Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson
Opinber biðraðaþjónusta er ekki siðferðilega fremri einkarekinni. Núna þarf fólk að þekkja lækni sem þekkir lækni, svo að það verði ekki sniðgengið.

Ragnar Önundarson

Ef verðmæti eru látin í té ókeypis stefnir eftirspurnin í hið óendanlega. Kostnaður verður óviðráðanlegur, skammta verður framboð svo að biðraðir myndast. Reglunni um að notandi skuli a.m.k. greiða kostnað er sjaldan beitt í heilsuþjónustu. Sumar lækningar eru allt of dýrar til þess. Við rekum tvö kerfi, opinbert og hálfopinbert. Sjúkrahús og heilsugæslur eru í hinu opinbera, en tannlækningar, lyfsala, sérfræðilækningar o.fl. eru hálfopinber þjónusta, eins og við sjáum á reikningum þeirra. Hlutur notanda er oftast lítill hluti heildarfjárhæðar.

Víða í Evrópu er alvöru einkarekið kerfi við hlið hins opinbera. Frjálsar tryggingar bjóðast umfram þær sem skylt er að hafa. Þær kosta víða um 60 evrur eða 8.000 kr. á mánuði, en geta verið dýrari vegna víðtækari verndar. Útbreiddur misskilningur er að með þeim fari fólk fram fyrir biðraðir hins opinbera. Hið rétta er að það fer út úr biðröðunum og styttir þar með bið og kvalir annarra. Þessa leið þurfum við að fara eins og önnur Evrópulönd. Jafnræðisreglan á ekki að tryggja að allir kveljist jafn mikið og jafn lengi.

Á kostnað annarra

Í aðdraganda kosninga lofa frambjóðendur kjósendum dýrmætri þjónustu, greiddri með skattfé. Svo átta þeir sig sem þingmenn á skaðsemi hallarekstrar ríkissjóðs, sem ekki hefur tekist að hemja, svo að þrengir að atvinnulífi og heimilum. Sjálfs er höndin hollust og sá veit gjörst hvar skórinn kreppir að sem ber hann á fætinum. Almennt er æskilegt að notandi taki sjálfur ákvarðanir og beri kostnað af þeim. Þannig verður ráðstöfun verðmæta alltaf hagkvæmust.

Ríkisútgjöldum var beitt til sveiflujöfnunar á tímum kóvíd. Eftir standa skuldir sem verða ekki umflúnar. Reka verður ríkissjóð með afgangi til að stöðva skuldasöfnun hans og tryggja verður gjaldeyri til að greiða af erlendum lánum. Þetta þýðir að halda þarf sköttum hærri og að gengi krónunnar verður lægra um skeið en annars hefði verið. Hvort tveggja rýrir kaupmátt fólks. Skaðsemi ríkishalla verður ekki ofmetin, af því að það er hann sem Seðlabankinn verður að mæta með prentun peninga. Einmitt það kyndir undir vítahring verðbólgu, hárra vaxta og gengissigs.

Sjálfvirkur og stjórnlaus

Ríkið tryggir framboð mikilvægrar heilsuþjónustu. Væri verðið sett á núll, þjónustan gefin, yrði eftirspurnin hömlulaus. Notendur vissu þá ekkert um kostnaðinn, þeir fengju engin verðskilaboð frá markaðnum. Þetta er nefnt til að draga fram kjarna máls. Í raun ákveður hið opinbera að verðið skuli vera lægra en nemur kostnaði. Reglan leiðir til taprekstrar, bæði vegna hins lága verðs og vegna aukinnar notkunar. Við þessu er aðeins eitt svar: Við verðum að greiða sem næst kostnaðarverð fyrir flesta algenga heilsuþjónustu eins og annað. Hins vegar eru sumir liðir hennar svo dýrir að útilokað er að flest fólk geti greitt hana úr eigin vasa. Þeir eru sem betur fer ekki jafn algengir og ferðir á heilsugæslu, í lyfjabúð og til tannlæknis eða sérfræðings. Til að mæta þessu voru áður fyrr greidd iðgjöld til sjúkrasamlaga, sem illu heilli voru lögð niður. Undirritaður hefur nýlega farið til tannlæknis, leyst út lyfseðil og leitað til sérfræðings. Í öllum tilvikum var honum færður óumbeðinn ríkisstyrkur, sem hann hefði getað verið án. Framlaginu, í öllum tilvikum meira en helmingur kostnaðarins, hefði betur verið varið til einhvers sem þurfti á því að halda. Kostnaður ríkisins af heilsuþjónustu er sjálfvirkur og því stjórnlaus. Fyrsta grein íslenskra laga um heilbrigðismál kveður á um að allir skuli njóta fullkomnustu heilsuþjónustu sem „tök eru á“ að veita. Síðan sjúkrasamlög voru lögð niður er dýr þjónusta veitt fyrir næstum ekkert. Það er blekking af því að ríkissjóður ber kostnaðinn. Þeir sem standa höllum fæti ættu að fá aðstoðina með öðrum hætti.

Sósíalisminn

Íslenska heilbrigðiskerfið var „sett á jötuna“ með afnámi sjúkrasamlaga árið 1990. Það þýddi að faglegur kaupandi að þjónustu hvarf, verð hamlaði ekki á móti eftirspurn og tekjur mynduðust ekki á móti kostnaði. Nákvæmlega þetta var banamein áætlunarbúskapar sósíalismans. Síðan hefur óhaminn kostnaður fallið sjálfkrafa á ríkissjóð. Beitt er niðurskurði og stofnunum skipað að spara, án þess að nokkur verðskilaboð styðji það. Afleiðingin er m.a. sú að gamalt og ósjálfbjarga fólk liggur í dýrmætum legurýmum hátæknispítalans. Sjúklingar þjást bíðandi eftir aðgerð og sumir eru niðurlægðir með því að láta þá liggja frammi á gangi. Ráðherrar eru hins vegar lagðir inn á einkastofur, rétt eins og elítan í Moskvu á sinni tíð.

Sú aðferð þekkist erlendis að aðgerðir eru kostnaðargreindar svo að sjúkrahús fær fyrir fram þekkta greiðslu fyrir sína þjónustu. Í því felast verðskilaboð. Hvati myndast til að gera betur. Sama gildir um endurhæfingar- og hjúkrunarheimili, sem þýðir að unnt er að taka ákvarðanir um uppbyggingu á forsendum verðskilaboða. Afkastageta myndast eftir þörfum og fráflæðisvandi sjúkrahúsa leysist. Þjónustu við fólk í biðröðum verður óhjákvæmilega að forgangsraða, því ekki eru allir jafn veikir. Opinber biðraðaþjónusta er ekki siðferðilega fremri einkarekinni. Núna þarf fólk að þekkja lækni sem þekkir lækni, svo að það verði ekki sniðgengið.

Lækningar hindraðar

Markaðsbúskapur hefur reynst betur en áætlunarbúskapur. Evrópureglur fela frjálsri samkeppni á markaði úrlausn mikilvægra hagsmuna almennings. Sérstakri stofnun er ætlað að berjast gegn einokun og samkeppnishömlum. Heilsuþjónusta er ekki undanþegin Evrópureglum. Hvernig geta menn réttlætt að ríkið sjálft stundi einokun á mikilvægum hlutum markaðarins? Afleiðingin er sóun og stjórnleysi. Setja verður þá almennu reglu í rekstri hins opinbera að notandi greiði kostnað. Ríkið á að tryggja að nauðsynleg þjónusta sé til staðar, en ekki búa sér sjálfu til forréttindi. Til skamms tíma var læknum í hinni hálfopinberu heilsuþjónustu bannað að stunda lækningar utan samningsins, án þátttöku ríkisins í kostnaði. Þetta var brot á stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi manna og samkeppnisreglum. Álykta mætti af þessu að útgjöld ríkissjóðs hafi ekki verið vandamál, en skýringin mun vera sú að menn skilja ekki að það er bæði ríkissjóði í hag og þeim sem eru á biðlistunum að þessu ranglæti linni. Það er hagur fjöldans að hinir efnameiri fari út úr biðröðum hins opinbera.

En hvað þá um velferðarkerfið? Það verður að byggjast á tryggingum og sérstökum endurgreiðslum, ef tryggingar hrökkva ekki til. Skyldutryggingu í grunninn og frjálsum tryggingum til viðbótar. Heilsuþjónusta er sum sérstaklega dýr. Allar tryggingar dreifa kostnaði meðal hinna tryggðu. Koma þarf alvöru sjúkratryggingum á fót á ný, greiða iðgjöld og létta byrðunum af ríkissjóði. Vefsíðan www.sygeforsikring.dk sýnir hvernig Danir leysa þessi mál. Þar verður fólk að tryggja sig og m.a. ákveða sjálft hve vel það er tryggt, í ljósi þess verðs sem er á hverjum valkosti. Sjúkrasamlagið er kaupandi þjónustu fyrir hönd hinna tryggðu. Handa þeim sem kaupa frjálsa viðbótartryggingu er leitað bestu lausnar á markaði utan opinbera kerfisins. Þar fást verðskilaboðin. Framboð mætir eftirspurn. Biðraðir styttast og hverfa jafnvel. Heilsuþjónusta verður vaxtar- og jafnvel útflutningsgrein.

Bregðumst við

Íbúum landsins hefur fjölgað hratt. Fólkið kemur frá láglaunasvæðum til að njóta hærri tekna og meira öryggis. Gera þarf sérfræðilega úttekt á áhrifum fjölgunarinnar á heilbrigðis- og velferðarkerfi landsins. Þingmenn og ráðherrar þurfa að bregðast við. Verkefnið er alveg ópólitískt: Enginn hefur „tök á“ að setja sig á hausinn. Gerum raunhæfa hluti og hættum að hindra lækningar.

Höfundur er fyrrverandi og tilvonandi sjúklingur.

Höf.: Ragnar Önundarson