Hugmyndafræði Mannseðlið er alltaf óbreytt en samfélög í stöðugri þróun. Einstaklingarnir geta lært af reynslu, en sú þekking færist ekki á milli kynslóða, segir Vilhjálmur Egilsson um viðhorf sín og lærdóminn sem hann dregur af lífinu.
Hugmyndafræði Mannseðlið er alltaf óbreytt en samfélög í stöðugri þróun. Einstaklingarnir geta lært af reynslu, en sú þekking færist ekki á milli kynslóða, segir Vilhjálmur Egilsson um viðhorf sín og lærdóminn sem hann dregur af lífinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Staðan á Íslandi er góð,“ segir Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur. „Fólk í flestum ríkjum heims myndi án nokkurs vafa vilja skipta á sínum vandamálum og okkar, svo vel hefur tekist til hér

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Staðan á Íslandi er góð,“ segir Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur. „Fólk í flestum ríkjum heims myndi án nokkurs vafa vilja skipta á sínum vandamálum og okkar, svo vel hefur tekist til hér. Slíkt er staðfest samkvæmt mörgum kvörðum. Eigi að síður þarf að fylgjast vel með og búa í haginn til framtíðar. Ef stjórnendur fyrirtækja telja hlutina í svo góðu lagi að slaka megi á er voðinn vís. Sama gildir um samfélag manna, sem stöðugt þarf að vera í framþróun í krafti þekkingar og umræðu.“

Út er komin bók Vilhjálms Vegferð til farsældar – sýn sjálfstæðismanns til 60 ára hvar hann reifar lífssýn sína og afstöðu til málefna og hugmyndafræði. Vilhjálmur er nú, ríflega sjötugur, hættur föstum störfum, en lætur þó víða til sín taka. Síðustu misseri hafa mikið farið í ritstörfin.

Nálgun frá hægri

„Þetta er breið nálgun á þjóðfélagsmál, litið frá hægri vængnum,“ segir Vilhjálmur. „Sjálfur segist ég vera frjálslynt íhald og frjálshyggjumaður með vænan skammt af hugsjónum jafnaðarstefnu. Þetta er ágæt blanda. Frjálslyndi og frjálshyggja eru framfaraöfl en íhaldssemi og jafnaðarmennska skapa stöðugleikann. Ég byrjaði að skrifa bókina síðasta sumar eftir að hafa fundið út hvernig best væri að setja efnið fram,“ segir Vilhjálmur.

Bók sinni skiptir hann upp í þrjá meginkafla. Yfirskrift þeirra er Hugmyndafræði, Sigur frjálshyggjunnar og Verkefni framtíðarinnar. Inn á milli eru áhersluaukaörsögur, gjarnan af broslegum atvikum.

„Lífsskoðanir mínar hafa ekki breyst ýkja mikið frá því ég var unglingur. Margt hefur þó vissulega slípast til og með árunum hef ég orðið sífellt praktískari, það er að vilja útfæra mál þannig að sem best komi út í þágu heildarinnar. Meginniðurstaða mín er sú, þegar ég lít yfir farinn veg, að mannseðlið sé alltaf óbreytt en samfélögin að breytast. Einstaklingarnir geta lært af reynslu, en sú þekking færist ekki á milli kynslóða,“ segir Vilhjálmur.

„Við hjónin eigum hús úti í Tyrklandi og þaðan er mér minnisstætt samtal við kúrdískan vin minn. Kúrdar eru 30-35 milljónir, þjóðarbrot af indóevrópskum uppruna, og búa í Tyrklandi, Írak og Íran og Sýrlandi. Barátta þessa fólks fyrir því að eignast eigið ríki er sterk en hefur ekki skilað árangri. En þetta segir mér að draumar og hugsjónir deyja aldrei og meðal Kúrda kemur hver kynslóðin á eftir annarri og reynir að raungera hugsjónina, sem ekki tekst.“

„Ef menn sögðu eitthvað af viti“

Vilhjálmur sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1991 til 2003 og var þá meðal annars formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Árin á Alþingi segir hann hafa verið góðan tíma, en þá voru þegar gerðar margvíslegar breytingar í átt til aukins frjálsræðis, meðal annars í efnahagsmálum. Sú stefna sem þarna var mótuð, undir forystu sjálfstæðismanna, hafi þó vissulega verið umdeild í byrjun.

