Guðmundur Björgvin Gíslason fæddist 10. júlí 1959 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 19. mars 2025.
Foreldrar hans voru Gísli Sveinbjörn Magnússon, f. 17.4. 1936 á Akranesi, d. 22.10. 1991, og Elva Gunnarsdóttir, f. 3. október 1936 á Ísafirði, d. 26. febrúar 2022.
Systkini hans eru: Gunnar Auðunn, f. 1957, Auður, f. 1961, Magnús Ingibjörn, f. 1962, Valur Örn, f. 1965, og Ægir Þór, f. 1967.
Sambýlismaður Björgvins var Gunnar Rafn Guðmundsson leikari, f. 21. janúar 1954, d. 7. maí 1993.
Björgvin gekk í Álftamýrarskóla, Melaskóla, Hagaskóla og Verslunarskóla Íslands. Hann tók meirapróf og lærði til félagsliða og var langt kominn með sjúkraliðanám.
Björgvin ólst mikið til upp hjá ömmu sinni og afa, Auði Guðmundsdóttur og Gunnari Sólberg Gíslasyni á Fornhaganum í Reykjavík.
Hann byrjaði snemma að vinna. m.a. bar hann út blöð átta ára, hann hreinsaði tanka í Slippnum í Reykjavík, hann fór með afa sínum sem messagutti á sjó. Hann vann ýmsa verkamannavinnu á yngri árum. En meginstarf hans var að vinna sem þjónn á ýmsum veitingastöðum og eitt sumar á MS Eddu. Hann stofnaði ásamt Gunnari sambýlismanni sínum Kaffi Gest, kaffihús á Laugaveginum, sem þeir ráku saman í stuttan tíma. Þegar heilsubresturinn fór að há honum reyndist þjónsstarfið honum of erfitt. Þá tók hann meirapróf og keyrði strætó og rútur í skemmri ferðum með ferðamenn. Síðast vann hann á Droplaugarstöðum sem félagsliði.
Björgvin vann að stofnun Alnæmissamtakanna (HIV Ísland) og tók þátt í starfinu, sat í stjórn og var formaður.
Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 3. apríl 2025, klukkan 13.
Ég leit eina lilju í holti.
Hún lifði hjá steinum á mel.
Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk.
En blettinn sinn prýddi hún vel.
(Þorsteinn Gíslason)
Hér kveð ég þig elsku Bjöggi, vinur og mágur, í síðasta sinn.
Þakka þér allar fallegu stundirnar sem við áttum saman í spjalli um lífið og tilveruna. Nú ert þú kominn á nýjan stað og hefur fengið að sjá það sem tekur við handan hins veraldlega með frið og sátt í hjarta.
Æðruleysi, heilindi, umburðarlyndi og þrautseigja ásamt kímnigáfu eru góðar gjafir á vegferð lífsins og voru perlurnar þínar í gegnum margra ára baráttu við veikindi. Ég mun ætíð minnast þín sem ástkærs vinar og bróður sem gaf svo mikið af sér með því að vera bara þú, kíminn og hláturmildur, þegar umræðan varð skondin og flaug um víðan völl. Nú færð þú að hvíla við hlið Gunna bróður, sambýlismanns þíns og stóru ástarinnar í lífi þínu, sameinaðir í alltumlykjandi kærleika æðri máttar ljóss og friðar.
Jenný Erla
Guðmundsdóttir.
Hann hét fullu nafni Guðmundur Björgvin Gíslason, en flestir þekktu hann bara sem Bjögga. Hann kom inn í líf mitt gegnum bróður minn, hann Gunnar Rafn Guðmundsson, en þeir voru ástvinir og sambýlismenn frá 1982 og þangað til Gunnar lést 1993 eða um 11 ár.
Þeir voru fallegir, glaðir og skemmtilegir menn, sem lífið blasti við. En vágestur lá í leyni og fyrir þeim átti að liggja að fá HIV-veiruna alræmdu. Gunnar lést af völdum hennar 1993. Ég bjóst við að Bjöggi myndi fylgja fast á hæla hans, en næstum 32 ár hafa liðið.
Ný lyf voru bylting fyrir þá sem greindust með veiruna skæðu. Það hefur komið í ljós á síðustu áratugum að þessi lyf voru mikið framfaraskref og lífslíkur hafa aukist mjög hjá þeim sem smitast. Bjöggi tók þátt í baráttunni fyrir betra lífi samkynhneigðra. Hann tók þátt í stofnun og starfi Alnæmissamtakanna, sem í dag heita HIV Ísland. Hann sat í stjórn samtakanna og var formaður 1994-1995. Hann fór á ráðstefnur víða um heim m.a. til S-Afríku. Hann fór einnig í skólaheimsóknir með fræðslu um þessi mál.
Framan af naut Bjöggi lífsins, en eftir því sem tíminn leið versnaði heilsan. Þrátt fyrir heilsubrest hélt hann alltaf húmornum, það var stutt í hláturinn, meira að segja við verstu aðstæður eins og til dæmis eftir heilablóðfall sem lamaði hann að hluta til öðrum megin í líkamanum. Þrautseigari mann en hann hef ég ekki fyrirhitt. Hann gafst ekki upp, hélt áfram og gerði það sem hann gat til að njóta lífsins og bæta sinn hag.
Hann var mjög útsjónarsamur, gat alltaf fundið vinnu við sitt hæfi hverju sinni. Það er hægt að segja margt um kosti Bjögga, það var gaman að tala við hann og hlæja með honum. Og það var óendanlega erfitt að fylgjast með heilsu hans hraka.
