Í þremur sveitarfélögum voru greidd veiðigjöld sem námu yfir þrjú hundruð þúsund krónum á hvern íbúa árið 2023. Voru það Vestmannaeyjar með 392.753 krónur, Snæfellsbær með 343 þúsund krónur og svo Fjarðabyggð með 335.325 krónur

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Í þremur sveitarfélögum voru greidd veiðigjöld sem námu yfir þrjú hundruð þúsund krónum á hvern íbúa árið 2023. Voru það Vestmannaeyjar með 392.753 krónur, Snæfellsbær með 343 þúsund krónur og svo Fjarðabyggð með 335.325 krónur.

Þetta má lesa úr samantekt sem Bláa hagkerfið ehf. tók saman fyrir Morgunblaðið.

Þar má sjá hve umsvifamikill sjávarútvegurinn er í einstökum sveitarfélögum og voru þau tíu þar sem greidd voru veiðigjöld sem námu yfir hundrað þúsund krónum á hvern íbúa. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefnd voru það Grindavík, Hornafjörður, Grýtubakkahreppur, Bolungarvík, Grundarfjörður, Kaldrananeshreppur og Vesturbyggð.

Sveitarfélög þar sem sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi byggðarinnar hafa skilað inn umsögnum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um stórfellda hækkun veiðigjalda þar sem þau lýsa áhyggjum af áformunum.

Í umsögn sinni lýsir Bolungarvíkurkaupstaður „yfir miklum áhyggjum af áhrifum frumvarpsins á minni útgerðir og fiskvinnslur. Aukin gjaldtaka mun án nokkurs vafa hafa umfangsmikil áhrif á greinina og að öllum líkindum auka samþjöppun í greininni með tilheyrandi fækkun starfa. Jafnframt er líklegt að aukin gjaldtaka muni leiða til minni samfélagsþátttöku sjávarútvegsfyrirtækja með afar neikvæðum áhrifum til lengri tíma.“

Fulltrúar Langanesbyggðar telja fullyrðingar í greinargerð frumvarpsins um að hækkun veiðigjalds hafi lítil áhrif á sjávarbyggðirnar ekki lýsa þeim veruleika sem blasi við heimamönnum.

„Í Langanesbyggð sjáum við fyrir okkur að missa bróðurpartinn af útsvarstekjum okkar verði þetta frumvarp að lögum. Áður en þetta frumvarp var lagt fram hafði ríkisvaldið veitt okkur mjög þung högg í atvinnulífinu. Byggðakvóti Þórshafnar var skertur úr 102 tonnum í 32 sem er brot á reglugerð 818/2024 og engin svör hafa fengist frá ráðuneytinu um ástæður,“ segir í umsögn sveitarfélagsins.

Múlaþing segir um einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ræða og fullyrðir að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin í málinu. Þá bendir sveitarfélagið á bókun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga þar sem segir: „Við teljum þessa tillögu bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson