Kjartan Magnússon
Íslenskum grunnskólanemendum ætti að ganga betur í námi ef miðað er við það fé sem varið er til menntamála. Þetta segir Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD. Hann ráðleggur Íslendingum að taka samræmd próf upp að nýju í grunnskólum, enda séu þau mikilvægt tæki til að bæta menntakerfið.
Þetta eru orð að sönnu, en Ísland er eitt fárra OECD-landa þar sem ekki eru lögð fyrir samræmd próf. Schleicher segir slíkt samræmt mat mikilvægt tæki til að þróa nám og kennslu. Námsárangur þurfi að vera sýnilegur, enda sé erfitt að bæta það sem ekki sést. Með stöðluðu námsmati sé hægt að gera samanburð sem leggi grunn að stöðugu umbótastarfi.
Óviðunandi árangur
Hæfni íslenskra unglinga hefur um árabil mælst talsvert minni en jafnaldra þeirra í öðrum OECD-löndum. Ísland er í sjötta neðsta sæti allra OECD-landa samkvæmt heildarniðurstöðu PISA-könnunarinnar frá 2022. Íslenskir grunnskólanemendur stóðu þá höllustum fæti evrópskra nemenda í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum að Grikkjum undanskildum.
Ekkert OECD-ríki lækkaði jafnmikið á milli kannana og Ísland. Eftir tíu ára nám bjuggu aðeins 60% nemenda yfir grunnhæfni í lesskilningi, 64% í læsi á náttúruvísindi og 66% í stærðfræðilæsi.
Slakur árangur nemenda kallar á að gripið verði til raunverulegra úrbóta í íslenskum grunnskólum. Setja verður raunhæf markmið og mæla árangur reglulega til að sjá hvort allir hlutaðeigandi séu á réttri leið í umbótastarfinu. Mikilvægt er að nýta foreldra í sem ríkustum mæli í þessu starfi, enda er vitað að þátttaka þeirra í námi barna sinna stuðlar að velgengni.
Samræmd próf voru lögð fyrir hérlendis allt frá árinu 1929 og þróuðust þau með margvíslegum hætti í tímans rás. Lengi vel voru þau mikilvægt tæki í námi og skólastarfi. 2009 var hætt að nota prófin sem lokamat úr grunnskóla og árið 2016 urðu þau rafræn. Samræmt próf var síðast lagt fyrir árið 2021 og þá aðeins í íslensku.
Gildi samræmdra prófa
Tilgangur samræmdra prófa var að kanna að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í ákveðnum námsgreinum eða námsþáttum hefði verið náð. Um áratuga skeið veittu þær nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum dýrmætar upplýsingar um námsárangur og stöðu nemenda.
Samræmdu prófin lögðu grunn að mikilvægu umbótastarfi. Út frá niðurstöðum námsmatsins sáu viðkomandi nemandi og foreldrar stöðuna og hvar hann þyrfti að bæta sig. Kennarar, skjólastjórnendur og kerfið í heild sáu það einnig og gátu notað þær upplýsingar til að bæta vinnubrögð sín.
Eftir því sem næst verður komist er nýju námsmati, sem nefnt hefur verið matsferill, ætlað að koma í stað samræmdu prófanna en ekki er búist við því að hann verði innleiddur að fullu fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026-27. Verða þá a.m.k. sex ár liðin frá því að hæfni grunnskólanema í lestri og stærðfræði var síðast könnuð með samræmdri mælingu á landsvísu.
Afnám samræmdu prófanna var afglöp. Frá því að samræmd próf voru afnumin sem lokamat úr grunnskóla hefur afturför íslenskra grunnskólabarna verið samfelld. Óviðunandi er að stór hluti unglinga hafi ekki öðlast grunnfærni í lesskilningi eftir tíu ára skyldunám.
Samræmd próf verði tekin upp að nýju
Brýnt er að leiðrétta mistökin og taka samræmd próf upp að nýju í því skyni að leiða í ljós hvernig nemendum hafi tekist að tileinka sér ýmsa þætti aðalnámskrár. Prófin eru hvetjandi og stuðla að jafnræði og gagnsæi. Þau auðvelda umbótastarf og veita nemendum, foreldrum, skólum og yfirvöldum mikilvæga endurgjöf eins og tíðkaðist um áratuga skeið.
Engin aðferð er fullkomin við að velja nemendur til skólavistar í eftirsóttum framhaldsskólum en miðlæg mæling eins og samræmd próf stuðlar þó helst að sanngirni og gegnsæi að því leyti.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.