Ágústa Björk Bjarnadóttir (Labba) fæddist á Strandbergi í Vestmannaeyjum 2. febrúar 1939 en bjó frá fimm ára aldri í Garðshorni. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. mars 2025.

Foreldrar hennar voru Ásta Haraldsdóttir húsmóðir, f. 26. október 1914, d. 2. júní 2005, og Bjarni Jónsson skipstjóri, f. 28. september 1911, d. 9. júní 1987.

Systkini hennar eru Magnús (Muggur), f. 5. júlí 1934, d. 21. nóvember 2019, giftur Unni Gígju Baldvinsdóttur, f. 22. mars 1933; Ásta Birna (Bidda), f. 26. janúar 1945.

Ágústa Björk giftist 10. október 1964 Antoni Erni Kærnested framkvæmdastjóra frá Reykjavík, f. 16. júní 1940. Foreldrar hans voru Gísli Friðrik Kærnested verslunarmaður, f. 13. október 1914, d. 28. apríl 1957, og Hildur Björnsdóttir Kærnested bankastarfsmaður, f. 27. nóvember 1916, d. 31. janúar 2005.

Börn Ágústu og Antons: 1) Gísli Örn, f. 16. janúar 1966. Börn hans og Ragnheiðar Kristinsdóttur, f. 13. september 1970, eru Anton Örn, f. 12. júlí 1995, Úlfar Örn, f. 4. maí 2003, og Sara Rut, f. 15. mars 2005. 2) Arna Sif, f. 12. apríl 1967. Sonur hennar og Kristins Ragnars Árnasonar, f. 26. nóvember 1965, er Bjarni Örn, f. 17. janúar 1993. 3) Bjarni Örn, f. 24. desember 1973, kvæntur Þóru Eggertsdóttur, f. 31. júlí 1980. Börn þeirra eru Alexandra Björk, f. 14. desember 2008, og Eggert Aron, f. 11. janúar 2010.

Ágústa Björk ólst upp í Vestmannaeyjum en fluttist um tvítugt til Reykjavíkur. Framan af í Vestmannaeyjum vann hún í apótekinu, í söluturninum Tótaturni og við fiskvinnslu. Eftir komuna til Reykjavíkur vann hún í Útvegsbankanum og í versluninni Söebech en tók sér hlé frá störfum til að sinna uppeldi barna sinna. Þegar hún kom aftur inn á vinnumarkaðinn starfaði hún sem gjaldkeri hjá Íslandsbanka í Lækjargötu ásamt hlutastörfum hjá Almenna bókafélaginu. Síðar stofnaði hún bókaútgáfuna Krydd í tilveruna ásamt eiginmanni sínum. Ágústa og Anton voru meðal frumbyggja í Breiðholtinu og bjuggu í rúm 40 ár í Bakkaseli.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku Ágústa mín. Það eru nú liðin 62 ár síðan ég leit þig augum í fyrsta sinn. Örlögin höguðu því á þann veg að skólabróðir minn í Loftskeytaskólanum bauð mér að koma með sér um páskana til Eyja til að vinna í frystihúsi þar sem pabbi hans var verkstjóri. Þetta var mikil og góð vinnutörn sem færði mér, fátækum námsmanni, góðar tekjur.

Eftir skamma dvöl við störf í frystihúsinu lauk þessari dvöl í Eyjum með dansleik. Þar sá ég þig sem drottningu Eyjanna, því allir strákarnir voru að bjóða þér upp, og þú geislaðir af lífsorku og fegurð. Ekki hafði ég dug í mér til að slást í hópinn og stíga með þér dansinn, enda aldrei verið dansfær.

Þetta var stutt dvöl hjá mér í Eyjum, og það var síðan fjórum mánuðum síðar að fyrir tilviljun lágu leiðir okkar saman. Í stuttu máli hófst okkar góða samvera sem entist farsællega í þessi 62 ár. Þú varst akkerið mitt í lífinu og gafst mér síðan þrjú börn og sex barnabörn, sem ég þakka þér fyrir. Börnum og barnabörnum varst þú góður leiðbeinandi og hélst þú að þeim góðum siðum og ábyrgð á eigin gerðum.

Við fæðingu fyrsta barns okkar ákváðum við að þú yrðir heimavinnandi, og öll börnin okkar voru því vön að þú tækir á móti þeim í lok skóladags. Þau muna öll eftir því að oftast var það fyrsta sem þau sögðu í dyragáttinni: „Mamma, ég er komin/n heim.“

Þú varst frá upphafi minn besti vinur og stóðst þétt að baki mér við allt sem ég tók mér fyrir hendur. Að undanskildum þeim tíma sem þú sagðir að þú ætlaðir ekki að giftast sjómanni, og þar með var það mitt að ákveða, hvort ég vildi fara til sjós eða vera með þér. Valið var auðvelt; aldrei fór ég á sjóinn sem loftskeytamaður, heldur starfaði ég sem slíkur í landi um skamman tíma.

Hjónaband okkar var farsælt, þó við hefðum verið á öndverðum meiði í stjórnmálum í upphafi, en á miðri lífsleiðinni urðum við eitt í þeim málum, sem og í öðrum.

Ég vil að lokum þakka þér öll góðu árin okkar og ekki síst árin eftir að þú veiktist. Guði þakka ég fyrir, hvað okkur tókst sameiginlega að takast á við þá erfiðleika sem langvinnum veikindum fylgja. Megir þú hvíla í friði og ég seinna þér við hlið.

Anton Örn
Kærnested.

Elsku mamma. Eftir að þú veiktist fyrir tveimur árum reyndi ég að undirbúa mig fyrir þessa stund. Þótt ég vissi í hvað stefndi er erfitt að kveðja því það er bara ein mamma.

Hugur minn tekur mig í Bakkaselið þar sem þið pabbi bjugguð í 40 ár. Ég man eftir rauðu gluggatjöldunum í svefnherberginu þar sem ég fékk að sofa á milli og þú svæfðir mig með því að lesa aftur og aftur bókina um Pésa ref. Mér fannst þú mjúk og hlý og þarna fann ég mikið öryggi. Eggert Aron sonur minn fann seinna þessa sömu hlýju og var duglegur að kúra í fanginu á ömmu. Ég á sterkar minningar af þér að leggja kapal og spila við mig. Spilin voru snjáð og þú vildir helst hafa þau þannig. Það var ótrúlega fallegt að sjá þig svo endurtaka leikinn með börnunum mínum. Minningarnar um hrísgrjónagrautinn sem þú eldaðir alltaf fyrir mig í hádeginu og fiskibollurnar sem öll fjölskyldan elskaði. Bestu stundirnar voru þegar fjölskyldan kom saman í matarboð og borðhaldið var langt. Þú elskaðir að hafa alla fjölskylduna saman og fannst gaman að fylgjast með okkur Gísla bróður grínast í pabba. Þú passaðir alltaf upp á að allir fengju nóg að borða og fórst svo hringinn og tókst alla fitu sem barnabörnin höfðu skorið frá og borðaðir hana því þér fannst það bestu bitarnir. Ég man líka eftir þegar Alexandra Björk, sem elskaði sveppasósuna þína, spurði hvort það væri í lagi að hún sleikti diskinn. Þér fannst það besta hrósið.

Þegar ég var lítill þótti mér skrítið að í Eyjum þekktu þig allir sem Löbbu í Garðshorni en ekki sem Ágústu. Þú fluttir til Reykjavíkur 23 ára gömul, hittir pabba í ágúst og í október voruð þið búin að ákveða að ganga í hjónaband sem var farsælt og fallegt í þau rúmu 60 ár sem þið fenguð saman.

Þú elskaðir fótbolta og studdir Víking og Liverpool af öllu hjarta. Þið pabbi hikuðuð ekki við að horfa á þrjá leiki á dag í ensku og eitt af fáum skiptum sem ég sá þig fella tár var þegar pabbi gaf þér óvænta ferð á leik á Anfield í 80 ára afmælisgjöf.

Þú varst alltaf glæsileg og kaffibrún allt árið um kring. Þú varst einstaklega hörð af þér, kvartaðir aldrei yfir neinu og tókst öllu sem á dundi með æðruleysi. Þú sigraðist tvisvar á krabbameini á ævinni og haft var á orði þegar þú hættir að vinna að þú hefðir aldrei tekið veikindafrí árin sem þú vannst í bankanum. Auðvitað varðst þú veik eins og aðrir en þú mættir alltaf til vinnu. Síðustu tvö ár hjá þér voru hins vegar erfið. Þú fórst oftar en tuttugu sinnum með sjúkrabíl á spítala og varst oft tæp á þeim tíma. Þrátt fyrir að þú hafir verið orðin þreytt á veikindunum þá varstu glöð með gott og fallegt líf sem þú hafðir átt.

Elsku mamma. Það er erfitt að kveðja en minning þín mun alltaf lifa. Þú varst góð mamma og ennþá betri amma, fyrir það er ég þér þakklátur. Hvíl í friði elsku mamma.

Þinn sonur,

Bjarni Örn
Kærnested.

Elsku systir mín.

Það er erfitt að kveðja þig, en minningarnar um þig munu lifa áfram í hjörtum okkar. Þú varst einstök kona, kraftmikil og ákveðin, og þú áttir ómetanlegan þátt í lífi okkar allra.

Ég á góðar minningar af æskuheimili okkar, Garðshorni í Eyjum. Það var ekki alltaf mikið til, en við lifðum aldrei í neinum skorti og lærðum að nýtni var dyggð. Bjarni faðir okkar var ljúfur og góður maður, mjög fróður og mikið náttúrubarn. Ásta móðir okkar var ákveðin og kraftmikil kona sem stýrði heimilinu. Ég man að þið mæðgur áttuð ekki alltaf skap saman, en við systurnar og Muggur eldri bróðir okkar vorum góðir vinir. Þú varst alltaf góð við mig sem eldri systir og til að mynda léstu mig hafa vasapeninga þegar þú byrjaðir að vinna og leyfðir mér alltaf að nota fötin þín þó svo að ég væri sex árum yngri.

Þú gekkst undir nafninu Labba í Garðshorni í Vestmannaeyjum, þar sem þú varst skírð seint og farin að ganga. Ein æskuminning sem kemur upp er að þökin í Eyjum voru máluð á hverju sumri því rigningarvatni sem lenti á þökunum var safnað saman í brunna. Það var því sparlega farið með vatnið og Ásta móðir okkar vildi helst ekki að við drykkjum það. Vatn var því aldrei látið renna að óþörfu, þótt þú værir flutt til Reykjavíkur.

Kamar var í bakgarðinum í Garðshorni og vatnssalerni kom ekki fyrr en miklu seinna. Þér og Muggi eldri bróður okkar var illa við að fara ein út þegar það var dimmt, svo þið fóruð alltaf saman á kamarinn og töluðuð kjark hvort í annað.

Þú varst góð íþróttakona með mikið keppnisskap. Íþróttafélagið Þór í Vestmannaeyjum heiðraði þig eitt árið og þú varst útnefnd íþróttamaður Þórs fyrir árangur í handbolta. Ég man að þú lærbrotnaðir í leikfimi og varst svo ólánsöm að brotið greri skakkt. Brjóta þurfti brotið upp aftur og þú lást á Landspítalanum í hálft ár sem unglingur, fjarri heimahögum og án þess að nokkur úr nánustu fjölskyldu gæti heimsótt þig allan þann tíma. En sem merki um samheldi Eyjamanna þá heimsóttu þig margir sem áttu erindi til Reykjavíkur á þeim tíma og gáfu þér gjafir og færðu þér fréttir.

