París. | AFP. Marine Le Pen leiðtogi Þjóðfylkingarinnar var í gær dæmd í fjögurra ára fangelsi og meinað að bjóða sig fram til pólitísks embættis næstu fimm árin. Tvö ár af fangelsisdómnum eru skilorðsbundin og mun hún afplána tvö ár utan fangelsis með rafrænt ökklaband.
Le Pen var dæmd fyrir að nota fé ætlað til að standa straum af kostnaði við setu á Evrópuþinginu til að ráða aðstoðarmenn í vinnu fyrir flokkinn. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að hún hefði svikið 2,9 milljónir evra (413 milljónir króna) út úr þinginu. Alls voru 23 sakfelldir í fjársvikamálinu auk Le Pen.
Le Pen hefur í þrígang boðið sig fram til forseta í Frakklandi og þótti í vænlegri stöðu fyrir kosningarnar 2027. Rodolphe Bosselut lögmaður Le Pen sagði að hún myndi áfrýja dómnum.
Dómarinn í málinu sagði að bannið við að bjóða sig fram tæki samstundis gildi og áfrýjun hefði ekki áhrif á það.
Le Pen neitar að hafa haft rangt við. Hún strunsaði út úr dómsalnum áður en dómarinn hafði lokið við að kveða upp dóminn og hélt rakleiðis á fund í höfuðstöðvum flokks síns í París.
Þjóðfylkingin fékk flest sæti á franska þinginu í þingkosningunum í fyrra. Samkvæmt könnunum er Le Pen með 37% fylgi, sem ætti að duga til að komast í aðra umferð í forsetakjöri. Emmanuel Macron forseti er útilokaður því að í frönsku stjórnarskránni eru mörkin dregin við setu í tvö kjörtímabil.
Stuðningsmenn Þjóðfylkingarinnar eru æfir yfir dómnum. Jordan Bardella formaður Þjóðfylkingarinnar sagði að dómurinn væri „lýðræðislegt hneyksli“.
Leiðtogar flokka á hægri jaðrinum utan Frakklands, allt frá Geert Wilders í Hollandi til Matteos Salvinis á Ítalíu, fordæmdu dóminn. „Je suis Marine!“ skrifaði Viktor Orban forseti Ungverjalands á samfélagsmiðilinn X. Það merkir „ég er Marine“ og er vísun í kjörorð, sem notað var þegar íslamskir hryðjuverkamenn réðust á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo árið 2015.
Elon Musk, milljarðamæringur og náinn samstarfsmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sagði að þetta myndi hafa „öfug áhrif líkt og lagalegu árásirnar á Trump“.
Dmítrí Peskov, talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, lagði meira að segja orð í belg og sagði að menn færu „í æ meira mæli þá leið í höfuðborgum Evrópu að rjúfa lýðræðislegar hefðir“.
Efasemdir um dóminn hafa vaknað víðar en í röðum stuðningsmanna Le Pen.
„Það er ekki heilbrigt í lýðræðisríki að kjörnum fulltrúa sé meinað að bjóða sig fram og ég tel að pólitísk deilumál eigi að útkljá í kjörkössunum,“ sagði Laurent Wauquiez, formaður þingflokks hægriflokksins Repúblikana.
Jean-Luc Melenchon, leiðtogi vinstriflokksins Frakkland óbugað, sagði að „ákvörðun um að víkja kjörnum fulltrúa til hliðar ætti að vera í höndum fólksins“.