Grindavík vann magnaðan sigur á deildarmeisturum Hauka, 91:86, eftir æsispennandi framlengdan fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi.
Grindavík, sem hafnaði í áttunda sæti deildarinnar, er því ansi óvænt 1:0 yfir í einvíginu. Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Liðin mætast í öðrum leik einvígisins á eiginlegum heimavelli Grindavíkur í Smáranum í Kópavogi á föstudagskvöld.
Haukar voru með nauma forystu stóran hluta leiksins. Grindavík minnkaði muninn í eitt stig, 69:68, þegar fjórði leikhluti var tæplega hálfnaður. Þá kom góður kafli hjá Haukum, sem komust sjö stigum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 75:68.
Sem fyrr neitaði Grindavík að gefast upp og með góðum kafla tókst gestunum að minnka muninn aftur í eitt stig, 78:77, þegar tvær mínútur voru eftir. Daisha Bradford jafnaði í 80:80 á vítalínunni skömmu síðar og þannig stóðu leikar að loknum venjulegum leiktíma.
Haukar skoruðu fjögur fyrstu stigin í framlengingunni en Grindvíkingar svöruðu með látum og komust fimm stigum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 91:86 þegar 14 sekúndur voru eftir. Reyndust það lokatölur.
Bradford var atkvæðamest hjá Grindavík með 26 stig, 11 fráköst og fimm stolna bolta.
Lore Devos var stigahæst í leiknum með 28 stig fyrir Hauka ásamt því að taka 11 fráköst og gefa sjö stoðsendingar.
Keflavík ekki í vandræðum
Ríkjandi Íslandsmeistarar Keflavíkur lentu þá ekki í neinum vandræðum með nýliða Tindastóls og unnu geysilega öruggan sigur, 92:63, í fyrsta leik liðanna í Keflavík.
Staðan er því 1:0 fyrir Keflavík. Liðin mætast í öðrum leik einvígisins á Sauðárkróki næstkomandi föstudagskvöld.
Keflvíkingar hófu leikinn af feiknakrafti og leiddu með 13 stigum, 46:33, í hálfleik. Í síðari hálfleik, þá sérstaklega í fjórða og síðasta leikhluta, bættu heimakonur einungis í og niðurstaðan að lokum 29 stiga sigur.
Keflavík sýndi svo um munaði að liðið ætlar sér að verja Íslandsmeistaratitilinn enda lék liðið á als oddi. Ef Keflavíkurliðið er að toppa á besta tíma mega önnur lið fara að vara sig. Tindastóll verður þá að bíta í skjaldarrendur ætli liðið ekki að láta sópa sér úr keppni.
Jasmine Dickey fór hamförum í liði Keflavíkur er hún skoraði 30 stig og tók 11 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir bætti við 18 stigum auk þess sem hún stal boltanum þrisvar.
Hjá Tindastóli var Randi Brown stigahæst með 21 stig, sex fráköst, sjö stoðsendingar og þrjá stolna bolta. Edyta Ewa Falenczyk bætti þá við 15 stigum og tíu fráköstum.