Bugaður Eyðilegging er mikil eftir hamfarirnar og leitað er að fólki.
Bugaður Eyðilegging er mikil eftir hamfarirnar og leitað er að fólki. — AFP/Sebastian Berger
Herforingjastjórnin í Mjanmar segir yfir 2.000 látna eftir jarðskjálftann mikla sem reið yfir á föstudaginn síðasta. Hátt í 4.000 eru særðir og um 300 er enn saknað. Tala látinna mun því eflaust hækka á næstunni

Herforingjastjórnin í Mjanmar segir yfir 2.000 látna eftir jarðskjálftann mikla sem reið yfir á föstudaginn síðasta. Hátt í 4.000 eru særðir og um 300 er enn saknað. Tala látinna mun því eflaust hækka á næstunni.

Algjört neyðarástand ríkir á skjálftasvæðinu og hafa björgunarteymi erlendis frá komið til aðstoðar. Eitt þeirra kemur frá Kína og tókst björgunarmönnum þaðan í gær að bjarga fjórum einstaklingum á lífi úr rústum húsa. Það er því enn von um að finna fólk á lífi. Aðrar þjóðir sem boðið hafa fram aðstoð með björgunarmönnum eru Indverjar og Taílendingar.

Erfiðlega hefur reynst að fá nákvæmar upplýsingar um ástandið í Mjanmar, en frá árinu 2021 hafa stjórnvöld þar ráðið nær öllum fjölmiðlum. Í kjölfar skjálftans gerðu vestrænir fjölmiðlar tilraun til að komast inn á svæðið en herforingjastjórnin hefur ekki viljað hleypa inn stórum hópi fjölmiðlamanna. Segja stjórnvöld ekki hægt að tryggja öryggi fjölmiðlamanna.

Árásir halda áfram

Þrátt fyrir hamfarir leggur herforingjastjórnin áherslu á að halda úti árásum á uppreisnarhópa í landinu. Bárust fréttir af því í gær að landher stjórnarinnar hefði gert árásir á uppreisnarmenn með sprengjuvörpum í Sagain-héraði, en svæðið er sagt hafa orðið illa úti í hamförunum. Þá héldu flughersveitir herforingjastjórnarinnar úti loftárásum á önnur svæði landsins. Ekki hafa borist neinar fregnir af því að árásirnar hafi haft áhrif á störf björgunarmanna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar gagnrýnt árásir stjórnarhersins. Segja þær ekki útilokað að með þeim sé verið að brjóta mannréttindi fólks á svæðinu.