Fjallabaksleið nyrðri Áfram er stefnt að uppsetningu á Kjalvegi, Fjallabaksleið nyrðri, Uxahryggjum og Kaldadal.
Fjallabaksleið nyrðri Áfram er stefnt að uppsetningu á Kjalvegi, Fjallabaksleið nyrðri, Uxahryggjum og Kaldadal. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki er útlit fyrir að slitlaus háhraðafarnetsþjónusta muni standa til boða á öllum stofnvegum landsins fyrr en í árslok 2028, tveimur árum síðar en stefnt hefur verið að. Fjarskiptastofa (FST) hefur boðað til samráðs við fjarskiptafyrirtækin um…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ekki er útlit fyrir að slitlaus háhraðafarnetsþjónusta muni standa til boða á öllum stofnvegum landsins fyrr en í árslok 2028, tveimur árum síðar en stefnt hefur verið að. Fjarskiptastofa (FST) hefur boðað til samráðs við fjarskiptafyrirtækin um breyttar forsendur verkefnisins um uppbyggingu háhraðafarnetsþjónustu á helstu stofnvegum og á tilteknum hálendisvegum og lagt til ýmsar breytingar á útbreiðslukröfum og frestun tímamarka. Leggur FST m.a. til að Sprengisandsleið verði felld út úr verkefninu.

Ástæða þessa er sú að fjármögnun Öryggisfjarskipta í verkefninu liggur ekki fyrir og er ekki í augsýn.

Fjarskiptafyrirtækin Nova, Síminn og Sýn fengu á sínum tíma úthlutað tíðniheimildum fyrir háhraðafarnetsþjónustu til 20 ára með ýmsum skilyrðum um uppbyggingu, gæði og hraða á farnetinu og gengust undir þá skilmála að byggja upp óslitið farnet á stofnvegum landsins, tilteknum tengivegum og á hálendinu, innan ákveðinna tímamarka sem sett voru.

Öryggisfjarskipti ehf., sem er í eigu ríkisins og Neyðarlínunnar, kom einnig að verkefninu þegar þau fengu úthlutað 700 MHz tíðniheimild til neyðar- og öryggisfjarskipta og gekkst jafnframt undir skilyrðin líkt og hin fjarskiptafélögin. Tafir hafa hins vegar orðið á verkefninu vegna skorts á fjármögnun á áður áætluðum hluta Öryggisfjarskipta.

„Það hefur ekki tekist að að fjármagna þennan hluta hjá Öryggisfjarskiptum til að fara af stað með uppbyggingu eða koma inn í þetta verkefni að öðru leyti. Það varð hálfgerður forsendubrestur og þess vegna erum við að fara í þetta verkefni núna, að draga úr kröfunum og fækka þeim leiðum sem verða dekkaðar. Kostnaðurinn minnkar þá alla vega um einn fjórða þannig að við getum þá haldið áfram með hinum þremur án þess að þeir beri byrðar umfram það sem þeir tóku að sér í upphafi verkefnisins,“ segir Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Fjarskiptastofu.

Fram kemur í samráðsskjali sem birt hefur verið á vefsíðu FST að fjármögnun á hlut Öryggisfjarskipta í stofnvegaverkefninu sé ekki líkleg í fyrirsjáanlegri framtíð. „Sú staða veldur óvissu sem setur framgang verkefnisins í uppnám. Enn fremur er ekkert sem bendir til að nýtt neyðar- og öryggiskerfi verði byggt upp á næstunni,“ segir þar.

Bent er á að þar sem útséð virðist um að Öryggisfjarskipti fái fjármagn til þess að taka þátt í fjárfestingum í stofnvegaverkefninu til jafns við aðra tíðnirétthafa hyggist FST gera umtalsverðar breytingar á aðkomu fyrirtækisins að verkefninu. Öryggisfjarskipti annist áfram utanumhald og tilfallandi verkefni, en verði ekki lengur fjárfestingaraðili í verkefninu.

Slitlaus háhraðanet 2028

Ein stærsta breytingin sem FST leggur til á skilyrðum tíðniheimilda Nova, Símans og Sýnar varðar frestun krafna um útbreiðslu háhraðafarnets á stofnvegum á láglendi. Lagt er til að hún verði komin í 99% í árslok 2027 og 100% útbreiðslu verði náð í árslok 2028 í stað ársloka 2026. Dauðu blettirnir svokölluðu á farnetinu heyra þá sögunni til tveimur árum síðar en upphaflega var gert ráð fyrir.

Hrafnkell segir að þetta sé ekki heppilegt en staðan sé einfaldlega þessi. Hann bendir hins vegar á að heilmikil vinna hafi þegar átt sér stað og verkefnið skilað talsverðum árangri nú þegar. Ætla megi að náð verði 98% útbreiðslu á stofnvegakerfinu í lok yfirstandandi árs.

Kröfum um stigvaxandi hraða á netinu er einnig breytt og er nú gert ráð fyrir að markmið um að ná 30 Mb/s og 150 Mb/s hraða frestist um fimm ár. FST leggur enn fremur til að heimilt verði að notast við svonefndar „utan-nets“ lausnir, sem eru litlir sendastaðir sem framleiða eigið rafmagn og eru með gagnatengingu um gervihnött.

Þá er gert ráð fyrir að heimiluð verði samnýting sendabúnaðar sem byggist á svonefndri MOCN-tækni á öllum nýjum sendastöðum sem þjóna stofnvegaverkefninu. Þessi samnýting fjarskiptafélaganna á MOCN-tækninni getur skilað góðum árangri og dekkað stór svæði við útbreiðslu farnetsþjónustu á vegarköflum á landinu.

Á hálendinu hefur verið gert ráð fyrir að 10 Mb/s hraða verði náð á Uxahryggjum, Kjalvegi, Sprengisandi og Fjallabaksleið nyrðri fyrir árslok 2031. FST leggur nú til að Sprengisandsleið verði tekin út af borðinu. Sú uppbygging er talin mjög dýr. Hins vegar er lagt til að Fjallabaksleið, Uxahryggir/Kaldidalur og Kjölur verði áfram hluti af verkefninu.

Höf.: Ómar Friðriksson