Guðmundur Óskar Hermannsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 25. maí 1950. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi 16. mars 2025.
Foreldrar hans voru Þórdís Ólafsdóttir, f. 2. maí 1922, d. 2. júlí 1982, og Hermann Guðmundsson, f. 12. júní 1917, d. 12. desember 2005.
Systkini: Sólrún, f. 1945, d. 2020, Sveinbjörg, f. 1946, d. 2001, Herdís, f. 1949, d. 2021, og Halldór Karl, f. 1958.
Guðmundur átti dótturina Sólveigu, f. 6. júní 1972, með Sesselju Svövu Svavarsdóttur, f. 1953. Sólveig er gift Daníel Sveinbjörnssyni, f. 6. október 1966. Börn þeirra eru Kristófer, f. 1994, dóttir hans Írena Rán, f. 2023, og Svava Ósk, f. 1996, sambýlismaður hennar er Patrick Matthews.
Guðmundur kvæntist 25. maí 1974 Bryndísi Einarsdóttur, f. 9. desember 1952, d. 20. júní 2016. Foreldrar hennar eru Guðbjörg Sigríður Kristjónsdóttir, f. 7. maí 1928, og Einar Matthías Kristjánsson, f. 2. október 1926, d. 4. febrúar 1997.
Synir þeirra eru: Hermann, f. 16. desember 1975, sambýliskona hans er Signý Magnúsdóttir, f. 22. febrúar 1978. Börn þeirra eru Rakel Ýr, f. 1995, Óskar Máni, f. 2004, og Bryndís Lína, f. 2014. Ingþór, f. 10. júlí 1978. Börn hans eru Egill Hrafn, f. 2010, og Katla Björk, f. 2013.
Guðmundur sleit barnsskónum á Suðureyri og var alla tíð mikill Vestfirðingur. Hann fór ungur í sveit að Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði og varði þar nokkrum sumrum. Eftir þrjá vetur við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði stundaði Guðmundur nám við Samvinnuskólann á Bifröst þar sem hann sinnti félags- og íþróttalífi af miklum krafti samhliða námi. Hann eignaðist rútu um tvítugt og sinnti um hríð hópa- og sérleyfisferðum í heimabyggð. Lengst af starfaði Guðmundur við skrifstofu- og verslunarstörf. Hann var alla tíð virkur í félagsstörfum.
Útför Guðmundar fer fram í dag, 1. apríl 2025, kl. 13 frá Bústaðakirkju.
Þá er komið að kveðjustund Gummi minn. Það er örugglega kærkomin hvíld fyrir þig að þurfa ekki að standa í þessari veikindabaráttu lengur. Það væri synd að segja að þú hafir ekki reynt að standa á eigin fótum allt til loka þinnar lífsgöngu.
Það eru liðin mörg ár síðan Gummi kom inn í fjölskylduna. Ég varð sjálf vitni að því þegar Bryndís kom með kærastann heim í fyrsta skipti og kynnti hann fyrir fjölskyldunni. Honum var boðið í mat og við tók nokkuð vandræðaleg stund, en hann sat mjög prúður og stilltur. Bræðurnir máttu til með að bregða á smá glens og einn sagði „mikið éturðu maður“. Aumingja Gummi vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, hann hafði alls ekki borðað mikið. Þetta átti auðvitað að vera spaug en systur þeirra þótti þetta ekki sniðugt og seinna komumst við að því að Gummi var mjög mikill matmaður. Oft var minnst á þessa máltíð og Gummi fremstur í flokki að útfæra atvikið í sínu fræga fantasíuformi.
Við vorum samstiga fyrstu árin og byrjuðum að búa á svipuðum tíma, þau á Eyrarbakka og við á Selfossi. Fyrstu börnin komu svo í heiminn. Við vorum í miklu sambandi og oft var setið og teflt heilu kvöldin.
Bryndís og Gummi áttu síðan eftir að búa víða og fluttu m.a. til Svíþjóðar og bjuggu þar um tíma. Lífið var ekki alltaf dans á rósum en alltaf héldu þau áfram og stóðu saman. Alls staðar þar sem þau hafa búið hafa þau verið fljót að kynnast fólki og voru mjög vinsæl.
Síðustu árin bjuggu þau á Laugarvatni og ráku Tjaldmiðstöðina í nokkur ár. Það var mjög gaman að koma til þeirra þangað. Þau voru svo sniðug að finna upp á einhverjum skemmtilegum uppákomum eins og þegar þau voru með aðventukvöldin og buðu upp á síld og rúgbrauð upp á „dansk måde“ og hangikjöt og tilheyrandi. Þetta var mjög vinsælt og alltaf troðfullt hús.
