Grjót hrundi á bíl þriggja erlendra ferðamanna á hringveginum undir Eyjafjöllum í gær. Ökumaður bílsins er látinn.
Ferðamennirnir, sem allt voru konur, óku bíl sínum í austurátt þegar stórt grjót lenti á honum. Farþegarnir sluppu með minni háttar áverka og voru konurnar fluttar á sjúkrastofnun til frekari skoðunar.
Ttilkynning um slysið barst lögreglu klukkan 12.42 í gær. Ökumaðurinn var fastur inni í bílnum þegar viðbragðsaðilar komu að og var úrskurðaður látinn á vettvangi. Rannsókn slyssins er í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurlandi sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Suðurlandsvegi var lokað um tíma vegna slyssins. Þetta er fimmta banaslysið í umferðinni í ár.