Hljómsveitin Skítamórall sendi frá sér lagið „Sælan“ á dögunum en um er að ræða nýtt lag byggt á gömlum grunni. Lagið og textinn eru eftir forsöngvarann og gítarleikarann Gunnar Ólason sem samdi lagið aðeins 19 ára gamall þegar hljómsveitin var að slíta barnsskónum á Selfossi.
Segir í tilkynningu að hljómsveitin sé einnig á fullu að undirbúa afmælistónleika sem fram fara í Hofi á Akureyri annað kvöld, föstudagskvöldið 4. apríl, klukkan 20 og Háskólabíói föstudaginn 11. apríl klukkan 21.
„Í ár eru 35 ár frá því að hljómsveitin kom fyrst fram en hún var stofnuð á Selfossi af fjórum æskufélögum, þeim Hebba, Hanna, Gunna og Adda. Hljómsveitin hefur verið ein sú vinsælasta á Íslandi síðan seint á síðustu öld og sýnir engin merki um breytingar þar á.“ Hljómsveitina skipa þeir Gunnar Ólason, Herbert Viðarsson, Jóhann Bachmann, Arngrímur Fannar Haraldsson og Gunnar Þór Jónsson.