Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Forystumenn ríkisstjórnarinnar sögðu fyrir helgi að ekki ætti að hækka skatta á einstaklinga, en strax eftir helgi komu skattahækkanirnar í ljós, þótt reynt sé að fela þær í texta fjármálaætlunarinnar. Menn eiga að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Ef ætlunin er að hækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, þá eiga menn að segja frá því beint, en ekki reyna að fela þau áform í greinargerð. Það á að hækka skatta á einstaklinga, á fyrirtæki og ekki með fyrirsjáanlegum hætti og almenningur þarf að bregðast við því,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
Gagnrýnir harðlega misvísandi skilaboð
Hann gagnrýnir harðlega misvísandi skilaboð úr ranni ríkisstjórnarinnar í skattamálum, þegar saman er borin fjármálastefna stjórnarinnar og fjármálaáætlun.
Fjármálastefnu leggur hver ríkisstjórn fram og gildir hún til fjögurra ára. Hún er síðan útfærð nánar í fjármálaáætlun sem er uppfærð á hverju ári. Fjármálastefna ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur var lögð fram sl. fimmtudag, en fjármálaáætlunin í gærmorgun.
„Það sem vekur athygli mína er að í fjármálastefnunni kemur fram undir liðnum „tekjustefna“ að ekki eigi að leggja meiri álögur á einstaklinga og þetta var einnig ítrekað í máli fjármálaráðherra. Í kaflanum „fjármálareglur og töluleg skilyrði“ í fjármálastefnunni eru síðan tilfærð atriði sem liggja til grundvallar. Þar segir í undirkaflanum „stöðugleiki“ að í efnahagslegu tilliti sé forsendan að nýta vel mannafla, fjármagn og auðlindir. Fjármálastefna hins opinbera gegni lykilhlutverki í því að skapa almenningi og fyrirtækjum þekkt og áreiðanleg skilyrði að þessu leyti. Seinna segir, í kaflanum „festa“, að forðast beri óvæntar og fyrirvaralitlar breytingar, og frávik eiga að vera vel ígrunduð og byggð á málefnalegum forsendum,“ segir Guðlaugur Þór.
Gengur þvert gegn grunngildum
„Á sama tíma og þetta er kunngert ætlar ríkisstjórnin að keyra í gegn tvöföldun á veiðigjaldi sem augljóslega mun hafa mikil áhrif, einkum á smærri útgerðir og fiskvinnslur. Nú er svo tilkynnt að ríkisstjórnin ætli að endurvekja náttúrupassann sem taka á gildi um mitt næsta ár og gengur þvert gegn þeim grunngildum sem ríkisstjórnin segist leggja upp með. Allir eiga að borga fyrir passann, bæði Íslendingar og útlendingar,“ segir Guðlaugur Þór.
„Einnig kemur fram í fjármálaáætluninni, þar sem fjallað er um tekjur ríkisins, að undir þá aðgerð falli áform um niðurfellingu samsköttunar á milli skattþrepa í tilviki hjóna og sambúðarfólks. Fella á brott heimild til að ráðstafa ónýttum persónuafslætti til greiðslu fjármagnstekjuskatts og endurskoða á viðmið um reiknuð laun í eigin atvinnurekstri,“ segir hann.
Skattahækkun yfir helgina
„Með öðrum orðum, það átti ekki að leggja skatt á einstaklinga fyrir síðustu helgi, en skattahækkun er svo kynnt eftir helgi, kl. 8.15 á mánudagsmorgni. Þetta mun þýða nokkurra milljarða skattahækkanir á einstaklinga. Hér fer ekki saman hljóð og mynd. Ríkisstjórnin kynnti fyrir helgi að hún ætlaði að vinna eftir ákveðnum gildum; fyrirsjáanleika, festu og stöðugleika, en eftir helgi dembir hún yfir almenning fyrirætlunum sem ganga þvert gegn þeim gildum.
Ríkisstjórnin á að segja satt. Hún ætlar að hækka skatta á fólk og fyrirtæki,“ segir Guðlaugur Þór.