Guðrún Bjarkadóttir fæddist í Reykjavík 1. apríl 1974. Hún lést á líknardeild Landspítalans 20. mars 2025.
Foreldrar hennar eru Bjarki Jóhannesson skipulagsfræðingur, f. 10. júlí 1949, og eiginkona hans Katrín Gunnarsdóttir fornleifafræðingur f. 1. janúar 1947.
Systkini Guðrúnar eru: 1) María, bókmennta- og upplýsingafræðingur, f. 29. mars 1979. Eiginmaður Maríu er Andri Kristjánsson tölvunarfræðingur. 2) Kristín, f. 9. maí 1981, d. 27. janúar 2002. 3) Jóhann tónlistamaður, f. 28. desember 1987.
Guðrún giftist Einari Lárussyni tölvunarfræðingi árið 2005, þau slitu samvistum árið 2022. Börn þeirra eru: 1) Sunneva, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, f. 15. mars 2006. 2) Sæmundur, nemandi í Menntaskólanum við Sund, f. 24. febrúar 2008. 3) Snorri, nemandi í Víkurskóla, f. 7. október 2011.
Guðrún lauk stúdentsprófi frá Katedralskolan, Lundi, Svíþjóð, 1993, BS-námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1999, BA-námi í íslensku frá Háskóla Íslands 2004 og MA-námi í íslenskum fræðum með áherslu á nafnafræði frá Háskóla Íslands 2010. Hún stundaði einnig nám í sálfræði og bókasafns- og upplýsingafræði. Tungumálakunnátta hennar var mjög víðtæk og má þar nefna ensku, sænsku, frönsku, þýsku, spænsku, ítölsku, latínu og velsku.
Guðrún starfaði m.a. sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsunum á Húsavík og Sauðárkróki, á heilsugæslunni í Mosfellsbæ og var jafnframt skólahjúkrunarfræðingur í Varmárskóla, hjúkrunarfræðingur á vistheimilinu Hrafnistu í Laugarási, þar sem hún var aðstoðardeildarstjóri og síðar deildarstjóri, og síðast á vistheimilinu Eir í Reykjavík.
Guðrún var búsett með foreldrum sínum og systkinum í Lundi í Svíþjóð 1974-1977, Reykjavík 1977-1981, Urbana-Champaign í Bandaríkjunum 1981-1983, í Hafnarfirði 1983-1986, í Oxford í Englandi 1986-1988, í Lundi og Staffanstorp í Svíþjóð 1988-1993, þegar hún flutti til Íslands. Síðan var hún búsett í Reykjavík 1993-2004, og með sína eigin fjölskyldu í Mosfellsbæ 2004-2010, í Stokkhólmi, Svíþjóð, 2010-2012, í Sandefjord í Noregi 2012-2013, í Mosfellsbæ 2013-2018, í Nottingham, Englandi, 2018-2021 og í Reykjavík frá 2021.
Útför Guðrúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 3. apríl 2025, og hefst athöfnin klukkan 11.
Guðrún okkar fæddist á vordögum 1974, elst í röðinni af fjórum systkinum. Hún var fimm ára þegar María systir hennar fæddist. Tveimur árum síðar fæddist Kristín og sex árum eftir það bróðirinn Jóhann. Systkinin voru mjög samrýnd og það var öllum mikið áfall þegar Kristín lést af slysförum aðeins tvítug að aldri.
Guðrún var fluglæs fimm ára og þá kunnáttu átti hún eftir að nota óspart. Hún var aldrei að flýta sér, eyddi mörgum stundum í lestur, og var tíður gestur á bókasöfnum. Þaðan kom hún hlaðin bókum, það tók hana viku að lesa þær allar og þá var sóttur nýr bunki. Hún mjög hraðlæs, í bókabúðum renndi hún yfir bækurnar, og þætti henni bókin áhugaverð keypti hún hana. Hún var mjög þægilegur unglingur og áhuginn hneigðist fremur að bókmenntum en skemmtunum. Ein af bestu skemmtunum hennar í Englandi var að lesa verk Shakespeare með vinkonunum og brugðu þær sér þá í hlutverkaleik.