Því miður gekk ekki rekstur Tjaldmiðstöðvarinnar, þau komu eins og margir aðrir illa út úr hruninu og heilsu Bryndísar fór hrakandi. Hún kvaddi okkur árið 2016, allt of snemma. Gummi hugsaði vel um Bryndísi sína í hennar veikindum og missir hans var mikill þegar hún fór. Hann bjó áfram á Laugarvatni en þar höfðu þau hjónin eignast stóran vinahóp sem var þeim mikil stoð alla tíð, ekki síst í veikindum Bryndísar og núna þessi síðustu ár þegar heilsa hans fór versnandi.
Þetta eru mjög fátækleg orð, Gummi minn, það er hægt að segja svo margt fallegt um þig, t.d. hvað þú gast verið ótrúlega fyndinn og hvað þú varst hagmæltur og skrifaðir listavel. Alltaf fenginn til að skrifa í kortin þegar gefa átti gjafir sameiginlega. Ekki má gleyma hvað þú hafðir gaman af fjöldasöng og söngst af mikilli innlifun, svo mikilli að lagvissustu menn fóru út af laginu.
Svo voru þessi ótrúlega skemmtilegu orðatiltæki eins og t.d. „Fattarðu vel“ og „Mister“. Ég held að allir Laugvetningar þekki þig sem Mister.
Þín verður saknað af okkur fjölskyldunni Gummi minn, þakka þér fyrir öll árin.
Þín svilkona,
Brynhildur Geirsdóttir.
Sæll, mister! Þetta voru orð sem Guðmundur notaði oft þegar maður hitti hann. Það er svo margs að minnast þegar maður minnist Guðmundar. Hann hefur fylgt mér alla ævi og á mínum bæ aldrei verið kallaður annað en Gummi frændi. Á árum áður var Gummi tíður gestur á æskuheimili mínu enda átti hann alla tíð gott samband við foreldra mína.
Það var alveg sama hvenær maður hitti Gumma eða undir hvaða kringumstæðum, hann var alltaf glaður og gleði hans var smitandi. Brosið var sérstakt, hann brosti einhvern veginn með öllu andlitinu, ljómaði og augun með. Í gleðskap var hann hrókur alls fagnaðar og frásagnarhæfileikar hans eftir því. Sögur hjá Gumma voru af annarri tegund, alltaf lifandi og skemmtilegar. Hann hafði líka einstakt lag á íslensku máli, hafsjór af fróðleik, sérstaklega um fólk, Vestfirði, ættir sínar og fjölskyldu. Hann var gegnheill Vestfirðingur og unni sérstaklega uppeldisstöðvum sínum á Suðureyri við Súgandafjörð. Guðmundur hafði einlægan áhuga á fólki og öllum félagsskap manna enda virkur þátttakandi á því sviði.
Á seinni árum voru þau mörg skiptin sem ég leitaði til hans til að fá upplýsingar um skyldmenni og fólk sem ég hitti frá Vestfjörðum. Slík símtöl áttu það til að lengjast í annan endann því aldrei stóð á svörum. Hann rak sögu hvers manns, sérstaklega ef þeir áttu tengsl við Súgandafjörð. Guðmundur bjó yfir eðlislægri bjartsýni jafnvel þótt dagarnir í lífi hans yrðu misjafnir eins og annarra. Umhyggja hans var stór. Hvort sem var í barnæsku eða á fullorðinsárum mínum hafði hann alltaf einlægan áhuga á að vita um hvernig lífið gengi og hvernig maður hefði það og yfir slík mál þurfti ávallt að fara áður en talið gat borist að öðru.
Þótt heilsu Gumma tæki að halla á síðustu árum var gleðin og bjartsýnin alltaf til staðar. Okkar síðustu fundir voru nákvæmlega eins og ég vil minnsta þessa góða manns. Sólríkur dagur, Gummi reffilegur í sínu fínasta pússi, hatturinn, brosið og gleðin til staðar.
Ég kveð þig, kæri frændi, með miklum söknuði en um leið með gleði í hjarta yfir fegurð þeirra minninga og stunda sem ég fékk þó með þér í gegnum lífið. Ég votta börnum hans, Sólveigu, Hermanni og Ingþóri, og hans eina eftirlifandi bróður, Dóra Kalla, og fjölskyldum mína dýpstu samúð. Þar sem góðir menn fara eru guðs vegir.
Eiríkur S. Svavarsson.