Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Íslendingar eru ríkir að grunnvatni. Samt sem áður er þekking okkar á þessari ómetanlegu auðlind víða mjög gloppótt og því ætlum við að auka vöktun og bæta söfnun upplýsinga,“ segir Sæmundur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Umhverfis- og orkustofnun (UOS). Vatn í víðustu merkingu er inntak og efni verkefnisins Icewater sem hrundið hefur verið af stað á vettvangi þeirra stofnunar. Þetta tengist því að á Íslandi er nú hafin innleiðing vatnsáætlunar ESB. Einmitt til þess fékkst nýlega 3,5 milljarða kr. styrkur frá LIFE-áætlun Evrópusambandsins til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu áætlunarinnar.
Næstu kynslóðir njóti sömu gæða
„Ísland hefur skuldbundið sig til að tryggja áframhaldandi mikil vatnsgæði á Íslandi. Við erum svo heppin hér á landi að vera rík að vatni. Nær allt ferskvatn hér á landi er í góðu ástandi. Vatnaáætlun á meðal annars að tryggja að það verði áfram raunin og að næstu kynslóðir fái að njóta sömu gæða,“ segir Sæmundur um verkefnið sem hann stýrir á vettvangi UOS. Sjálfur er hann menntaður líffræðingur og hefur sérhæft sig í erfðafræði byggs. Hefur því haldgóða menntun á sviði umhverfismála; það er sjálfbærri nýtingu auðlinda sem einmitt er kjarninn í Icewater.
Fyrsta vatnaáætlun Íslands var staðfest fyrir þremur árum af Guðlaugi Þór Þórðarsyni þáverandi umhverfisráðherra. Áætlun þessi segir Sæmundur að tengist raunar mjög vel við lög um stjórn vatnamála frá árinu 2011. Þar sé kveðið á um að vernda skuli vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vistkerfa þar sem lindir og vötn þurfi að vernda til lengdar með sjálfbærni að leiðarljósi.
Neysluvatn er afar mikilvægur þáttur í vatnaáætlun og verndun vatns á Íslandi; því starfi sem Sæmundur og hans fólk hefur nú með höndum. Áætlun sem nú er starfað samkvæmt nær annars til þriggja þátta sem eru í fyrsta lagi yfirborðsvatn og í annan stað grunnvatn. Þriðji þátturinn er strandsjór og árósavatn; svo sem sjór við strönd og árósavatn þar sem ferskvatn mætir hafi.
Að Icewater koma alls 22 aðilar; svo sem sveitarfélög og samtök þeirra, fagstofnanir á sviði umhverfisverndar og nýsköpunarfyrirtæki er líka með. Þessir aðilar munu starfa saman að ýmsum verkefnum á næstu árum í krafti styrksins ríflega frá ESB, sem er sá annar stærsti úr þeim ranni sem til Íslands hefur fengist.
Draga úr álagi og óþarfa sóun vatns
Verkefnin í vatnamálum sem nú verða tekin fyrir eru afar mörg, samkvæmt því sem Sæmundur lýsir. Til stendur meðal annars að fara í framkvæmdir sem draga úr álagi og óþarfa sóun á vatni, svo sem í skolpstöðvum og fráveitum. Einnig á að endurhugsa kerfi og lagnir þar sem ofanvatn rennur af götum og bílastæðum. Þar er oft að finna mengunarvalda sem er mikilvægt að losna við. Má í því sambandi nefna staði eins og Keflavíkurflugvöll, Þingvallavatn, Tjörnina í Reykjavík, Kópavogslæk og fleiri. Sömuleiðis skal tiltekið að Hafrannsóknastofnun og Veðurstofan ætla að stórauka vöktun í ferskvatni, strandsjó og grunnvatni. Þá mun stjórnkerfið samræma ýmsa stjórnsýsluþætti vatnamála.
„Margt í vatnamálum á Íslandi þarfnast úrbóta,“ segir Sæmundur og tiltekur fráveitur þar fyrst. Þar beri að hafa í huga að sveitarfélögin, sem reka þær veitur, séu lítil og hreinsivirki dýrir innviðir. Nú verði úrbótum hrundið í framkvæmd á nokkrum stöðum.
„Svo er það grunnvatnið sem Íslendingar eru ríkir að. En við þurfum meiri upplýsingar svo sem um magnstöðu grunnvatns, ástand og betra mat á álagi. Sem dæmi eru gríðarstór verkefni í landeldi á laxi í gangi hér á landi. Enn stærri verkefni eru í bígerð. Landeldi á laxi er að mörgu leyti mjög spennandi atvinnuvegur og miklir möguleikar eru til verðmætasköpunar. Hins vegar veldur þessi iðnaður miklum þrýstingi á umhverfið. Þörf á hreinu vatni er gríðarleg og mikið magn af seyru safnast fyrir sem þarf annaðhvort að nýta eða losna við með öðrum hætti sem rýrir ekki vatnsgæði. Annars er íslenska vatnið að sjálfsögðu mjög hreint og inniheldur sáralítið af efnum og örverum. Slíkt eru gæði sem okkur ber að viðhalda til langrar framtíðar.“