Atvinnubílstjórar Þingmaður undirbýr frumvarp til lagabreytinga.
Atvinnubílstjórar Þingmaður undirbýr frumvarp til lagabreytinga. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það væri langeðlilegast að fella þetta ákvæði brott. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að þegar þetta var innleitt að óþörfu hafi gullið ekki verið sparað því það er sérstaklega skrifað inn í tilskipunina að hún gildi ekki um…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það væri langeðlilegast að fella þetta ákvæði brott. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða að þegar þetta var innleitt að óþörfu hafi gullið ekki verið sparað því það er sérstaklega skrifað inn í tilskipunina að hún gildi ekki um eylönd,“ segir Þorgrímur Sigmundsson alþingismaður Miðflokksins í samtali við Morgunblaðið.

Hann vakti athygli á því á Alþingi nýverið að í gildandi regluverki um endurmenntun atvinnubílstjóra væri kveðið á um að bílstjórar þyrftu á fimm ára fresti að setjast á skólabekk til endurmenntunar sem kostaði um 100 þúsund krónur hvert sinn og nú stæði til að auka enn við með því að bæta við verklegum þáttum. Umræddar reglur hefðu verið settar með innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins þar um, en þar væru aðstæður allt aðrar en á Íslandi. Tilskipunin hefði fengið ærna gullhúðun. Hann er með þingmál í smíðum til breytinga á lögunum.

Þorgrímur segir að reglurnar varði akstur á milli ríkja á meginlandi Evrópu og eigi að tryggja að bílstjórar hafi sambærilega þekkingu.

„Hér var tilskipunin innleidd eins og hún kom af kúnni, jafnvel þótt yfir 99% okkar atvinnubílstjóra keyri allan sinn starfsferil innan sama regluverksins og fara aldrei á milli landa. Málið versnar enn ef menn gefa sér tíma til að skoða námsefnið sem boðið er upp á og þær spurningar sem þeim er ætlað að svara,“ segir hann.

Sem dæmi um furðuspurningar sem bílstjórar fá við námskeiðslok má nefna hvort kolefnisspor við rafmagnsframleiðslu sé lægra en í löndunum í kringum okkur, og hvort myndavélar taki á sig meiri vind en stórir speglar.

Þorgrímur segir að enginn greinarmunur sé gerður á bílstjóra sem keyrir á leiðinni Egilsstaðir/Reykjavík árið um kring og einyrkja sem er með litla beltavél og bíl sem notaður er til að flytja hana á milli staða.

Spurningu um hvort hann eigi von á því að frumvarpi um breytingu á lögunum verði vel tekið segist hann ekki viss um það.

„Ég er hóflega bjartsýnn á að þeir stjórnlyndu flokkar sem nú eru í meirihluta á Alþingi taki því fagnandi,“ segir Þorgrímur, en hann kveðst hafa fengið mikil viðbrögð við ræðu sinni á Alþingi þar sem hann vakti athygli á málinu.

„Bílstjórar eru búnir að fá nóg af þessu. Þetta þýðir aukinn kostnað og auknar kvaðir og menn fá lítið sem ekkert í staðinn. Það er fátt sem hægt er að kenna einstaklingi sem búinn er að keyra sömu leiðina í 20-30 ár hann og á síðan að sitja námskeið á fimm ára fresti til að læra að keyra vörubíl. Þetta er glórulaust,“ segir Þorgrímur.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson