Guðni Nikulásson
Vegum og jarðgöngum mætti líkja við æðakerfi og hlutverk þess, sem er að tryggja nauðsynlegar og góðar samgöngur með sem auðveldustum hætti.
Hér á Austurlandi gengur uppbygging varanlegra vega og jarðganga allt of hægt.
Í þessum greinarstúfi ætla ég að minna á fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng 13 km og nauðsyn þess að hefja útboðsferli þeirra framkvæmda strax. Í framhaldi yrðu síðan grafin jarðgöng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar 6 km og frá Mjóafirði til Norðfjarðar 7 km.
Hringtenging Austurlands með þrennum jarðgöngum, frá Héraði til Seyðisfjarðar 13 km, Seyðisfirði til Mjóafjarðar 6 km og Mjóafirði til Norðfjarðar 7 km, samtals 26 km, myndi breyta öllu um uppbyggingu og þróun á Austurlandi til framtíðar. Ég ætla ekki að telja upp alla þá möguleika sem skapast í uppbyggingu nýrra atvinnumöguleika og aukinni afþreyingu með öruggum samgöngum og styttingum milli staða.
Benda má á að Fljótsdalshérað verður að öllum líkindum miðpunktur Austurlands, svo sem verið hefur, vegna landfræðilegra aðstæðna. Eftir gerð Fjarðarheiðarganga er aðeins 24 km láglendisvegur milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Þar með má segja að í framtíðinni verði Seyðisfjörður hafnarborg Fljótsdalshéraðs. Það gefur aukna möguleika vegna hagkvæmari vöruflutninga á landi, að ekki sé talað um að tryggja ferjusiglingar til Seyðisfjarðar allt árið. Ég hvet sveitarstjórn Múlaþings og nýjan ráðherra samgöngumála til að beita sér af fullum þunga fyrir því að farið verði í útboð á Fjarðarheiðargöngum nú þegar.
Það hefur ríkt of mikil þöggun/stöðnun í jarðgangagerð í nokkur ár hjá fyrrverandi stjórnvöldum.
Ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna var mjög áfram um stofnun sveitarfélagsins Múlaþings og þrýsti á um að það gengi eftir.
Íbúar Múlaþings voru þess vegna mjög bjartsýnir á að uppbygging nýs vegar yfir Öxi og göng undir Fjarðarheiði kæmu í kjölfar sameiningar sem talað var um. Að standa ekki við orð sín hefur aldrei þótt góð pólitík!
Væntingar um nýjan veg um Öxi og Fjarðarheiðargöng lifa samt og kröfur íbúa standa óhaggaðar, sama hvaða flokkar eru í ríkisstjórn.
Íbúar Múlaþings hafa ítrekað óskað þess að staðið verði við gefin fyrirheit.
Það eru til nægir fjármunir í lífeyrissjóðum landsins til að fjármagna nauðsynlegar samgöngubætur. Fjarðarheiðargöng eiga að vera tilbúin til útboðs og engin ástæða til að draga málið lengur.
Hvað varðar veginn um Öxi er hönnun hans að fullu lokið og löngu kominn tími á að hefja útboð og framkvæmdir. Við það myndi hringurinn um Ísland styttast um 68 km fyrir þá sem eru á leið til austur eða til Norðurlands, en aðrir fara hringveg um firði til Héraðs. Kostnaðaráætlun er 7-10 milljarðar króna og verktakar á Austurlandi örugglega tilbúnir í verkefnið.
Samgönguráðherra (innviðaráðherra) og Alþingi hafa heimild til að höggva á þennan illvíga hnút sem stendur í vegi fyrir eðlilegum og nútímalegum samgöngum, bæði hvað varðar Fjarðarheiði og Öxi.
Höfundur er fyrrverandi rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Fellabæ.