Stórvirkar vinnuvélar rifu í sig háhýsi í miðborg Berlínar í Þýskalandi, nánar tiltekið við Alexanderplatz. Hús þetta var reist sem íbúðarhús snemma á áttunda áratug síðustu aldar og var í sovéskum anda, sem mörgum finnst heldur þunglamalegur og niðurdrepandi á að líta.
Síðar var byggingunni breytt og var þá hótel rekið þar allt til ársins 2019. Þegar hótelið lagði upp laupana stóð byggingin auð og hýsti þá helst hóp skemmdarvarga sem léku sér að því að brjóta þar rúður og krota á útveggi.
Nú hefur þetta þekkta svæði verið endurskipulagt og verður reist blönduð byggð íbúðar- og skrifstofuhúsa.
Á meðfylgjandi mynd hér til hliðar sést m.a. sjónvarpsturninn gamli í Berlín. Hann teygir sig alls 368 metra upp í loftið.