Kvika „Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson fara alla leið inn í kvikuna og miðla með kröftugum hætti þeirri djúpstæðu sorg og örvilnan sem Ennis og Jack glíma við,“ segir í rýni um Fjallabak í Borgarleikhúsinu.
Kvika „Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson fara alla leið inn í kvikuna og miðla með kröftugum hætti þeirri djúpstæðu sorg og örvilnan sem Ennis og Jack glíma við,“ segir í rýni um Fjallabak í Borgarleikhúsinu. — Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsið Fjallabak ★★★★★ Eftir Ashley Robinson, byggt á smásögu Annie Proulx. Tónlist og söngtextar: Dan Gillespie Sells. Þýðing leikverks: Maríanna Clara Lúthersdóttir. Þýðing söngtexta: Sigurbjörg Þrastardóttir. Leikstjórn: Valur Freyr Einarsson. Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Lýsing: Gunnar Hildimar Halldórsson. Leikgervi: Guðbjörg Ívarsdóttir. Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson. Hljómsveit: Guðmundur Pétursson og Þorsteinn Einarsson. Nándarþjálfun og ráðgjöf: Agnar Jón Egilsson. Leikarar: Björn Stefánsson, Esther Talía Casey, Hilmir Snær Guðnason, Hjörtur Jóhann Jónsson og Íris Tanja Flygenring. Raddir utansviðs: Bríet Ebba Vignisdóttir, Kría Valgerður Vignisdóttir og Mía Snæfríður Ólafsdóttir. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudagurinn 28. mars 2025.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

Þegar horft er yfir leikárið er áhugavert að sjá hversu áberandi hinseginleikinn hefur verið í mörgum uppfærslum vetrarins. Í því samhengi mætti nefna söngleikina Við erum hér í Tjarnarbíói, Storm í Þjóðleikhúsinu, Dietrich í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll auk þriggja sýninga Borgarleikhússins, það er gamanleiksins Óskalands, dramatíska fjölskylduverksins Köttur á heitu blikkþaki og leikgerðarinnar á skáldsögunni Ungfrú Ísland. Í öllum þessum verkum er fjallað um hinsegin einstaklinga og oft á tíðum sambönd, án þess þó að það hafi endilega verið í forgrunni. Ekki er ólíklegt að hér sé um að ræða viðbragð við því bakslagi sem orðið hefur í réttindabaráttu hinsegin fólks víða um heim sem og hérlendis að undanförnu með tilheyrandi hatursorðræðu, en sagan hefur sýnt að því miður er þá oft stutt í ákveðna afmennskun með tilheyrandi ofbeldi.

Uppfærsla Borgarleikhússins á leikritinu Fjallabak, sem Ashley Robinson byggir á samnefndri smásögu Annie Proulx, færir okkur magnaða sögu þar sem hinseginleikinn er í algjörum forgrunni, ástarsögu þar sem ástin er í meinum. Smásagan, sem birtist fyrst í The New Yorker árið 1997, rataði eftirminnilega á hvíta tjaldið 2005 í leikstjórn Angs Lee með Hollywood-leikurunum Heath Ledger og Jake Gyllenhaal í burðarhlutverkunum sem Ennis Del Mar og Jack Twist. Óhætt er að segja að það séu djúp spor að fylla, en Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson gefa stórstjörnunum hins vegar ekkert eftir.

Leikgerðin er afar trú smásögunni, þar sem hinn syrgjandi Ennis (Hjörtur Jóhann Jónsson) rammar inn frásögnina með því að handleika tvær vinnuskyrtur sem þeir Jack (Björn Stefánsson) klæddust að Fjallabaki í Wyoming sumarið örlagaríka tveimur áratugum áður en leikurinn hefst, þegar þeir voru báðir rétt innan við tvítugt. Í framhaldinu hverfum við 20 ár aftur í tímann, eða til ársins 1963, og fylgjumst með Ennis og Jack að Fjallabaki. Þangað hafa þeir báðir ráðið sig sumarlangt til að gæta sauðfjár fyrir sléttuúlfum.

Fyrri hluti verksins hverfist nær einvörðungu um Ennis og Jack, með örfáum innkomum verkstjórans (Hilmir Snær Guðnason). Þeir eiga það sameiginlegt að hafa alist upp í fátækt og þurfa að taka hverri þeirri íhlaupavinnu sem gefst til að framfleyta sér. Í þessum harðneskjulega heimi er flaskan eina leiðin til að gleyma ömurleika hversdagsins. Smám saman kemur líka í ljós að báðir hafa þeir upplifað óhugnanlegt ofbeldi sem markar að nokkru sýn þeirra á samfélagið, samferðafólk og samskipti.

Í óbyggðunum kvikna kenndir sem mennirnir tveir gera sér vel grein fyrir að samfélagið samþykkir ekki. En í frelsi fjallanna freistast þeir til að gefa sig tilfinningunum á vald, þótt þeir eigi erfitt með að horfast í augu við langanir sínar, ekki síst Ennis.

Leiktextinn í þessum fyrri hluta er af skornum skammti og stór hluti samskiptanna á sér stað í þöglum leik, þar sem augngotur og líkamleg samskipti leika lykilhlutverk, hvort heldur er í gamniáflogum eða líkamlegu samneyti, en oft á tíðum virðist afar stutt þarna á milli. Teygjan í samleik leikaranna tveggja rofnar aldrei og spennan helst áþreifanleg allan tímann, hvort sem mikið eða lítið gengur á í samskiptunum. Í raun mætti lýsa þessum fyrri hluta sýningarinnar sem masterklass í leiktækni þar sem allt gengur upp.

