Þorsteinn Héðinsson fæddist 13. maí 1954. Hann lést 19. mars 2025.
Foreldrar hans eru Héðinn Skúlason, f. 26. ágúst 1929, d. 11. nóvember 1996, og Guðrún Nanna Þorsteinsdóttir, f. 14. júlí 1931.
Systkini Þorsteins eru: Margrét Héðinsdóttir, f. 19. maí 1952, gift Ólafi Inga Baldvinssyni, Hilmar Héðinsson, f. 17. apríl 1959, kvæntur Lenu Nolen, og Örn Héðinsson, f. 28. júní 1964, kvæntur Guðrúnu Hönnu Hilmarsdóttur.
Þorsteinn kvæntist 13. maí 1984 Maríu Birnu Gunnarsdóttir, f. 4. ágúst 1960. Börn þeirra eru: 1) Nanna Þorsteinsdóttir, f. 26. janúar 1984, í sambúð með Hirti Sigurðssyni og börn þeirra eru Ísabella, Arnór Daði, Anton og Viktor Máni. 2) Erna Þorsteinsdóttir, f. 7. júlí 1987, gift Birgi Erni Birgissyni og börn þeirra eru Kristinn Ari og Bjarki. 3) Telma Huld Þorsteinsdóttir, f. 28. október 1994.
Þorsteinn ólst upp í Smáíbúðarhverfinu í Reykjavík. Hann lauk prófi sem bátasmiður frá Iðnskólanum í Stykkishólmi og fékk síðar réttindi sem húsasmiður. Starfaði hann lengst af sem smiður en á síðari árum starfaði hann sem leigubílstjóri.
Þorsteinn var mikill veiðimaður, bæði skotveiði sem stangveiði, var áhugamaður um brids en síðast en ekki síst var hann mikill bílaáhugamaður. Átti hann marga bíla í gegnum árin og standsetti meðal annars útilegubíl til fjallaferða sem þau hjónin voru dugleg að ferðast í um landið.
Útför Þorsteins fer fram frá Þorlákshafnarkirkju í dag, 1. apríl 2025, klukkan 13.
Elsku stóri strákurinn minn, ég trúi því varla að þú sért farinn. Þú sem varst alltaf svo duglegur, sterkur og traustur og ekki óraði mig fyrir að þinn tími kæmi svona óvænt og fljótt.
Elsku Maja, Nanna, Erna, Telma Huld og fjölskyldur. Hugur minn er hjá ykkur og megi guð styrkja ykkur og hugga í sorginni.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Ég kveð þig bili, elsku Þorsteinn minn, í þeirri trú að þú munir taka á móti mér þegar þar að kemur. Með þakklæti fyrir allt og allt elsku sonurinn minn.
Ég elska þig. Þín,
mamma.
Elsku Doddi bróðir er fallinn frá, alltof fljótt.
Doddi var stóri bróðir í allri merkingu þess orðs. Hann var í fyrsta lagi tíu árum eldri en ég en líka stór og hár en stærstur var þó persónuleiki hans. Hann lá ekki á skoðunum sínum og var alltaf tilbúinn að rökræða og kryfja málin til mergjar en mest var um prakkarann í honum og alltaf stutt í brosið. Mikill var hlýleiki hans og ástúð, hann var sá sem alltaf var tilbúinn að gera allt fyrir aðra, veita ráð og stuðning.
Doddi gekk sinn lífsins veg og hann var ekki sá sami og minn. Hann furðaði sig oft á því af hverju í ósköpunum ég vildi ekki hanga ofan í skurði síðla nætur til að bíða morgunflugs gæsa, nú eða spila brids. Já, við deildum kannski ekki áhugamálum og jafnvel lífsýn en það breytti þó engu um hversu gott það var að setjast niður með stóra bróður og ræða málin. Sterk er sú minning þar sem stunduðum ræktina saman, þar áttum við okkar stundir.
Fjölskyldufagnaðir voru ávallt yndislegir, þá sérstaklega okkar frægu Flippers-áramótapartí þar sem hlutverk Dodda var að sjá um snapsana.
Kæri Doddi, ég veit að pabbi hefur tekið vel á móti þér og hugsar um þig. Stórt er skarðið sem þú skilur eftir, tómarúm sem aldrei verður fyllt.
Kæra Maja, Nanna, Erna, Telma, tengdasynir og barnabörn, guð hlúi að ykkur í sorginni og veiti ykkur styrk.
Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.
(Einar Benediktsson)
Kæri bróðir, þú varst það fyrir mér, með þér var ég betri maður.
Örn bróðir.
Minningar af Dodda bróður eru margar.
Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa ef á þurfti að halda. Hann var með góðan húmor, oft var hlegið að hlutum og viðburðum og að spila á spil með Dodda var sérstaklega viðburðaríkt. Hann var heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og öðrum.
Mörg eru dæmin sem er hægt að minnast og mikill er söknuður eftir Dodda, meiri en hægt er að skýra.
Kæra Maja, börn og fjölskylda. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.
Hilmar.