„Í þinginu lærði ég að leiðin áfram felst alltaf í málamiðlunum. Grunnstefin í ýmsum málum sem unnið var að á árunum 1991 og fram yfir aldamót voru ekki gefin eftir en að sjálfsögðu var tekið tillit til alls konar atriða og sjónarmiða sem upp komu og voru reifuð við meðferð máls. Ólík sjónarmið voru oft nýtt til að bæta löggjöfina. Reglan mín var sú að ef menn sögðu eitthvað af viti þá tók ég tillit til þess,“ segir Vilhjálmur og brosir.

Hann minnist þess einnig að á þessum árum var skerpt á ýmsu í skattamálum, starfsskilyrði sjávarútvegs bætt og tekjustofnar hins opinbera styrktir. EES-samningurinn tók gildi með því aukna frjálsræði sem því fylgdi og svo framvegis. Á árunum fyrst eftir 1990 hafi raunar verið þröng staða í efahagsmálunum á Íslandi, en svo farið að rofa til í kringum 1996.

„Þá fóru verulega auknar tekjur að skila sér í ríkissjóð og aukast mun hraðar en útgjöldin. Slíkt gaf svigrúm til þess að hrinda mörgum mikilvægum málum í framkvæmd. Þar nefni ég til dæmis fjölgun háskóla, sem keppa sín í milli. Úr þeim hafa svo verið brautskráðir stórir hópar fólks með góða menntun, til dæmis í lögfræði, viðskiptagreinum og verkfræði. Þannig hefur orðið til þekkingarsamfélag með nýjum greinum sem hafa í raun og veru alveg gjörbreytt atvinnulífinu,“ segir Vilhjálmur sem um langt árabil var rektor Háskólans á Bifröst í Borgarfirði.

Í grunnskólunum er allt í steik

„Samkeppni milli háskóla hefur verið til góðs. Sama má segja um framhaldsskólastigið. Þó verður að segjast að í grunnskólunum er allt í steik og þar þarf að gera betur, til dæmis með því að draga úr miðstýringu og gera starfið markvissara. Að mínu mati eru til dæmis fyrstu þrjú grunnskólaárin mjög illa nýtt, svo nemendur standa jafnöldrum sínum í öðrum löndum langt á eftir í kjarnagreinum. Uppstokkun í starfi grunnskóla þarf því að koma til. Eitt af því gætu verið breytingar á rekstrarformi og að hver skóli fái að móta sína sérstöðu.“

Eitt af þeim málum sem Vilhjálmur fjallar um í bók sinni er staða innflytjenda á Íslandi; fólks sem hingað kemur, tekur virkan þátt í samfélaginu og leggur mikið af mörkum. Stóra verkefnið sé að tryggja að innflytjendur verði Íslendingar; fólk sem samlagast þjóðinni að fullu eftir tvær til þrjá kynslóðir. Mikilvægt sé fyrir viðgang þjóða að viðhalda heilbrigðri fjölgun íbúa. „Það mun ekki gerast nema með aðflutningi fólks og helst fleiri barneignum,“ segir Vilhjálmur í bók sinni (bls. 216).

Grunnur andlegs þreks

„Fyrsta kynslóð innflytjenda nær aldrei tungumálinu eða aðlagast íslenskum aðstæðum að fullu. Áherslan þarf að vera á aðra kynslóðina,“ segir Vilhjálmur að síðustu hér í viðtalinu. „Annað sem ég nefni í bókinni er að mér er ekki að skapi að áhrif kristninnar á samfélagið hafa minnkað mikið. Trúin er okkur mikilvæg; skapar sterkan grunn til að byggja á hvað varðar siðferði og andlegt þrek. Skapar góðan mælikvarða á hvað sé rétt og rangt. Að kristnin verði aftur leiðandi afl er mikilvægt en þá ekki endilega í krafti opinberra afskipta. Við þurfum einfaldlega að vera vakandi í samskiptum okkar hvert við annað og byggja á góðum gildum; samhjálp, kærleik og fyrirgefningu.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson