Birgir Loftsson
Birgir Loftsson
Við getum komið upp raunhæfum vörnum (betri en eru í dag) á eigin vegum með lágmarksmannskap.

Birgir Loftsson

Á þessum óvissutímum er ekki úr vegi að huga að stöðu Íslands og hvort Íslendingar geti tekið við vörnum landsins. Sú mýta hefur myndast að við höfum hvorki efni né mannskap til að stofna til varnarsveita en er það satt?

Undirritaður reiknaði út kostnað við að stofnsetja fastaher af lágmarksstærð – undirfylki. Léttvopnað fótgönguliðsafl: 3.486-10.459 milljónir. Ef vélvætt fótgöngulið: 6.972-25.101 milljón.

Lágmarks árleg fjárhagsáætlun til að viðhalda herafla fyrir léttvopnað fótgöngulið: 2.092-5.578 milljónir á ári og vélvætt fótgöngulið: 3.48-8.367 milljónir á ári. Tvö eldflaugabatterí af bestu gerð fyrir Suðurnes og höfuðborgarsvæðið kosta samtals 14 milljarða.

Annar möguleiki fyrir Ísland er léttvopnað fótgöngulið með NATO-samþættingu. Áætlaður kostnaður: 2.092-4.183 milljónir á ári.

Elítusérsveit – lítil, þrautþjálfuð hersveit (50-100 hermenn) í stað 250. Búin nútímavopnum og loftvarnar-/sprengjuvarnarvopnum. Áætlaður kostnaður 1.394-2.789 milljónir á ári.

Blendingur af landhelgisgæslu+undirfylki. Áætlaður kostnaður: 1.394-4.183 milljónir á ári.

Heimavarnarlið. Liðsmenn þjálfaðir í einn mánuð á ári, þeir fengju greiðslur fyrir þann tíma. Foringjar í fullu starfi, 10-20 manns. Ef foringjaliðið væri 15 manns með meðallaun 900.000 ISK á mánuði væri árskostnaður við laun foringja um 129,6 milljónir ISK á ári. Ef 250 liðsmenn fengju 800.000 ISK fyrir mánaðarþjónustu væri sá kostnaður 200 milljónir ISK á ári. Samtals launakostnaður: Um 329,6 milljónir ISK á ári, sem auk annars kostnaðar færir kostnaðinn upp í 500 milljónir. Vopn og búnaður. Ef notuð væru létt skotvopn, drónar, farartæki og loftvarnakerfi gæti stofnkostnaður verið á bilinu 2-10 milljarðar ISK (fer eftir umfangi).

Í raun er ekki byrjað frá grunni. Hér er NATO-herstöð á Keflavíkurflugvelli og fjórar ratsjárstöðvar sem fjárfest hefur verið í fyrir tugi milljarða króna. Íslendingar einir munu ekki bera uppi kostnaðinn, heldur einnig NATO og Bandaríkin. Hér er um pólitískan vilja að ræða, ekki efnahagslega getu eða skort á mannskap. Við getum komið upp raunhæfum vörnum (betri en eru í dag) á eigin vegum með lágmarksmannskap með íslenska varnarhagsmuni að leiðarljósi.

6,8 milljarðar fara í varnamál 2025 og LHG fær 8,2 milljarða. Ofangreindar tölur eru því ekki óraunhæfar.

Hvað vilja Íslendingar gera? Vera upp á náð Bandaríkjamanna eða evrópskra bandamanna með eigin varnir? Sagt er að ríki eigi bara hagsmuni, enga vini eða bandamenn. Síðastliðið misseri hefur staðfest þessa staðhæfingu. Þetta ættu Íslendingar að hafa í huga og muna að eigin hervarnir eru síðasta sjálfstæðismál Íslands.

Höfundur er sagnfræðingur.

Höf.: Birgir Loftsson