Síðustu vikurnar var hann mjög kvalinn, svo kvalinn að það tókst eiginlega ekki að kvalastilla hann. Barátta hans var löng og erfið. Hann saknaði alla tíð ástvinar síns og lífsförunautar. Nú munu þeir hvíla undir sama legsteini í grænum lundi fyrir sunnan Fossvogskirkju.
Í fallegasta ástarljóði allra tíma „Ferðalok“ eftir Jónas Hallgrímsson segir: „En anda, sem unnast, fær aldregi eilífð að skilið.“
Ég vil trúa því að núna hafi ástvinirnir sameinast í draumalandi himinheiða, frjálsir og glaðir og lausir undan þjáningu.
Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir.
Kær vinur er fallinn frá og margs er að minnast og margt þarf að þakka. Allt frá unglingsárum höfum við fylgst að með öllum þeim sigrum og áskorunum sem lífsins dans hefur boðið okkur upp á.
Minningabankinn er fullur af skemmtilegum ævintýrum þar sem við höfum dansað, hlegið, unnið og margt brallað saman bæði til sjós og lands, hérlendis og erlendis í áratugi. Björgvin hefur ávallt verið tryggur fjölskylduvinur og hefur fagnað með okkur tímamótum og tekið þátt í gleði okkar og sorgum. Við höfum glaðst saman, syrgt og fagnað og hann ávallt verið til staðar.
Lífið var ekki dans á rósum fyrir Bjögga, hann missti Gunnar Rafn sambýlismann sinn og vin okkar langt fyrir aldur fram en þeir glímdu báðir við sjúkdóminn hræðilega sem engu eirði og margt ungt fólk féll í valinn á seinni hluta síðustu aldar.
Þrátt fyrir öll sín veikindi og áföll gafst hann aldrei upp og var í forustu í Alnæmissamtökunum í byrjun þar sem hann kom mörgu góðu til leiðar enda var hann óþreytandi í baráttunni fyrir betra lífi fyrir félagana.
Björgvin var afskaplega hlýr og fordómalaus maður en hann gat líka svarað fyrir sig og þá með skemmtilegum svörtum húmor í tilsvörum. Við fögnum því að nú er þjáningum hans lokið en kveðjum þennan kæra fjölskylduvin með miklum söknuði og trega.
Nú ertu lagður
lágt í moldu
og hið brennheita
brjóstið kalt.
Vonarstjarna
vandamanna
hvarf í dauðadjúp –
en drottinn ræður
(Jónas Hallgrímsson)
Ása, Benóný
og dætur.
Ég skrifa þessi orð í minningu góða vinar míns Guðmundar Björgvins, en hann var alltaf kallaður Bjöggi.
Ég kynntist honum í byrjun níunda áratugarins á skemmtistaðnum Hollywood. Seinna áttum við eftir að leigja saman íbúð um tíma ásamt fleiri vinum. Við unnum saman á veitingastaðnum Torfunni og ferðuðumst saman bæði erlendis og innanlands.
Bjöggi kynntist Gunnari Rafni Guðmundssyni sem var alltaf kallaður Gunni árið 1982 og bjuggu þeir saman í 11 ár þar til Gunni lést 1993. Ég var mikið með Bjögga og Gunna á þessum árum og gisti alltaf hjá þeim þegar ég kom til Reykjavíkur, meðan ég bjó í Danmörku.
Þetta voru skemmtileg ár með mikilli gleði, djammi og partíum. Einnig voru þetta ár depurðar og sorgar því þetta var þegar alnæmið tók marga af vinum okkar.
Bjöggi var greindur HIV-jákvæður og bjóst ekki við að lifa nema nokkur ár eftir þá greiningu. En hann fékk lyf sem héldu sjúkdómnum niðri og hann þoldi vel, þannig að hans ár urðu 32 án Gunna sem var maðurinn í hans lífi.
Vinátta okkar Bjögga hélst í 46 ár eða þar til hann lést 19. mars 2025.
Bjöggi var glæsimenni sem tekið var eftir hvar sem hann kom. Hann var fordómalaus, heiðarlegur, rausnarlegur, góðum gáfum gæddur, skemmtilegur, orðheppinn, þrautseigur og raungóður. Vinur sem ég gat talað við um allt og leitaði til þegar erfiðleikar voru í mínu lífi.
Bjöggi var aufúsugestur á heimili okkar Einars og fylgdist vel með börnum okkar. Hann kom í afmæli barnanna, fermingar, stúdentaútskriftir og var hjá okkur mörg jól og áramót. Síðustu jólin með okkar fjölskyldu voru árið 2021. Frá þeim tíma átti hann orðið erfitt með að fara á milli staða og úthald hans var orðið minna til að vera í löngum boðum.
Það var enginn endir á þeim veikindum og erfiðleikum sem Bjöggi þurfti að glíma við síðustu árin. Oft var á brattann að sækja andlega, en alltaf barðist hann áfram þótt margir hefðu gefist upp fyrir svona miklum veikindum og mótlæti.
Ég kveð hér minn góða vin Bjögga og bið þess að hann sé í góðra vina hópi annars staðar með Gunna og öðrum góðum vinum sem fóru á undan. Bjöggi var einn af minni fjölskyldu og munum við öll sakna hans mikið.
Með þakklæti fyrir allt Bjöggi minn sem þú varst mér.
Anna Jóna
Jóhannsdóttir.