Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Vegagerðin hefur samið við fyrirtækið Ferjuleiðir ehf. um rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs til næstu þriggja ára. Ferjuleiðir taka við rekstrinum frá og með 1. júní.
Ferjuleiðir áttu lægsta tilboðið í rekstur Breiðafjarðarferjunnar til næstu þriggja ára. Reksturinn er ríkisstyrktur eins og annar ferjurekstur í landinu.
Tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni 3. desember sl. Þrjú tilboð bárust. Ferjuleiðir ehf., Reykjavík, buðust til að taka að sér reksturinn fyrir krónur 1.750.615.265. Var það 91,8% af áætluðum verktakakostnaði sem var krónur 1.906.832.181.
Sjótækni ehf., Tálknafirði, bauð krónur 1.795.748.700 og Sæferðir ehf. í Stykkishólmi 2.050.132.500.
Sjótækni kærði niðurstöðu útboðsins til kærunefndar útboðsmála og laut kæran að því að lægstbjóðandi hefði ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar og „umsvif félagsins gefi með engu móti tilefni til þess að ætla að félagið hafi fjárhagslega burði til að standa undir rekstri eins viðamiklum og hið kærða útboð lúti að“. Ferjuleiðir höfnuðu málatilbúnaði Sjótækni.
Niðurstaða kærunefndarinnar var eftirfarandi: „Að framangreindu gættu og að virtum málatilbúnaði aðila að öðru leyti verður að telja, eins og málið liggur fyrir nú, að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að því að ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Ferjuleiða ehf. hafi brotið gegn lögum nr. 120/2016 eða reglum settum samkvæmt þeim.“
Fyrirtækið stofnað 2022
Ferjuleiðir ehf. voru stofnaðar 2022 í tengslum við tilboðsgerð í rekstur Hríseyjarferjunnar Sævars. Forsvarsmaður félagsins er Eysteinn Þórir Yngvason. Hann hefur mikla reynslu af ferjurekstri, hefur t.d. rekið Hríseyjarferjuna og Viðeyjarferjuna.
Vegagerðin bauð í haust út rekstur Baldurs. Þetta er sérleyfi til að annast fólks-, bifreiða- og vöruflutninga á milli Stykkishólms og Brjánslækjar á Barðaströnd með viðkomu í Flatey. Sæferðir eru núverandi rekstraraðili. Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur starfsmönnum Sæferða verið boðin áframhaldandi vinna hjá Ferjuleiðum.