Þótt Guðrún hafi alltaf starfað sem hjúkrunarfræðingur hneigðist hugurinn að málvísindum, einkum nafnafræði, og fjallaði lokaverkefni hennar um mannanöfn í Vestmannaeyjum árin 1801-1900. Hún kom sér upp safni af nafnabókum frá ýmsum löndum og urðu þær nálægt 60 talsins. Áhugi hennar á tungumálum var einnig óþrjótandi, kunni hún fjölda þeirra og tók að sér þýðingar á bókum úr sænsku og ensku. Á síðari árum lærði hún velsku og átti sér þann draum að ferðast til Wales.
Guðrún var mikil handavinnukona, mjög listræn og var útsaumur hennar listgrein. Hún saumaði árstíðirnar, hafði lokið þremur og var vel á veg komin með þá fjórðu. Það er samdóma álit allra að þær myndir séu listilega gerðar.
Guðrún eignaðist vinkonur í öllum þeim löndum sem við bjuggum, íslenskar, sænskar, enskar og amerískar, og hélt sambandi við margar þeirra gegnum árin. Hún eignaðist góðar vinkonur gegnum nám og störf sem hjúkrunarfræðingur og urðu nokkrar þeirra ómetanleg stoð fyrir hana og fjölskylduna í veikindum hennar.
Guðrún eignaðist þrjú börn, Sunnevu, Sæmund og Snorra, og elskaði þau framar öðru. Sá kærleikur var reyndar á báða bóga og öll kort þeirra til hennar sögðu elsku mamma. Missir þeirra er mikill, og megi þeim vel farnast án hennar inn í framtíðina.
Guðrún hélt upp á fimmtugsafmæli með okkur 1. apríl á síðasta ári. Um það leyti var hún farin að finna fyrir slæmum höfuðverk. Í ljós kom að hún var með illkynjað heilaæxli, sem hún barðist við í tæpt ár frá því. Þótt tilefnið væri slæmt voru það ómetanlegar stundir þegar við ókum henni í geislameðferð og síðar í Ljósið, þar sem hún átti góðar stundir.
Elsku Guðrún, nú er veikindum þínum lokið og þú munt hvíla í friði við hlið Kristínar systur þinnar. Við þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við munum alltaf muna eftir stelpunni okkar og vitum að þú verður áfram nálægt okkur. Við kveðjum þig með erindi úr ljóðinu fagra Haustvísur til Maríu:
Þegar mér sígur svefn á brá
síðastur alls í heimi
möttulinn þinn mjúka þá
móðir breiddu mig ofan á
svo sofi ég vært og ekkert illt mig dreymi.
Þín
mamma og pabbi.
Guðrún, systurdóttir mín og góður vinur okkar hjóna, er látin langt um aldur fram. Hún lauk námi í hjúkrunarfræði og starfaði á spítölum, heilsugæslum og elliheimilum bæði hérlendis og erlendis. Hún var víðförli í fræðum en einnig í raunheimum því hún átti heimili í mörgum löndum á sinni ævi, sem barn með foreldrum sínum og síðar með fyrrverandi eiginmanni sínum og börnunum. Guðrún hafði mjúkan húmor sem meiddi aldrei neinn. Það er sagt að mótlætið kalli fram innri mann, styrkleika og þrautseigju hverrar manneskju. Guðrún fékk harðan dóm fyrir ári, illvígt og ólæknandi krabbamein sem engin lækning er til við. Það er aðdáunarvert hvernig Guðrún tókst á við örlög sín og okkur öllum hinum fyrirmynd og lærdómur um lífið og tilveruna. Æðruleysi og ró einkenndi Guðrúnu alla tíð. Guðrún elskaði að viða að sér fróðleik um hin ýmsu málefni og nýtti hún frístundir sínar til að sinna ástríðu sinni fyrir heimssögunni sem leiddi hana í gegnum ættir konungsfólks Norður- og Mið-Evrópu. Hún sökkti sér niður í miðaldarfræði, sögu Kelta og mannanöfn og var byrjuð að læra keltnesku. Veistu hvað! – var oft viðkvæðið þegar maður hitti Guðrúnu og svo fékk maður innsýn í nýjustu uppgötvun hennar. Guðrún hafði einnig mikinn áhuga á handverki, s.s. útsaum, prjóni og hekli, og var henni mikið í mun að klára þau verkefni sem hún var með í vinnslu eftir að hún veiktist. Umfram allt lifði Guðrún fyrir börnin sín þrjú Sunnevu, Sæmund og Snorra, sem hún vildi gera allt fyrir enda ríkti á milli þeirra fallegur kærleikur. Missir þeirra er mestur og sorgin þeirra förunautur. Guð blessi ykkur öll. Guðrún mun áfram lifa í hjörtum okkar, í sögum okkar og í dýrmætum minningum um fallega manneskju sem krafðist aldrei meira en að lifa í friði og kærleika. Hvíl í friði, elskuleg Guðrún.