Eftir hlé eru Ennis og Jack komnir niður af fjallinu og aftur inn í ramma samfélagsins. Hér verða samtölin fyrirferðarmeiri og persónur fleiri, auk þess sem tímaramminn er lengri, eða um tuttugu ár í stað örfárra mánaða eins og reyndin var í fyrri hlutanum. Við sjáum Ennis í samskiptum við eiginkonu sína, Ölmu, sem Íris Tanja Flygenring túlkar af fallegri innlifun. Í samskiptum þeirra má sjá hvernig Ennis reynir að standa sig sem fjölskyldufaðir, enda börnin orðin tvö. Fátæktin markar þó líf þeirra og möguleika með afgerandi hætti. Fjórum árum eftir sumarið örlagaríka liggja leiðir þeirra Ennis og Jacks aftur saman og í framhaldinu hittast þeir reglulega í veiðiferðum þar sem þeir eiga stolnar stundir. Þrátt fyrir að Jack sé líka kvæntur reynir hann ítrekað að sannfæra Ennis um að þeir geti hafið nýtt líf saman með því að koma sér upp búgarði. Báðir virðast þeir þó gera sér grein fyrir því að slíkar skýjaborgir rúmast ekki innan þess samfélags sem þeir tilheyra. Frelsið varði aðeins eitt sumar, enda leggja þeir aldrei leið sína aftur að Fjallabaki saman.

Þótt Fjallabak geti við fyrstu sýn virkað sem einföld saga með einu undirliggjandi þema er hún í reynd miklu margbrotnari og opin til túlkunar. Þannig er til dæmis freistandi að lesa margvísleg kristin tákn og biblíuvísanir inn í söguna, þótt ekki verði farið nánar út í það hér. Fjallabak er sannarlega saga um ást í meinum þar sem hinsegin persónur fá að birtast sem djúpar tilfinningaverur með öllum sínum flækjum, væntingum, gleði og sorgum. Frelsisþráin sem í verkinu birtist er þó sammannleg, því viljum við ekki öll fá að vera eins og við erum – og vera séð og elskuð eins og við erum?

Öll umgjörð verksins þjónar framvindunni og sögutímanum vel. Áhorfendur sitja beggja vegna sviðsins sem virkar afar vel til að skapa nauðsynlega nálægð. Fyrir miðju sviði hefur Axel Hallkell Jóhannesson komið fyrir viðarpalli með rafmagnsstaur sem Gunnar Hildimar Halldórsson lýsir skemmtilega þannig að skugginn kastast á veggina bak við áhorfendur þannig að við verðum hluti af heimi verksins. Í öðrum enda leikrýmisins eru tjaldbúðirnar að Fjallabaki og baktjald sem nýtt er með hugvitsamlegum hætti til að varpa á það áhrifamiklum náttúru- og stemningsmyndum. Stefanía Adolfsdóttir klæðir persónur verksins með afar smekklegum hætti í litapallettu, snið og efni kúrekaheimsins sem persónur verksins tilheyra. Tónlist Dans Gillespies Sells leikur stórt hlutverk í því að skapa réttu stemninguna og er afbragðsvel flutt af Guðmundi Péturssyni, Þorsteini Einarssyni og Esther Talíu Casey, sem bregður sér jafnframt léttilega í ýmis smærri hlutverk. Sigurbjörg Þrastardóttir þýðir söngtextana af smekkvísi og þýðing Maríönnu Clöru Lúthersdóttur á leiktextanum er einkar þjál.

Sýningin ber vönduðu handbragði Vals Freys Einarssonar sem leikstjóra fagurt vitni. Í uppfærslu Borgarleikhússins á Svartþresti fyrir tveimur árum sýndi Valur Freyr svo um munaði hversu frábær leikari hann er. Ekki aðeins hefur hann leiktæknina fullkomlega á valdi sínu heldur nær hann að smjúga inn í kjarna persónanna sem hann leikur. Þá eiginleika nær hann að virkja með aðdáunarverðum hætti sem leikstjóri, því Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson fara alla leið inn í kvikuna og miðla með kröftugum hætti þeirri djúpstæðu sorg og örvilnan sem Ennis og Jack glíma við. Björn dregur upp frábæra mynd af sprelligosa sem notar hláturinn til að breiða yfir sársauka sinn. Þetta sést hvað skýrast þegar hann segir Ennis söguna af niðurlægjandi samskiptum við föður sinn. Hjörtur túlkar hinn fámála Ennis af miklu listfengi, þar sem persónan reynir sífellt að vera sterk og harka af sér, en brotnar reglulega þegar sorgin ber hann ofurliði. Samleikur þeirra með tilheyrandi nánd er ávallt fullkomlega áreynslulaus og trúverðugur. Í leikskrá kemur fram að Agnar Jón Egilsson sá um nándarþjálfun, en það er bæði til mikillar fyrirmyndar hjá leikhúsinu og skilar ríkulegri uppskeru.

Fjallabak er mikilvæg saga sem á sterkt erindi við samtímann, því mannréttindi eru ekki valkvæð og tilveruréttur fólks er ófrávíkjanlegur. Þannig á engin manneskja að þurfa að lifa í ótta um ofsóknir eða ofbeldi. Þetta á líka við ef ofsóknirnar grundvallast á kynhneigð fólks eða kynvitund. En mikilvægur boðskapur er ekki nóg til að skapa góða list heldur þarf listaverkið að uppfylla háar listrænar kröfur. Það á svo sannarlegar við um Fjallabak sem er kröftug og falleg sýning sem lifir lengi með áhorfendum. Fjallabak er einnig síðasta sýningin sem frumsýnd er í Borgarleikhúsinu í leikhússtjóratíð Brynhildar Guðjónsdóttur, sem sýnt hefur djörfung í verkefnavali og tekið listrænar áhættur sem hafa skilað sér ríkulega.