Afmælisbarnið Hafsteinn með Willysinn sinn sem hann smíðaði upp.
Afmælisbarnið Hafsteinn með Willysinn sinn sem hann smíðaði upp.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson er fæddur 1. apríl 1940 á Hauganesi í Eyjafirði og ólst þar upp. „Margir leggja áherslu á að allir fari í háskólanám. En ég eins og fleiri fór aðra leið, gegnum Iðnskólann og verklegt nám

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson er fæddur 1. apríl 1940 á Hauganesi í Eyjafirði og ólst þar upp.

„Margir leggja áherslu á að allir fari í háskólanám. En ég eins og fleiri fór aðra leið, gegnum Iðnskólann og verklegt nám. Ég útskrifaðist vélvirki eftir fjögurra ára nám og vann við það í þrjú ár. Ég útskrifaðist þá sem vélvirkjameistari og gat þá tekið að mér lærlinga en svona var kerfið þá.“

Svo tók Hafsteinn mótornámskeið einn vetur og var svo í Vélskóla Íslands í þrjá vetur, útskrifaðist þaðan sem vélfræðingur og var í rafmagnsdeild á síðasta árinu. „Þetta voru alls um tólf ár, í bóknámi og verklegri kennslu á fjölmörgum sviðum. Á þessum árum lærði ég eldsmíði, rennismíði, blikksmíði, á allar suðutegundir og kælitækni og vélvirkjun, þ.e. viðgerðir á alls kyns vélum og tækjum og nýsmíði. Iðnnám gerir fólk gjaldgengt í fjölda vel launaðra starfa.“

Á sumrin var Hafsteinn á síldveiðum, fyrst háseti, svo vélstjóri. Síðan var Hafsteinn vélstjóri á Fossum Eimskips frá 1971, Tungufossi og Fjallfossi og síðast á Brúarfossi, stærsta skipi Íslands þá. „Margt eftirminnilegt gerðist á þessum tíma. Ég lenti fyrir herrétti í Norfolk á Englandi eftir að við yfirmenn á Brúafossi fórum á klúbb fyrir officera en þá hafði ég lagt í þeirra stæði og mér láðist að ná í bílinn í tíma. Svo sigldum við á borgarísjaka um 100 mílur suður af Grænlandi og vorum heppnir að lenda ekki á botninum.

Árið 1973 keypti ég íbúð í Kópavogi og flutti allt í hana frá Bandaríkjunum. Ári seinna hóf ég síðan innflutning á notuðum, 2-3 ára flottum bílum og keypti þrjá til fimma bíla í ferð. Þetta gaf góðar tekjur og var skemmtilegur tími.“

Hafsteini var boðið að taka við og stýra nýju fyrirtæki Eimskips, Ryðvarnarskálanum, árið 1977. „Ég tek því og er sendur til Svíþjóðar til að læra á tæknina sem Valvoline var að koma upp og var í Malmö. Ég lærði á þeirra tækni og við notuðum hana. Ég rak þetta í nokkur ár þar til Eimskip vildi kosna undan rekstrinum. Þeir buðu mér að taka hann yfir sem ég gerði 1986.“

Hafsteinn stofnaði einnig Bílaleigu RVS og bón og Master Glace meðferð. „Ég opnaði útibú á Akureyri, Höfn, Þórshöfn og í Reykjavík. Ég kaupi síðar AVIS-bílaleiguna í samvinnu við ALP. Þetta gekk og var skemmtilegur tími en mikil vinna, þá voru tölvur ekki komnar og notast var við telex-tækni. Þetta gekk svona þar til ég kaupi ALP út. Nokkrum árum seinna eða 1996 fæ ég tilboð frá AVIS í Noregi og seldi þeim flotann sem var um 180 bílar. Ég var feginn að komast í frí og fórum við Inga konan mín til Spánar í afslöppun.

Á fimmta degi var hringt í mig, er það eigandi Hótel Víkur, í Reykjavík að biðja mig um að verða hótelstjóri á hótelinu. Ég var hótelstjóri á Hótel Vík í fimm ár. Það var mikil og krefjandi vinna, svo ég sagði upp. Ég fór síðan á meiraprófsnámskeið og fór að keyra hjá Hreyfli og var leigubílstjóri í Reykjavík í 15 ár. Það var góður tími.“

Hafsteinn var virkur í félagsmálum og var m.a. formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs. „Ég fékk þá vin minn, Gunnar Inga Birgisson, til að ganga í félagið, þá nýorðinn verkfræðingur. Síðar kom að bæjarstjórnarkosningum og sótti ég hart að honum að bjóða sig fram í 1. sæti. Þetta gekk eftir og Kópavogur fór að blómstra í samstarfi við Framsókn. Ég starfaði með Gunnari í 22 ár í mörgum nefndum Kópavogs.“