Gunnhildur og Ársæll.
Minningar saumaklúbbsins um Guðrúnu Bjarkadóttur hjúkrunarfræðing og yndislega vinkonu.
Saumaklúbburinn var stofnaður formlega sumarið 1999 í sumarbústað í Munaðarnesi. Guðrún small í hópinn sem kom úr ólíkum áttum. Hittingar voru reglulegir, hvort sem var heima hjá einhverjum, út að borða eða við fórum í bústað saman. Það verður að viðurkennast að iðulega var lítið saumað í saumó en frekar borðað eitthvað gott og spjallað eða tekið gott borðspil.
Guðrún var sú fróða, eldklár, hafsjór af upplýsingum enda alltaf að læra eitthvað nýtt, hvort sem það var í gegnum formlegt nám eða endalausan lestur bóka sem hún hafði svo mikið yndi af. Þegar hún var að segja okkur frá þá brosti hún allan hringinn. Hún rústaði okkur í öllum spurningaspilum eins og Trivial og Partý & Co. Hún var alltaf til í spurningaspil þótt við hinar forðuðumst þau. Ef spurningar komu fyrir í spilum þá vildum við allar vera með Guðrúnu í liði.
Guðrún var sú eina sem mætti með prjónana í saumó. Hún var snillingur í hannyrðum, hvort sem það var að sauma í, prjóna eða hekla og hún reyndi meira að segja að kenna okkur hinum að hekla. Það var alveg yndislega skemmtilegt en árangurinn var misjafn. Tvær náðu að hekla heilan trefil, ein heklaði teppi og tvær gáfust upp en urðu andlegir pepparar fyrir hinar. Þetta eigum við í minningunni en við getum þó ekki sagt að við gætum endurtekið þennan leik, við hefðum svo þurft meiri tíma til að læra af henni Guðrúnu okkar.
Þegar Guðrún var með saumó þá bauð hún alltaf upp á dýrindiskræsingar enda frábær kokkur og bakari. Guðrún var sælkeri mikill og kunni að meta sætindi fram til hins síðasta. Við vorum heppnar að fá að njóta síðustu máltíðarinnar með henni þar sem hún náði að borða smásneið af Köku ársins með okkur á líknardeildinni. Þótt hún talaði ekki mikið síðasta spölinn þá náði hún samt að segja þann dag: „Kakan var æðislega góð.“
Guðrún var sú rólega af okkur, hún var með þægilega nærveru, yfirveguð og alltaf með jafnaðargeð. Mikið sem við eigum eftir að sakna hennar. Hún lætur eftir sig stórt skarð í hópnum okkar.
Guðrún okkar: Hvíl í friði og með þökk fyrir allar góðu samverustundirnar.
Berglind Eir Magnúsdóttir, Berglind Guðrún Chu, Elísabet Margrét Kristinsdóttir, Harpa Hafberg Gunnlaugsdóttir, Karen Sóley Jóhannsdóttir.