Bjarni Gunnarsson
Bjarni Gunnarsson
Stjórnvöld fara oft í framkvæmdir á röngum forsendum og hafa ekki kjark til að endurskoða þær þegar kostnaður margfaldast.

Bjarni Gunnarsson

Ný ríkisstjórn auglýsti eftir tillögum um hagræðingu í ríkisrekstri og sendi undirritaður tillögur þar um sem snerust um að nota vegafé á annan hátt en nú tíðkast og fengu tillögurnar ekki brautargengi.

Fé til samgöngumála er takmarkað. Því er spurt hvort eðlilegt sé að farið sé í óþarflega dýrar útfærslu nýframkvæmda sem valda því að öðrum bráðnauðsynlegum framkvæmdum seinkar, t.d. að styrkja lélega vegi út um allt land.

Í tillögum mínum fjallaði ég um nokkrar fyrirhugaðar umdeildar og kostnaðarsamar samgönguframkvæmdir sem bifreiðaeigendur eru að borga meira og minna.

Vandamálið virðist vera að stjórnvöld ákveða oft að fara í framkvæmdir á röngum kostnaðarforsendum. Svo þegar kostnaður margfaldast hafa stjórnvöld ekki kjark til að endurskoða sínar áætlanir.

Hefðu stjórnvöld ekki skoðað aðra valkosti t.d. fyrir borgarlínu, Sæbrautarstokk, Fossvogsbrú og Ölfusárbrú ef raunhæft kostnaðarmat hefði legið fyrir í byrjun?

Borgarlínan

Þegar fyrirhuguð umdeild borgarlína ca. tvöfaldast í kostnaðarmati hlýtur að vera ástæða til að endurskoða framkvæmdina, enda er hún mjög umdeild. Allir eru sammála um að bæta þurfi almenningssamgöngur, en er það bara hægt með fyrirhugaðri borgarlínu?

Hér er lagt til að bera saman annars vegar svokallaða létta borgarlínu og hins vegar þá borgarlínu („þungu“) sem nú er fyrirhuguð. Aðallega væru þá borin saman framkvæmdakostnaður, minnkun á umferðartöfum og umferðartafir á byggingartíma.

Undirritaður telur að með endurskoðun á fyrirhugaðri borgarlínu megi spara nokkra tugi milljarða króna.

Sæbrautarstokkurinn

Ekki hefur verið sýnt fram á að þessi stokkur minnki umferðartafir eða sé samfélagslega hagkvæmur.

Honum var laumað inn í samgöngusáttmálann og átti þá að kosta tvo og hálfan milljarð króna og hefði engum dottið í hug að setja hann í sáttmálann ef hann hefði verið metinn tíu sinnum dýrari, eða um tuttugu og fimm milljarðar króna.

Óviðunandi er að Vegagerðin/bifreiðaeigendur kosti hann þar sem hann minnkar umferðartafir lítið og mun auka umferðartafir mjög mikið á byggingartíma.

Lagt er til að stokkurinn verði ekki byggður og sparnaður þar um tuttugu milljarðar króna.

Fossvogsbrúin

Þessi brú hefur margfaldast í kostnaði frá því sem áætlað var í fyrstu og ótrúlegt að ekki hafi verið haldið betur utan um kostnaðinn þegar brúarhugmyndin var boðin út.

Hér er spurt hvort eðlilegt sé að bifreiðaeigendur borgi þessa brú sem minnkar umferðartafir lítið og bifreiðaeigendur fá ekki að nota?

Lagt er til að byggingu Fossvogsbrúar verði frestað um ófyrirsjáanlegan tíma og mætti hér spara um átta milljarða króna.

Ölfusárbrúin

Þessi brú stefnir í að verða mjög dýr, enda virðist vera um nokkurs konar minnismerki að ræða.

Vegagerðin hefur lagt metnað í að þarna verði hönnuð og byggð glæsileg brú, en eru bifreiðaeigendur sáttir við að þarna verði byggð svona dýr brú sem þeir þurfa að borga með háum veggjöldum?

Í mati á umhverfisáhrifum fyrir Suðurlandsveg (maí 2010) var sýnt hvernig þyrfti að fylla út í Ölfusá frá austurbakkanum og byggja svo bráðabirgðabrú út í hólmann (Efri-Laugardælaeyja) sbr. mynd 3-19 úr skýrslunni til að byggja þar sextíu metra háan turn fyrir stagbrú. Þessa bráðabirgðabrú og fyllingar þarf svo að fjarlægja.

Hér er lagt til að skoða hvað þverun Ölfusár með fyllingum (samanber myndina) og tveimur u.þ.b. fimmtíu metra löngum brúm sem væru hvor sínum megin við hólmann myndi kosta.

Sendandi áætlar gróft að slík þverun Ölfusár gæti kostað um helminginn af fyrirhugaðri þverun og þá væri veggjaldið um helmingi lægra og fleiri myndu nota nýja brúarstæðið.

Jarðgöng undir Miklubraut og færsla flugbrauta

Sendandi hefur áður lagt til að leggja jarðgöng undir Miklubraut og að færa flugbrautir Reykjavíkurflugvallar til að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Nú stefnir í að jarðgöngin verði lögð og því er upplagt að uppgröftur úr jarðgöngunum fari í sjávarfyllingar færðra flugbrauta.

Ef þessar framkvæmdir fara saman verða jarðgöngin ódýrari og færsla flugbrautanna miklu ódýrari og hagkvæmari. Nú stendur til að byggja nýja flugstöð í Vatnsmýrinni óháð því hvað verður um flugvöllinn þar.

Sendandi áætlar miðað við fyrri áætlanir úr Rögnuskýrslu að færsla flugbrautanna með ódýrum sjávarfyllingum gæti kostað um 20 milljarða króna og væri þá hægt að nýta um tvo þriðju hluta Vatnsmýrarinnar sem byggingarland.

Undirritaður telur að þessi lausn muni spara nokkra tugi milljarða króna varðandi flugvallarvandræði höfuðborgarsvæðisins.

Gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar

Þessi gatnamót sem eru í byggingu voru skemmd með breyttri útfærslu þeirra að kröfu Reykjavíkurborgar þannig að þau væru ljósastýrð gatnamót en ekki mislæg. Með breytingunni voru teknar af tvær þægilegar hægri beygjur og til þess þurfti að breikka brúna yfir Breiðholtsbraut um tvær akreinar.

Kostnaðurinn við þessa breikkun brúarinnar er líklega um hálfur milljarður króna. Hér þurfa bifreiðaeigendur að borga um hálfan milljarð króna fyrir að fá hættulegri gatnamót með meiri umferðartöfum, meiri mengun og lengri akstursleiðum.

Höfundur er vegaverkfræðingur.

Höf.: Bjarni Gunnarsson