Áhugamál Hafsteins eru margvísleg. „Ég smíðaði upp Willysinn ´47 okkar pabba og gerði hann að alvöru tæki: 38” dekk, chevy 8 sylindra.og nýtt hús. Bíllinn er orðinn 78 ára, en við keyptum hann þegar ég var 16 ára. Ég hef oft tekið að mér að smíða stiga, palla, leggja parket og setja saman IKEA- innréttingar. Ég hef einnig unnið við uppbyggingu á Sandvíkurböðunum og fleira á Hauganesi, svo eitthvað sé nefnt.“

Hafsteinn var nokkra vetur í listmálaranámi og hefur haldið 15 sölusýningar. Hann stundaði nám í ljóðagerð og gekk í Ljóðahópinn Gjábakka árið 2010. Hann hefur gefið út sjö ljóðabækur, ásamt því að eiga ljóð í um 10 öðrum ljóðabókum. Hann hefur farið á nokkur námskeið í tónlist, gert yfir 100 texta við lög. Hann hefur gefið út nótnaheftin Einsöngslög 1 með 15 lögum og 2 með 16 lögum. Hann hefur gefið út tvo diska með 23 frumsömdum ljóðum og lögum sem má nálgast á Spotify. „Ég hef gaman af því að semja ljóð og lög og geri það á hverjum degi. Ég á nú yfir 100 lög útsett á nótum, fyrir ýmsar tegundir kóra.“

Lengst af notað hönd og hug,

Háskólans ei notið.

Allflest búum yfir dug

og erfð frá getnað hlotið.

Fjölskylda

Eiginkona Hafsteins er Ásthildur Inga Haraldsdóttir fv. ballettdansari, f. 9.7. 1943. Þau eru búsett í Kópavogi. Foreldrar Ingu voru hjónin Haraldur Sæmundsson, f. 18.5. 1911, d. 13.10. 1990, rafvirkjameistari, og Hólmfríður Jóna Ingvarsdóttir, f. 27.9. 1914, d. 1.1. 1983, húsfreyja. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Hafsteins með fv. eiginkonu sinni, Guðríði S. Stefánsdóttur, eru tvö: 1) Stefán Rafn bifreiðarstjóri f. 11.8. 1959, búsettur í Mosfellsbæ, kvæntur Þórhildi Svavarsdóttur skólaliða og eiga þau þrjá syni og eina dóttur: Svavar Trausta, f. 3.3. 1982; Gunnar Þór, f. 21.4. 1984, Hafstein Reykjalín, f. 29.11. 1986 og Kötlu Hrönn, f. 13.1. 1998. Fyrir hjónaband eignaðist Stefán Rafn soninn Heiðar Örn, f. 23.11. 1980; 2) Hulda Jóhanna hjúkrunarfræðingur, f. 7.8. 1960, búsett á Dalvík, gift Guðmundi Ingvasyni húsasmíðameistara og eiga þau tvær dætur: Valgerði Ingu Reykjalín, f. 21.8. 1989 og Katrínu Evu Reykjalín, f. 22.11. 1996.

Börn Ásthildar eru Haraldur Helgi flugvélavirki og Katrín Helgadóttir lífeindafræðingur, Haraldur er fráskilinn og börn hans eru Alexander, Ísarr, og Klara Valgerður Inga. Katrín er gift Bjarna K. Þorvarðarsyni, verkfræðingi og fjárfesti. Börn þeirra eru Kristín Hulda, Ingvar Þór, Þorvarður Helgi og Inga Björg Magnea.

Systkini Hafsteins eru: Hanna Guðrún, f. 6.7. 1934, bóndi; Vigfús Reynir, f. 21.3. 1943, fv. skipstjóri á Dalvík, Elísabet, f. 30.1. 1946, húsmóðir á Dalvík, Ragnar Reykjalín, f. 25.9. 1948, skipstjóri og útgerðarmaður á Hauganesi, og Elvar Reykjalín, f. 26.12. 1954, skipstjóri, útgerðarmaður og athafnamaður á Hauganesi.

Foreldrar Hafsteins voru hjónin Jóhannes Reykjalín Traustason, f. 26.7. 1913, d. 22.1. 1985, útvegsbóndi og oddviti á Hauganesi, og Hulda Vigfúsdóttir, f. 16.8. 1914, d. 31.5. 2007, húsfreyja á Hauganesi.