Það er óhætt að segja að nú sé gósentíð í íþróttunum. Hvar sem fæti er drepi niður er eitthvað spennandi í gangi. Bakvörður fer ekki í felur með að þessi árstími er í miklu eftirlæti. Hvað má bjóða þér á hlaðborði íþróttanna? Bestu deildir karla og…

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Það er óhætt að segja að nú sé gósentíð í íþróttunum. Hvar sem fæti er drepi niður er eitthvað spennandi í gangi.

Bakvörður fer ekki í felur með að þessi árstími er í miklu eftirlæti. Hvað má bjóða þér á hlaðborði íþróttanna?

Bestu deildir karla og kvenna í fótbolta? Úrslitakeppnir karla og kvenna í körfubolta og handbolta? Úrslitin á Íslandsmóti karla og kvenna í blaki?

Kannski fylgdistu spennt/ur með Skíðamóti Íslands í alpagreinum um síðustu helgi. Íslandsmeistarar í keilu voru þá krýndir í síðasta mánuði.

Ekki mun líða á löngu þar til golftímabilið fer af stað fyrir alvöru hér á landi og að mati bakvarðar er eitthvað meira heillandi við frjálsíþróttirnar þegar keppt er í þeim utanhúss.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta á tvo heimaleiki í Þjóðadeildinni fyrir höndum á næstu dögum og enski boltinn á alltaf hug stórs hluta landsmanna, auk þess sem Meistaradeild Evrópu er ekki síður spennandi.

Svona mætti lengi áfram telja og eru valkostirnir stundum svo margir að gera þarf upp á milli þess sem horft er á. Það er sannkallað lúxusvandamál.

Hvernig fólk sem hefur ekki nokkurn áhuga á íþróttum fer að á þessum árstíma veldur bakverði heilabrotum.

Þessi vettvangur verður ekki notaður til að skammast í því fólki; það er góðs viti að við séum ekki öll steypt í sama mót.

Einu skilaboðin eru: Þið vitið ekki af hverju þið eruð að missa. Prófið til dæmis að horfa á úrslitakeppnina í körfubolta. Það er fátt skemmtilegra.