Atvinna Innlend vinnsla skapar fjölda starfa beint og óbeint.
Atvinna Innlend vinnsla skapar fjölda starfa beint og óbeint. — Morgunblaðið/Eggert
Helsta áhyggjuefnið vegna stórfelldrar hækkunar veiðigjalds er að vinnsla fari úr landi, að sögn Guðrúnar Arndísar Jónsdóttur, forstöðumanns Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. „Ég óttast að það kunni að fara töluvert meira óunnið úr landi

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Helsta áhyggjuefnið vegna stórfelldrar hækkunar veiðigjalds er að vinnsla fari úr landi, að sögn Guðrúnar Arndísar Jónsdóttur, forstöðumanns Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. „Ég óttast að það kunni að fara töluvert meira óunnið úr landi. Þá er ég ekki endilega að hugsa um þessar stærstu en frekar mikið af þessum smærri vinnslum.“

Hún telur alls ekki óeðlilegt að ríkið fái greitt fyrir afnot af auðlind í eigu samfélagsins og segir sífellt ástæðu til að endurskoða aðferðir og upphæðir, en telur ríkisstjórnina mögulega fara of geyst í hækkanir.

Guðrún Arndís segir hugmyndir um umfangsmikla hækkun veiðigjalds þurfa að byggja á greiningu á því hverjar afleiðingarnar kunna að verða fyrir útgerðirnar og vinnslurnar. „Ég er ekki síður að hugsa um allar hliðargreinarnar og allan þann iðnað, eins og til dæmis Kerecis, Marel og fleiri. Það eru ótal mörg fyrirtæki á bak við hvern rekstur. Það þarf að fara í greiningu hvað þetta varðar.“

Þegar haft áhrif

Útgerðir hafa þegar dregið úr umsvifum sínum vegna fyrirhugaðrar veiðigjaldshækkunar og sagði Freyr Friðriksson framkvæmdastjóri Kapps í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að verkefni er tengdist einni vinnslu hafi verið frestað og hætt við uppsetningu nýs kælibúnaðar í einum togara.

Jafnframt sagði Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins DNG, að félaginu hefði verið tilkynnt um að sjávarútvegsfyrirtæki hefði hætt við eitt fjárfestingarverkefni í vinnslubúnaði.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson