Í bréfi sem Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hf. sendi hluthöfum félagsins segir hann fullyrðingar Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um fjárfestingar sjávarútvegsins í óskyldum rekstri ekki eiga neina stoð í raunveruleikanum og skorar hann á ráðherra að sýna fram á þessar fjárfestingar.
„Einhverra hluta vegna kjósa ráðamenn að fara fram með vanhugsaðar og illa útfærðar tillögur um skattahækkanir sem ekki þola skoðun, í stað rökstuðnings og gagna,“ segir hann í bréfinu um fyrirhugaða hækkun veiðigjalda. „Farið er fram með rangar staðhæfingar um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjárfestingar þeirra gerðar tortryggilegar. Má til dæmis nefna fullyrðingu atvinnuvegaráðherra nýverið um 100 milljarða fjárfestingar sjávarútvegs í óskyldum atvinnurekstri.“
Aðeins 200 milljónir
Gunnþór rekur sögu fjárfestingaa Síldarvinnslunnar í bréfinu og segir frá því að félagið hafi á undanförnum ellefu árum fjárfest fyrir 79,8 milljarða króna í nýjum skipum, verksmiðjum, eldi og búnaði og tækjum vegna veiða og vinnslu. Fjárfestingar sem ekki tengjast starfsemi félagsins á sama tíma voru 200 milljónir króna og runnu til verkefna í nærsamfélaginu í Fjarðabyggð.
Umræddar 200 milljónir fóru að mestu í verkefni sem hafa þurft fjármagn til að komast á laggirnar og er eignarhlutur Síldarvinnslunnar í þessum verkefnum í fjárfestingarfélaginu Vör sem Síldarvinnslan á 60% í á móti Byggðastofnun.
Skorar hann á ráðherra að upplýsa hvað sé á bak við fyrrnefnda fullyrðingu. „Það væri því gott ef þeir sem hæst hafa um sjávarútveg gætu nefnt dæmi máli sínu til stuðnings og bent á hvar þessar fjárfestingar í óskyldum rekstri upp á hundruð milljarða eru.“
Kallar hann eftir málefnalegri umræðu um sjávarútveg. „Gífuryrði, brigslyrði og fúkyrðaflaumur skilar engu og er engum til framdráttar.“