„Eftir mánuð áttu milljón“ stendur í Atómstöðinni en nú er allt talið í milljörðum. Það er eins og það hafi allt í einu komið einhver voðaleg skekkja inn í kerfið og stökkbreytt því. Að einhverju leyti getur ástæðan fyrir þessari útþynningu verið að nú eru flestar opinberar framkvæmdir á svo stórum skala að fólk höndlar það ekki.
Átta menn sig kannski ekki á að milljarður er þúsund milljónir, og svo er ein meinlaus brú reiknuð upp í tíu þúsund milljónir og jafnvel tvær-þrjár slíkar í bígerð á sama tíma og enginn segir stopp?
Getur ekki stundum verið eitthvað bogið við áætlanagerð og útboð, tilreiddur reiknistokkur látinn ráða of miklu?
Þegar við heyrum of háar tölur er eins og heilinn lokist og við meðtökum ósköpin með litlum fyrirvara.
Þess vegna bregður okkur ekki þótt viðgerð á sumarsloti á vegum ríkisins fari vel yfir hálfan milljarð, og trjáfellingar í bæjarlandinu sveiflist milli tuttugu milljóna og fjögur hundruð milljóna. Áætlun slumpaði á tvö hundruð.
Sunnlendingur