Askja Mikið sprengigos varð í Öskju í lok mars árið 1875 og hafði öskufallið frá því mikil áhrif á fólkið í sveitunum á Austurlandi, einkum á Jökuldal.
Askja Mikið sprengigos varð í Öskju í lok mars árið 1875 og hafði öskufallið frá því mikil áhrif á fólkið í sveitunum á Austurlandi, einkum á Jökuldal. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þessar mundir eru 150 ár síðan mikið sprengigos varð í Öskju. Eldgosið sjálft stóð yfir í aðeins nokkrar klukkustundir en það tók mennina og landið mörg ár að vinna úr afleiðingum þess. Áhrifanna gætti einna helst á Jökuldal þar sem öskulagið var þykkast um 20 sentimetrar

Baksvið

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Um þessar mundir eru 150 ár síðan mikið sprengigos varð í Öskju. Eldgosið sjálft stóð yfir í aðeins nokkrar klukkustundir en það tók mennina og landið mörg ár að vinna úr afleiðingum þess. Áhrifanna gætti einna helst á Jökuldal þar sem öskulagið var þykkast um 20 sentimetrar. Gunnlaugur Jónsson Snædal, bóndi á Eiríksstöðum, sagði stuttlega frá afleiðingum eldgossins í dagbók sinni á þeim tíma en vandaði þó orðin vel sem hann eyddi bleki og pappír í til að skrásetja hörmungarnar sem yfir dundu.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir þjóðfræðingur sagði frá dagbókarskrifum Gunnlaugs, sem var langalangafi hennar, á málþingi um Öskjugosið 1875 í Eddu – húsi íslenskunnar, fyrir helgi en erindi sitt byggði hún á meistararitgerð sinni í þjóðfræði frá Háskóla Íslands. Í henni notar hún dagbókina til að varpa ljósi á upplifun þeirra sem bjuggu á svæðinu.

„Fólk þurfti að flýja frá 19 jörðum á Efri-Jökuldal og Jökuldalsheiði. Það sem mér fannst einna áhugaverðast við þessa atburði var að reyna að setja mig í spor fólksins og skilja hvernig það hefur verið að upplifa svona hamfarir á þessum tíma. Þegar það voru engar almannavarnir eða vísindamenn sem gátu varað við því sem var að gerast. Þú stóðst bara algjörlega einn frammi fyrir hamförunum. Það var enginn sem gat sagt fólki hvað það ætti að gera þegar þetta dynur yfir,“ segir Elsa í samtali við Morgunblaðið og heldur áfram: „Þú varðst bara að taka inn það sem þú sást og fannst og meta sjálfur hvað þú ættir að gera.“

Elsa bendir á að umfang hamfaranna hafi komið á óvart en að þær hafi þó ekki komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Jarðskjálftar og minni eldgos voru undanfari sprengigossins.

Dagbók Gunnlaugs er góð heimild til að skyggnast inn í upplifun fólks af þessum hamförum þó að í færslunum sé ekki mikið um tilfinningar. „Svo koma þessir dagar þar sem maður getur séð örvæntinguna skína í gegn,“ segir Elsa. Hún tekur dæmi um nokkrar færslur frá honum sem eru birtar hér stafréttar. 29. mars skrifar hann: „Klukkann 3 Eldgos í nótt svo óttal óskap fram að hádegi þá byrti.“ Daginn eftir skrifar hann: „Landplága kominn fjarfellir í væntum og manndauði.“ 31. mars skrifar Gunnlaugur svo: „Askann kvartil á þíkt á hærstu sniðum og einginn viðreisnar von allt dauðlegt hlítur að deyja. Guð minn góður rjetti oss öllum hjálparhönd sem nú erum nauðstaddir og ummkomul.“

Gunnlaugur og fjölskylda hans voru meðal þeirra fjölskyldna sem yfirgáfu sveitina á þessum tíma. Höfðust þau við í Vopnafirði árin á eftir og sneru ekki til baka fyrr en 1878. Elsa segir að ástandið á jörðunum á Efri-Jökuldal og Jökuldalsheiði hafi skánað mun fyrr en von var á í fyrstu. En hún bendir líka á að fjölskyldurnar gátu ekki stokkið upp í bíl og rýmt sveitirnar á skömmum tíma.

„Þú smalaðir ekki öllu fólkinu og bústofninum upp í bíl og keyrðir í burtu. Allt þurfti að fara fótgangandi eða á hestum og það tók langan tíma. Fólk bjó áfram á bæjunum þrátt fyrir öskuna í nokkrar vikur eða mánuði á meðan verið var að gera nauðsynlegar ráðstafanir,“ segir hún og bendir á að fréttir hafi ekki verið sagðar af gosinu í fréttamiðlum þess tíma fyrr en mörgum vikum seinna. Í dagbók Gunnlaugs getur hann þess um miðjan maí að hann hafi sótt fólkið sitt til að fara til Vopnafjarðar.

Sprengigosið í Öskju hrakti ekki aðeins Gunnlaug og ábúendur í Efri-Jökuldal og Jökuldal á flótta. Íslendingar voru á þessum árum farnir að flýja yfir til Ameríku í stórum stíl. Í kjölfar eldgossins átti vesturförunum eftir að fjölga.

Sprengigos í Öskju 1875

Gufustrókar úr Dyngjufjöllum

Sprengigosið í Öskju 28. mars 1875 átti sér töluverðan aðdraganda. Í febrúar, um ári fyrir gosið mikla, sáust úr Mývatnssveit miklir gufustrókar úr Dyngjufjöllum. Þá var þess getið um haustið að nýjar sprungur hefðu fundist í Sveinagjá, um 50-70 km frá Öskju. Þá fannst fjöldi jarðskjálfta í byggð. Á nýársdag 1875 sást mökkur til Dyngjufjalla og næstu daga er getið um mikla og stöðuga skjálftavirkni. 3. janúar hófst svo eldgos í Öskju og aska féll í byggð á Norðausturlandi. Þá hélt jarðskjálftavirkni áfram næstu mánuði. Í könnunarferð fundu bændur úr Mývatnssveit 100 metra víðan gíg við Öskju og skammt frá var hringlaga sigdæld.

Það var svo að kvöldi 28. mars að til tíðinda dró þegar öskumökkur sást stíga upp af Öskju. Að morgni 29. mars féll fíngerð gráleit aska í byggð um 50 km austan Öskju, en hætti eftir um klukkustund. Sama morgun hófst plínískt þeytigos með háum og efnismiklum gosmekki. Gjóskufallið varði í um sex klukkustundir.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir