Sundahöfn Draga á úr umferð til að tryggja öryggi við höfnina.
Sundahöfn Draga á úr umferð til að tryggja öryggi við höfnina. — Morgunblaðið/Karítas
„Það er búið að standa til í mörg ár að starfsemi Kornax víki úr Sundahöfn. Það var þeirra ákvörðun að fara og fyrirtækið er búið að gera sínar ráðstafanir og hefur ekki óskað eftir frestun á uppsögn eins og hefur verið veitt að minnsta kosti 2-3 sinnum

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Það er búið að standa til í mörg ár að starfsemi Kornax víki úr Sundahöfn. Það var þeirra ákvörðun að fara og fyrirtækið er búið að gera sínar ráðstafanir og hefur ekki óskað eftir frestun á uppsögn eins og hefur verið veitt að minnsta kosti 2-3 sinnum. Í apríl í fyrra fengum við síðan staðfestingu frá forsvarsmönnum Líflands um að það væri búið að taka ákvörðun um að hætta starfseminni á þessum stað og við höfum ekkert heyrt um það síðan og þeir ekki óskað eftir framlengingu á leigusamningi,“ segir Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna um tilefni þess að Kornaxi var sagt upp húsaleigusamningi við Korngarða 8.

Rýmt til að draga úr umferð

Hann segir að á næstu lóð sé Innnes nýbúið að byggja vöruhús og það hafi alltaf staðið til að rýma svæðið til að draga úr umferð þar sem um sé að ræða öryggismál.

Spurður hvaða öryggissjónarmiða sé verið að gæta með því að rífa hús Kornax-verksmiðjunnar segir Gunnar að það sé mikil umferð um þröngt svæði bæði vegna þeirrar starfsemi sem hefur verið í kringum Kornax og frá annarri starfsemi á svæðinu sem hefur lítið pláss.

„Þetta þrengir meðal annars að okkur við að þjónusta skemmtiferðaskipin á sumrin auk þess sem Fiskkaup og Fóðurblandan eru með starfsemi á sama reitnum. Með niðurrifi Kornax-verksmiðjunnar skapast meira pláss fyrir aðra sem eru þar með starfsemi.“

Eins og fram hefur komið minnka hveitibirgðir í landinu úr því að vera til 3-4 mánaða í einn mánuð við lokun verksmiðjunnar, en hveitibirgðir annars staðar á Norðurlöndum eru til sex mánaða.

Höf.: Óskar Bergsson