Ég man einnig að þú varst mjög kraftmikil og alltaf að bralla eitthvað sem krakki. Þú fékkst ekki að leika með vinum þínum inni við því það var svo mikill galsi í þér, á meðan ég fékk að leika með mína vini inni þar sem ég var mun rólegri. Ég man að þú stóðst alltaf uppi í hárinu á strákunum í Eyjum ef einhver var að ybba gogg við stelpurnar og lést þá alls ekki vaða yfir okkur stelpurnar.

Þótt þú værir búin að búa í áratugi í Reykjavík, þá fórstu alltaf „heim til Eyja“.

Þið Anton hugsuðuð alltaf vel um mig og buðuð með mér í ófáar matarveislur með fjölskyldu ykkar. Ég á einnig margar góðar minningar af fjölmörgum ferðum okkar í sólina saman með Antoni. Það voru virkilega góðar stundir og við systur elskuðum að liggja í sólinni og fá okkur svo einn góðan irish coffee eftir matinn.

Elsku systir mín, þú varst einstök og minningin um þig mun lifa áfram. Hvíl í friði, elsku Ágústa.

Ásta Birna Bjarnadóttir (Bidda).

Ágústa Björk föðursystir mín hefur nú kvatt okkur og er stórt skarð höggvið í okkar litlu fjölskyldu. Í æsku var hún kölluð Labba og það nafn festist við hana innan fjölskyldunnar. Hún flutti ung frá Eyjum til Reykjavíkur þar sem hún hóf búskap með honum Antoni sínum.

Í þá daga var ekki mikið verið að flækjast upp á land eða út í Eyjar eins og nú er gert. Þá var bara farið einu sinni á ári í sumarfrí og ættingjarnir heimsóttir. Bíllinn var hífður um borð í gamla, svarta Herjólf, fullur af fatnaði, nesti og útilegudóti. Þegar komið var til Þorlákshafnar var ekið sem leið lá til Reykjavíkur og fyrsta stopp var Kleppsvegurinn hjá Löbbu og Tona. Þangað var gaman að koma og hitta frændsystkinin, þau Gísla Örn og Örnu Sif, og leika við þau. Það var líka fjör að sitja með fullorðna fólkinu og hlusta á þau segja góðar sögur og þá var oft mikið hlegið. Sérstaklega þótti okkur krökkunum gaman að heyra sögurnar frá æskuárum þeirra systkinanna í Garðshorni og greinilegt að ýmislegt var brallað þá.

Labba var mjög glæsileg og falleg kona, flott klædd, bar sig vel og var hnarreist. Mér fannst hún vera svolítið eins og drottning. Ein á sama tíma var hún líka smá prakkari. Hún hafði góðan húmor og sagði skemmtilega frá. Hún hló líka dátt og innilega og núna þegar ég hugsa til hennar sé ég hana fyrir mér hlæjandi.

Þau systkinin frá Garðshorni héldu ávallt góðu sambandi og hringdu reglulega og fengu fréttir af börnunum og barnabörnunum. Þegar pabbi féll frá þá tók ég aðeins við hans hlutverki og símtölin við báðar systur hans urðu fleiri en áður. Í dag þykir mér mjög vænt um þessi símtöl. Ég heyrði í Löbbu í vikunni áður en hún kvaddi og er það símtal sérstaklega dýrmætt og ég geymi það með mér.

Elsku Anton Örn, Gísli Örn, Arna Sif, Bjarni Örn og fjölskyldur, innilegar samúðarkveðjur á þessari erfiðu stundu. Guð gefi ykkur styrk.

Minningin um góða konu lifir í hjörtum okkar.

Margrét Lilja.