Reynsla Glódís Perla Viggósdóttir og Elísa Viðarsdóttir eru báðar þrautreyndar landsliðskonur og fyrirliðar sinna félagsliða.
Reynsla Glódís Perla Viggósdóttir og Elísa Viðarsdóttir eru báðar þrautreyndar landsliðskonur og fyrirliðar sinna félagsliða. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, verður ekki með í leikjunum gegn Noregi og Sviss í Þjóðadeildinni sem fram fara á Þróttarvellinum í Reykjavík á föstudag og þriðjudag. Glódís glímir við meiðsli í hné, hefur misst úr leiki …

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, verður ekki með í leikjunum gegn Noregi og Sviss í Þjóðadeildinni sem fram fara á Þróttarvellinum í Reykjavík á föstudag og þriðjudag.

Glódís glímir við meiðsli í hné, hefur misst úr leiki með Bayern München undanfarið og fór af velli eftir rúmar 80 mínútur í leik liðsins um helgina.

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari kallaði í gær Elísu Viðarsdóttur, fyrirliða Vals, inn í hópinn í hennar stað. Elísa kemur þar með inn í hópinn í fyrsta sinn síðan hún eignaðist barn snemma á síðasta ári en hún á 54 landsleiki að baki og lék síðast gegn Austurríki í júlí 2023.

Frá árinu 2013 hefur Glódís aðeins misst af einum mótsleik með landsliðinu og verið hvíld í nokkrum vináttuleikjum. Hún er næstleikjahæsta landsliðskona Íslands með 134 leiki, ellefu leikjum á eftir methafanum Söru Björk Gunnarsdóttur.