Meðferðarúrræði Stuðlar eru komnir að þolmörkum. Áskoranir hafa verið uppi vegna ýmissa atvika sem komu upp á síðasta ári.
Meðferðarúrræði Stuðlar eru komnir að þolmörkum. Áskoranir hafa verið uppi vegna ýmissa atvika sem komu upp á síðasta ári. — Morgunblaðið/Karítas
Vinna er hafin við allar þær 25 aðgerðir sem kynntar voru á síðasta ári til að sporna gegn ofbeldi meðal barna og gegn börnum. Þá hefur áætlun fyrir innleiðingu og eftirfylgni til næstu tveggja ára verið mótuð

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Vinna er hafin við allar þær 25 aðgerðir sem kynntar voru á síðasta ári til að sporna gegn ofbeldi meðal barna og gegn börnum. Þá hefur áætlun fyrir innleiðingu og eftirfylgni til næstu tveggja ára verið mótuð.

Þetta kemur fram í stöðuskýrslu aðgerðahóps sem á að vinna að heildstæðri innleiðingu og framkvæmd aðgerðanna. Vinna við þær er komin mislangt á leið. Í sumum tilfellum var staðan á aðgerðum ekki skýrð í stöðuskýrslunni heldur aðeins tekið fram að vinnan væri hafin eða vinnan væri viðvarandi.

Fylgjast með biðlistum

Ein af þeim 25 aðgerðum sem kynntar voru felst í því að styðja við meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu (BOFS). Markmiðið er að börn með alvarlegan hegðunar- og tilfinningavanda fái aðstoð til þess að taka á vanda sínum. Í skýrslunni er tekið fram að fjöldi barna á biðlista í meðferðarúrræði BOFS hafi aldrei verið meiri en í lok árs 2023. Ekki er tekið fram hve mörg börn eru á biðlistum í dag, aðeins að mikilvægt sé að fylgjast áfram með stöðu biðlista.

Í skýrslunni, þar sem gera á grein fyrir hver staðan á aðgerðinni sé, segir eftirfarandi: „Við reglulegt mat á stöðu meðferðarúrræða BOFS snemma árs 2024 kom í ljós að Stuðlar væru komnir að þolmörkum. Haustið 2024 var lagt til að farið yrði af stað í undirbúning á vistunarúrræði vegna afplánunar sakhæfra barna og vegna alvarlegustu mála barna sem eru hættuleg sjálfum sér og öðrum, sbr. 79. gr. barnaverndarlaga, og á vistunareiningu á vegum BOFS fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda og sem þurfa gæslu allan sólarhringinn. Áskoranir eru uppi er varða meðferðarúrræði BOFS vegna ýmissa atvika sem komu upp 2024, þ.m.t. myglu í húsnæði Lækjarbakka og eldsvoðans á Stuðlum.“

Í svarinu er ekki tekið fram hvernig undirbúningur vistunarúrræðanna gangi, hvaða meðferðarúrræði séu í farvatninu eða hvenær megi búast við fleiri meðferðarplássum fyrir börn með alvarlegan hegðunar- og tilfinningavanda.

Starfshópur settur á laggirnar

Önnur aðgerð miðar að því að móta verklag fyrir ósakhæf börn og að BOFS komi farveginum á fót. Í skýrslunni segir að starfshópur hafi verið settur á laggirnar til að vinna að verklagi og úrræði fyrir ósakhæf börn og endurskoðun meðferðar mála og úrræða fyrir sakhæf börn. Þá sé jafnframt unnið að því að koma á fót verkefni/teymi fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi og eru í afbrotum. Fundað var með umboðsmanni barna til að fara yfir niðurstöður könnunar embættisins um barnvænt réttarvörslukerfi meðal lögreglu, ákæruvalds og dómstóla. Þá hækkaði ríkissaksóknari sektir vegna vopnaburðar í byrjun árs.

„Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sett verklagsreglur um afskipti lögreglu af börnum og ungmennum undir 18 ára sem eru brotaþolar eða gerendur í ofbeldismálum. Einnig hafa verið settar verklagsreglur um viðbrögð við vopnaburði ungmenna í skólum og/eða æskulýðsstarfi. Gefið var út flæðirit um fyrstu viðbrögð við vopnaburði og kynferðisofbeldi. Lögreglan vinnur að því að kortleggja núverandi feril mála ósakhæfra og sakhæfra barna sem fremja afbrot, allt frá fyrstu afskiptum og þar til að meðferð mála lýkur í réttarvörslukerfinu og/eða í fullnustukerfinu,“ segir m.a. í skýrsl­unni.

Staðan á aðgerðum verður tekin í júní og september á þessu ári og í mars, júní og september á næsta ári. Önnur stöðuskýrsla verður gefin út í lok árs, ásamt tíðni ofbeldis. Þá verður gerð lokaskýrsla um samantekt, tíðni ofbeldis, árangur og tillögur til úrbóta í lok árs 2026. Nýta skal skýrsluna til þess að þróa stefnumótun í málaflokknum til framtíðar í samræmi við stefnu ríkisins um farsæld barna.

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir