið algjör máttarstólpi í íslenska landsliðinu í tólf ár.

Hún meiðist aldrei og fær aldrei spjöld og hefur spilað alla mótsleiki Íslands nema einn frá árinu 2013.

Ísland væri ekki í 13. sæti á heimslista FIFA í dag án hennar. Þetta eru vissulega stór orð og útilokað að sannreyna þau.

En Ísland nýtur ekki krafta Glódísar í leikjunum mikilvægu gegn Noregi og Sviss á Þróttarvellinum á föstudaginn og þriðjudaginn.

Hún glímir við meiðsli í fyrsta skipti á löngum og farsælum ferli. Ekki gott, en mestu máli skiptir að hún verði heil heilsu á EM í Sviss í sumar.

Á meðan fá liðsfélagar hennar tækifæri til að afsanna þá kenningu að þeir geti ekki án hennar verið.

Tveir af bestu miðvörðum í deildunum á Norðurlöndum undanfarin ár, Guðrún Arnardóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir, ættu í sameiningu að geta fyllt í skarðið. Það verður áhugavert að sjá á föstudaginn hvernig til tekst.