Reyndur Pekka Salminen er 62 ára gamall og býr yfir gríðarlegri reynslu sem körfuboltaþjálfari. Hann er nýr þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Reyndur Pekka Salminen er 62 ára gamall og býr yfir gríðarlegri reynslu sem körfuboltaþjálfari. Hann er nýr þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig sem þjálfara og ég er mjög spenntur,“ sagði Pekka Salminen, nýráðinn þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum KKÍ í Laugardal í gær

Körfubolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig sem þjálfara og ég er mjög spenntur,“ sagði Pekka Salminen, nýráðinn þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum KKÍ í Laugardal í gær.

Salminen, sem er 62 ára gamall, er gríðarlega reynslumikill þjálfari sem var meðal annars aðstoðarþjálfari finnska karlalandsliðsins frá 2001 til 2014 og þá þjálfaði hann finnska kvennalandsliðið í átta ár frá 2015. Hann gerði karlalið Solna að Svíþjóðarmeisturum árið 2003 og þá gerði hann karlalið Kataja að Finnlandsmeisturum árið 2015.

„Ég er umvafinn góðu fólki innan íslenska körfuboltasamfélagsins. Ég er búinn að kynna mér leikmennina mjög vel og eftir því sem ég skoðaði þá betur þá áttaði ég mig alltaf betur og betur á því úr hversu góðum hópi leikmanna ég hef að velja. Vissulega vantar aðeins upp á hæðina hjá okkur en það á ekki að vera liðinu nein fyrirstaða og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta lið geti komist alla leið í lokakeppni Evrópumótsins,“ sagði Salminen.

Mjög jákvætt fyrir þjálfarann

Salminen hefur mikla trú á leikmannahópnum og er ánægður með þann stóra hóp leikmanna sem hann hefur úr að velja.

„Ég leit yfir listann yfir þá leikmenn sem hafa verið viðloðnir landsliðið á síðustu árum og þetta eru yfir 40 nöfn sem eru komin með landsliðsreynslu sem er mjög jákvætt fyrir mig sem þjálfara.

Stóra markmiðið er að koma liðinu í lokakeppni Evrópumótsins á einhverjum tímapunkti. Það er því okkar, innan körfuknattleikshreyfingarinnar, að hjálpa þessum leikmönnum að taka næsta skref á sínum ferli og hjálpa þeim að verða ennþá betri leikmenn.“

Hvað var það við íslenska liðið sem heillaði Finnann?

„Það var margt. Þegar þetta kom fyrst upp hafði ég ekki einu sinni hugleitt það að ég myndi einhvern tímann þjálfa á Íslandi, hvað þá landslið. Þetta var mjög óvænt en um leið og ég frétti af áhuga körfuknattleikssambandsins á mér kviknaði eldur innra með mér.

Mig langaði til þess að taka að mér þetta verkefni og hjálpa liðinu að afreka eitthvað sem það hefur aldrei afrekað áður. Núna er það mitt að kveikja eld og eldmóð innan liðsins og leiðbeina þeim í rétta átt. Ég er vel undirbúinn fyrir það og hlakka mikið til að byrja að vinna með leikmönnum liðsins.“

Körfubolti ekki flókin íþrótt

Salminen ítrekar að það þurfi allir að róa í sömu átt ef árangur á að nást.

„Körfubolti er ekkert sérstaklega flókin íþrótt. Hann snýst um að sækja á körfuna og nýta völlinn. Þú þarft að berjast fyrir öllu, hvort sem það er frákast eða stig. Það þarf líka að vera góð stemning innan liðsins og það skiptir öllu máli ef þú ætlar að ná einhverjum árangri. Leikmenn verða líka að fá að gera sín mistök og það er mikilvægt að leikmenn geri sín mistök, aðeins þannig getur þú orðið betri.

Ég vil búa til þannig andrúmsloft innan liðsins. Að leikmenn séu óhræddir við að gera mistök og að leikmenn þori að taka af skarið. Körfubolti snýst líka um liðsheildina og það legg ég höfuðáherslu á. Þetta snýst ekki um mig eða einhvern einn leikmann. Það þurfa allir að róa í sömu átt,“ bætti Salminen við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason