Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Tveir slasaðir sjómenn fengu ekki aðhlynningu heilbrigðisstarfsfólks septembernótt eina í fyrra eftir slys um borð í togaranum Sólborgu RE-27. Hjálparliðum var sagt að ekki væri hægt að taka við slösuðum í sjúkrahúsinu á Ísafirði fyrr en klukkan átta um morguninn, en starfsmaður sjúkrahússins stakk upp á lögregla hýsti mennina til morguns uns hægt væri að skrá þá inn.
Lögregla hafnaði því að taka við mönnunum og var þeim komið fyrir í herbergi á sjúkrahúsinu með tveimur rúmum, þar sem þeir máttu bíða til morguns. Um morguninn kom hins vegar enginn að vitja þeirra. Fór sá þeirra tveggja sem, var minna slasaður, úr herberginu í leit að starfsfólki, en þá kom á daginn að enginn vissi af þeim á sjúkrahúsinu.
Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, en þar segir að engar staðfestar verklagsreglur varðandi móttöku á slösuðum sjómönnum, sem koma á sjúkrahúsið á Ísafirði hafi verið fyrir hendi. Beinir nefndin því til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að komið sé á verklagi sem tryggi að sjómenn, sem þangað þurfa að leita á öllum tímum sólarhrings, fái tilskilda umönnun.
Skipverjarnir tveir sem slösuðust voru við vinnu um borð Sólborgu 5. september er togarinn var á veiðum á Hornbanka norður af Vestfjörðum. Þá kom hnútur á bakborða skipsins með þeim afleiðingum að það kastaðist yfir á stjórnborðshliðina. Bobbingalengja, sem hafði verið dregin aftur að skuthliði, lá óbundin á miðju þilfarinu og voru sjómennirnir að gera við veiðarfærið þegar lengjan kastaðist yfir á stjórnborðshlið rennunnar þar sem mennirnir urðu á milli, að því er segir í skýrslunni.
Nánar er fjallað um málið á 200 mílum á mbl.is í dag.