Donald Trump hafði gefið til kynna, nokkru áður en hann náði, nokkuð óvænt, kjöri sem forseti í annað sinn, eftir að hafa orðið undir 2020, að hann myndi á fyrstu dögum sínum í embætti á ný gjörbreyta stöðunni sér í hag og á meðal annarra kraftaverka myndi hann, eins og hendi væri veifað, binda enda á stríðið í Úkraínu, og eins tryggja, að Ísraelsmenn næðu, með Bandaríkin sem bakhjarl sinn, að knýja Hamas-skæruliðana til raunverulegrar uppgjafar, eða að þeir yrðu að öðrum kosti algjörlega upprættir.
Það voru raunar allmörg önnur mál, sem ultu þannig bersýnilega einungis á snilligáfu tilvonandi húsbónda í Hvíta húsinu, enda veðjuðu flestir á, að Kamala Harris myndi aldrei ná að sópa burt hinni óþægilegu mynd af Joe Biden, áður en Trump kláraði að sópa henni burt.
Flest þessara mála, sem Trump lofaði að kippa snögglega í liðinn, virtust standa þannig, að það væri alls ekki fráleitt að ætla, að ekki þyrfti nema það eitt, að losna við Biden, til þess að myndin gjörbreyttist algjörlega Donald Trump í hag.
Fræðimenn og stjórnvitringar höfðu þó sínar efasemdir. Donald Trump hafði tapað fyrir Joe Biden 2020, sem sagt fyrir fáeinum árum. Og sagan sýndi að einungis einu sinni hefði forseti, sem tapað hafði kosningum, náð að snúa þeirri stöðu við fjórum árum síðar.
Hefðbundnir fréttatímar bandarísks sjónvarps og eins landsfrægir blaðamenn við þekkta fjölmiðla, allir í stuðningsliði demókrata um langt árabil, sáu ekkert athugavert við þá spádóma, að Joe Biden, sem var þó hættur að mestu að halda þræði, nema þá í örstutta stund í senn, gæti hugsanlega unnið Trump á ný, ef heppnin stæði með honum þá stundina.
En allir helstu valdamenn, í djúpríki demókrata, voru ekki eins bláeygðir og blaðamennirnir, og voru nú orðnir sannfærðir um það, að kraftaverkin dygðu ekki lengur til.
Valdamennirnir í flokki demókrata, þar á meðal Obama fyrrverandi forseti, töldu sér beinlínis skylt að koma þessum ömurlega Biden-böggli burt og leitast við að kalla til verka varaforseta, Kamölu Harris, sem að auki hefði það með sér, ef „plottið“ heppnaðist, að verða fyrsta konan til að verða forseti Bandaríkjanna.
Það voru hins vegar nokkrar ástæður, sem tryggðu það, að margir létu eftir sér að trúa þessum spádómum Trumps.
Meginástæðurnar voru þó sennilega þær, að Joe Biden hafði misst niður flest sín mál, og hann kom að auki þannig fyrir á sjónvarpsskermum þjóðarinnar, að hann væri fjarri því að „ganga á öllum“, og ekki síst voru það hinar frægu kappræður forsetans og Trumps forsetaefnis, sem gerðu sannfæringu hans nú þá, og ekki ósennilega, að hann teldi nú, að hann kynni að verða forseti Bandaríkjanna á ný.
Margir minnast þess enn, þegar Trump og varaforseti hans þrengdu að forseta Úkraínu í forsetaskrifstofunni, að fjölda blaðamanna viðstöddum, sem þóttust komnir í feitt.
Gestgjafar gengu of langt, ekki síst þegar þeir hömruðu á því, að forseti Úkraínu léki sér að eldinum, og bættu svo við að með afstöðu sinni gæti hann stofnað til þriðju kjarnorkustyrjaldar!
Þessi aðferð, að láta forseta Úkraínu og blaðamenn sitja undir ákúrum af þessu tagi, var ótæk.
Við margvísleg tækifæri gaf Trump til kynna, að hann væri í góðu sambandi við Pútín forseta, og hefði á honum mikið álit.
Nú nýlega sagðist Trump vera mjög reiður Pútín forseta og svo mikil væri reiði sín, að einboðið væri, að ef það mál yrði áfram á sama stað, þá myndi hann tilkynna Pútín að gríðarlegur kostnaður og þungbær yrði lagður á hann.
Sennilegast er þó, og sagan sýnir, að Pútín geri lítið eða ekkert með slíkt. Enda gaf málatilbúnaður Trumps til kynna, að Pútín væri ekki lengur sá „vinur“ sem Trump hafði talið.