Guðmundur Ingi Kristinsson
Guðmundur Ingi Kristinsson
Ég hef setið í stjórnarandstöðu seinustu tvö kjörtímabil og barist gegn göllum almannatryggingakerfisins í tugi ára þar á undan. Allan þann tíma hafa öryrkjar og eldra fólk eins og ég hlustað á stjórnmálaflokka lofa að leiðrétta kjaragliðnun örorku…

Ég hef setið í stjórnarandstöðu seinustu tvö kjörtímabil og barist gegn göllum almannatryggingakerfisins í tugi ára þar á undan. Allan þann tíma hafa öryrkjar og eldra fólk eins og ég hlustað á stjórnmálaflokka lofa að leiðrétta kjaragliðnun örorku og ellilífeyris, en aldrei hafa þeir staðið við stóru orðin, fyrr en nú.

Inga Sæland, félags- og húsnæðisráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi um að örorku- og ellilífeyrir muni hækka á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu, en þó aldrei minna en verðlag. Frumvarpið leggur einnig til að aldursviðbót öryrkja haldist ævilangt. Flokkur fólksins hefur alltaf talað fyrir því að ríkisstjórnir eigi að koma til móts við þá sem minnst hafa. Ein mesta kjaraskerðing sem fátækt eldra fólk og öryrkjar hafa orðið fyrir síðastliðna áratugi er vegna svonefndrar kjaragliðnunar, þ.e. vegna þess að lífeyrir hefur hækkað minna en laun.

Með þessu nýja frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ríkisstjórnin tryggt lífeyrisþegum sæti við kjarasamningaborðið. Framvegis munu bætur öryrkja og aldraðra fylgja launaþróun, í stað þess að rýrna. Þetta frumvarp mun einnig tryggja að komið verði í veg fyrir að einstaklingar fari frá því að vera öryrkjar yfir í að vera ellilífeyrisþegar við 67 ára aldur og þar með missa allt í einu aldurstengdu örorkulífeyrisuppbótina, með tilheyrandi tekjulækkun.

Í gær var 100 daga afmæli nýrrar ríkisstjórnar og það er magnað hve mikið er hægt að gera á stuttum tíma þegar viljinn er fyrir hendi og áherslurnar góðar. Ríkisstjórnin hefur mælt fyrir frumvarpi um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, fæðingarorlofskerfið verður styrkt og ráðist hefur verið í átak í málefnum barna með fjölþættan vanda.

Þá verður almennt frítekjumark ellilífeyrisþega einnig hækkað í þrepum úr 36.500 kr. og upp í 60.000 kr. á mánuði. Í dag má ellilífeyrisþegi hafa 438.000 kr. í tekjur á ári án þess að ellilífeyrisgreiðslur hans byrji að lækka. Þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda mun viðkomandi hins vegar geta haft 720.000 kr. í tekjur á ári án þess að greiðslurnar lækki. Munurinn þarna á milli er 282.000 kr. Engu skiptir hvaðan tekjurnar koma og hvort þær eru til dæmis fjármagnstekjur, tekjur frá lífeyrissjóðum eða atvinnutekjur.

Ég er bjartsýnn á að þessi ríkisstjórn muni stíga söguleg skref í baráttunni gegn fátækt og forgangsraða fyrir fólkið fyrst þar sem það er okkar stefna og mín hugsjón. Ég hlakka mikið til að geta nýtt minn baráttuvilja og léð börnum rödd til að styrkja málefni barna, menntun, forvarnir og íþróttir.

Höfundur er mennta- og barnamálaráðherra.

Höf.: Guðmundur Ingi Kristinsson