Viðtal
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
„Það fylgir þessu svolítið óraunveruleg tilfinning,“ segir Sæunn Gísladóttir um útgáfu sinnar fyrstu skáldsögu, Kúnstpásu. „Ég fékk gæsahúð þegar ég fékk myndir af kápunni og sá nafnið mitt. Þetta er mjög mikill draumur að rætast og búið að vera ofboðslega skemmtilegt ferli að vinna að þessari bók með þeim í Sölku.“
Sæunn segist hafa fengið mikinn innblástur þegar hún flutti til Siglufjarðar vorið 2022. „Þá var ég í fæðingarorlofi með dóttur mína og byrjaði að skrifa. Bókin gerist í ónefndum bæ á Norðurlandi en það er eiginlega ljóst frá fyrstu síðu að þetta sé Siglufjörður. Ég skrifaði heilmikið þetta sumar en svo fór ég að vinna um haustið. Þá hafði ég minni tíma en það blundaði alltaf í mér að halda áfram. Ég kláraði síðan handritið síðasta vor og sendi það til útgefendanna minna hjá Sölku. Ég hafði áður þýtt fyrir þær bókina Ósýnilegar konur eftir Caroline Criado Perez. Þær höfðu áhuga á að vinna þetta áfram með mér og við gerðum það og kláruðum rétt í tæka tíð því ég á von á öðru barni um páskana.“
Lendir í óvæntum aðstæðum
Breytingar á högum Sæunnar í covid höfðu áhrif á söguna. „Ég bjó í London og kom tímabundið heim í covid og vissi ekkert hvað biði mín. Ég var í fjarvinnu í rúmt ár og þá var rosa mikill tími sem maður fékk til baka. Þá byrjaði ég aðeins að skrifa. Ég var mikið að spá í áhrif covid á líf fólks og þess vegna varð þessi saga hennar Sóleyjar hljómsveitarstjóra til. Covid hafði áhrif á alla en það eru fáir sem lentu í jafn miklum erfiðleikum varðandi vinnu og tónlistarfólk. Þar var skellt í lás og fólk vissi ekkert um framhaldið. Mér fannst áhugavert að skoða þetta. Þarna var eitthvað mjög sérstakt sem kom upp og gjörbreytti lífi fólks. Þetta var góður vendipunktur til að skila Sóleyju í þennan litla bæ norður á landi að fást við eitthvað allt annað en hún hafði áður verið að gera.“
Sóley tekur að sér rekstur bókabúðar og áður en langt um líður kynnist hún leiðsögumanninum Óskari. Inn í sögu Sóleyjar fléttast saga ungu ekkjunnar Sigríðar sem opnaði verslun í bænum árið 1932.
„Ég kynnti mér sögu Siglufjarðar töluvert þegar við vorum að flytja. Þar er allt úti í gömlum byggingum og sagan er alltumlykjandi. Mig langaði að gera grein fyrir því hvernig var að búa þarna á þessum tíma. Svo hef ég líka mikinn áhuga á réttindabaráttu kvenna og fannst gaman að geta skrifað um konu sem barðist fyrir þeim málstað. Sigríður lendir í mjög óvæntum aðstæðum eins og Sóley. Hún ætlaði sér aldrei að fara sjálf út í verslunarrekstur en neyðist til þess þegar maðurinn hennar ferst á sjó. Íslenskar konur hafa staðið svo mikið saman í gegnum tíðina svo mér fannst skemmtilegt að búa til samfélag í kringum Sigríði. Það er alltaf áhugavert að skoða fortíðina og nútíðina samtímis.“
Rómantík í smábænum
Sæunn skrifar inn í hefð smábæjarástarsögunnar sem erlendir höfundar hafa gert fræga. Hún segist hrifin af þessari tegund bókmennta og nefnir sem dæmi höfunda á borð við Jenny Colgan og Sophie Kinsella. „Mér fannst kannski svolítið gat á markaðnum hér fyrir íslenskar bækur af þessu tagi því þær eru mjög vinsælar hér, mikið þýddar og mikið lesnar. Mér fannst skemmtilegt að skrifa svona sögu inn í íslenskar aðstæður.“
Þótt bækur sem þessar endi oftast nær vel þá segir Sæunn að ýmsar hindranir verði á vegi persónanna og oft megi finna þyngri undirtón. „Sóley er til dæmis að upplifa ýmis skemmtilegheit, að reka bókabúð og kynnast ástinni, en hún er líka í gríðarlegri krísu persónulega því hún veit ekkert hvað mun verða um draum hennar sem hún hefur lagt allt í síðan hún var barn og aldrei efast um. Hún er ung og sér hlutina enn svolítið svart-hvíta en þarf að átta sig á því að það geta falist tækifæri í þessum breytingum. Ég held að mörg okkar hafi haldið að við gætum skipulagt allt okkar líf en svo koma áföll eins og covid og maður lærir að maður getur ekki stjórnað öllu. Það er langbest að geta tekist á við breytingarnar frekar en að vera fastur í að allt eigi að vera eins og maður sá fyrir sér.“
Smábærinn sem sögusvið býður upp á ýmsa möguleika. „Það rekast allir hver á annan endalaust sem er skemmtilegt upp á plott. Sóley er til dæmis alltaf að rekast á Óskar. Á Siglufirði er bara ein matvörubúð þannig að þú hittir alltaf alla í búðinni sama hvað. Það er gaman að leika sér með það. Svo er mikil rómantík í svona litlum bæjum,“ segir Sæunn.
Ekkert er allra
„Mig langar klárlega að halda áfram að skrifa. Þegar ég byrjaði á þessu var ekki endilega planið að gefa þetta út en þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt ferli. Ef ég fæ aðra góða hugmynd væri gaman að fá að skrifa meira því það er ofboðslega gaman að sjá hugmyndir manns komnar út á pappír. En þetta er líka mjög berskjaldandi.“
Sæunn hefur verið hinum megin við borðið og rýnt í bækur á vefnum Lestrarklefinn. „Þar hef ég lært að ekkert er allra. Ég held að maður verði líka að sætta sig við það að rithöfundar þroskist væntanlega af hverri bók. Það þarf bara að þora að taka skrefið og vona svo að þetta falli í kramið hjá einhverjum.“
Fæðingarorlof er fram undan hjá Sæunni sem annars starfar hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og er þar að auki varaþingmaður. „Ef ég fæ voðalega vært barn þá næ ég kannski að skrifa eitthvað. Ef allt gengur vel þá ætlum við að fara á flakk í fæðingarorlofinu og þá gæti ég alveg séð fyrir mér að sitja með góðan cappuccino á Ítalíu að skrifa eitthvað sniðugt.“
Að lokum segist Sæunn vera ofboðslega þakklát fyrir það hve mikil gróska er í bókaútgáfu hér á landi. „Það er svo mikið gefið út og svo miklu styttri boðleiðir en erlendis. Það er frábært að fólk fái tækifæri til að gefa út alls konar bækur. Ég er spennt að sjá hvernig bók eins og Kúnstpásu verður tekið.“