Besta deildin
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
„Þetta er búið að vera svolítið strembið undirbúningstímabil. Við erum búnir að missa meira en við höfum sótt. En við erum ennþá í grunninn með kjarnann okkar. Við erum líka búnir að vera svolítið óheppnir, margir leikmenn hafa verið meiddir á undirbúningstímabilinu,“ sagði Ívar Örn Árnason, fyrirliði KA í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.
„Við fáum hérna þrælgóðan markmann [Jonathan Rasheed] sem náði einhverjum fjórum æfingum með okkur áður en hann slítur hásin. Heppnin er ekki búin að vera með okkur í undirbúningnum fyrir þetta tímabil en við erum að endurheimta marga pósta núna rétt fyrir tímabil.
Það þýðir ekki endilega að menn séu leikfærir en eru á góðum batavegi. Á tímabilinu sem er fram undan byrjum við á mjög ströngu prógrammi, sem er kannski fínt miðað við byrjunina okkar í fyrra. Þá áttum við að byrja á auðveldu prógrammi en gátum ekki keypt okkur sigur.
Tímabilið leggst mjög vel í mig. Við erum komnir aftur með Jóan Símun Edmundsson. Hann kemur mjög vel undan þeim litla tíma sem hann hefur verið með okkur. Það er mjög fínt fyrir okkur að fá eitthvað ferskt inn í hópinn, þótt þetta sé nú leikmaður sem við þekkjum allir, og til að uppfæra standardinn á æfingum og þess háttar. Við erum bara ágætlega bjartsýnir fyrir komandi tímabil,“ hélt hann áfram.
Alltaf vel þegið uppi á Brekku
Auk Rasheeds og Jóans Símuns hefur KA samið við danska markvörðinn William Tönning og bakvörðinn Guðjón Erni Hrafnkelsson fyrir tímabilið.
Hvernig hafa nýju leikmennirnir komið inn í þetta hjá ykkur?
„Við fengum náttúrlega stóran prófíl af markmanni, sem lofaði rosa góðu. Hann er nú farinn. Við fengum nýjan markmann sem var tekinn inn sem samkeppni við Stubbinn.
Svo er náttúrlega Jóan Edmunds, sem er atvinnumaður frá a til ö, hugsar rosalega vel um sig og er með þvílík gæði. Síðan er það Guðjón Ernir, sem er þindarlaus bakvörður með endalausa hlaupagetu. Það er alltaf vel þegið uppi á Brekku að fá slíka leikmenn,“ sagði Ívar.
Skakklappa-undirbúningur
Líkt og hann bendir á hefur gengið á undirbúningstímabilinu ekki verið upp á marga fiska hjá KA. Liðinu gekk ekki vel í deildabikarnum, tapaði fyrir nágrönnunum í Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins og fyrir Breiðabliki í leiknum um Meistara meistaranna. Spurður hvernig staðan á leikmannahópnum hjá KA væri núna þegar stutt er í að Besta deildin hefjist sagði Ívar:
„Það ber þess merki, eins og úrslitin gefa til kynna, að það er búið að vera mikið af skakkaföllum. Við erum ekki með neitt svakalega breiðan hóp og þessir ungu leikmenn, sem við hefðum viljað að væru að taka þessar mínútur og leiki af eldri leikmönnum til þess að dreifa álaginu, hafa líka verið meiddir.
Þannig að þetta er búið að vera svolítið skakklappa-undirbúningstímabil. Leikmenn sem ég geri ráð fyrir að Haddi [Hallgrímur Jónasson þjálfari] vilji ekki að spili 90 mínútur í hverjum einasta leik á undirbúningstímabili hafa verið að gera það. Við erum búnir að missa aðeins af leikmönnum án þess að vera að sækja eitthvað svakalega mikið.
Þetta hefur verið svolítið langt og strembið. Ég sjálfur er búinn að glíma við smávegis meiðsli. Það eru margir leikmenn að koma núna til baka, eins og Jakob Snær [Árnason] sem hefur verið að glíma við smá hnémeiðsli og Biggi Bald [Birgir Baldvinsson] sem fór í aðgerð í október og er búinn að vera að æfa á fullu.
Þessir leikmenn eru svo sem ekki komnir í 100 prósent leikstand en eru orðnir það góðir að þeir geta verið á bekknum. Sama með Rodri sem fór í aðgerð núna í janúar og er bara orðinn mjög brattur. Við ættum að vera með okkar allra sterkasta lið þegar tímabilið byrjar.“
Veturinn þungur andlega
Því hefur hann ekki teljandi áhyggjur af KA-liðinu þegar á hólminn verður komið.
„Nei, veistu, ég er búinn að vera það lengi í þessu. Við norðanmenn erum ekkert að stressa okkur á undirbúningstímabili og höfum eiginlega aldrei gert. Þegar ég byrjaði í meistaraflokki komu útlendingarnir ekkert fyrr en í byrjun mars þannig að þeir væru bara fyrst að mæta núna nýlega.
En við viljum hækka standardinn, við viljum hækka rána og vera fagmannlegri. Við erum kannski búnir að vera aðeins á eftir í þessum glugga og erum kannski aðeins að rétta úr kútnum núna. Ég vona að stjórnin sé bara svona rosalega vandlát í að velja réttu einstaklingana.
En eins og ég sagði áðan þá hefur þetta undirbúningstímabil einkennst svolítið mikið af meiðslum. Það eru margir þriðja flokks leikmenn sem hafa fengið sénsinn af því að strákarnir úr öðrum flokki sem við viljum að spili eru líka meiddir.
Við erum búnir að tala um það að þegar mótið byrjar verðum við með gott lið. Þetta er búið að vera svolítið „treysta ferlinu“ þessi vetur. Þótt hann hafi ekki verið snjóþungur þá er hann búinn að vera dálítið þungur andlega. En núna er farið að birta til og það styttist í mót. Þá er engin ástæða til þess að vera að skæla,“ sagði Ívar að lokum.