Farsæl „Sýningin markaði þannig á fallegan hátt lokin á tíu ára farsælum ferli Ernu [Ómarsdóttur sem listræns stjórnanda Íd] en um leið upphafið að nýjum tímum,“ segir í rýni um Hringi Orfeusar og annað slúður.
Farsæl „Sýningin markaði þannig á fallegan hátt lokin á tíu ára farsælum ferli Ernu [Ómarsdóttur sem listræns stjórnanda Íd] en um leið upphafið að nýjum tímum,“ segir í rýni um Hringi Orfeusar og annað slúður. — Ljósmynd/Owen Fiene
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarleikhúsinu Hringir Orfeusar og annað slúður ★★★★· Höfundur: Erna Ómarsdóttir. Dramatúrg: Bjarni Jónsson. Dramatúrgísk ráðgjöf og aðstoðardanshöfundur: Aðalheiður Halldórsdóttir. Tónlist: Skúli Sverrisson og Valdimar Jóhannsson. Hljóð: Valdimar Jóhannsson, Skúli Sverrisson og Jón Örn Eiríksson. Myndbandsvörpun og tæknistjórn: Valdimar Jóhannsson. Sviðsmynd og leikmunir: Gabríela Friðriksdóttir. Búningar: Karen Briem. Lýsing: Pálmi Jónsson. Lúðrasveit: Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar (SVoM). Útsetning fyrir lúðrasveit: Ingi Garðar Erlendsson. Stjórnendur lúðrasveitar: Ingi Garðar Erlendsson og Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir. Dansarar: Andrean Sigurgeirsson, Bjartey Elín Hauksdóttir, Diljá Sveinsdóttir, Elín Signý W. Ragnarsdóttir, Emilía Benedikta Gísladóttir, Erna Gunnarsdóttir, Félix Urbina Alejandre, Inga Maren Rúnarsdóttir, Saga Kjerulf Sigurðardóttir og Shota Inoue. Verkið er byggt á Orpheus + Eurydike – The Orphic Cycles, samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Theater Freiburg (NORDWIND Festival / Kampnagel Hamurg) eftir upprunalegri hugmynd frá Ernu Ómarsdóttur, Gabríelu Friðriksdóttur og Bjarna Jónssyni. Íslenski dansflokkurinn frumsýndi á Stóra sviði Borgarleikhússins föstudaginn 28. mars 2025.

Dans

Sesselja G.

Magnúsdóttir

Frumsýningu Íslenska dansflokksins á verki Ernu Ómarsdóttur Hringir Orfeusar og annað slúður bar upp á 28. mars 2025, daginn eftir að Lovísa Ósk Gunnarsdóttir tók við starfi Ernu sem listrænn stjórnandi flokksins. Sýningin markaði þannig á fallegan hátt lokin á tíu ára farsælum ferli Ernu en um leið upphafið að nýjum tímum.

Hringur Orfeusar og annað slúður er unnið upp úr verkinu Orpheus + Eurydike sem Erna ásamt sínu íslenska listræna teymi samdi fyrir leikara Borgarleikhússins í Freiburg fyrir nokkrum árum en dansarar úr Íslenska dansflokknum tóku einnig þátt í uppfærslunni. Verkið skyldi byggt á klassík eða þekktum fornsögum og valdi Erna að vinna með grískar goðsagnir, nánar tiltekið ástir Orfeusar, sonar guðsins Apollós og gyðjunnar Kallíópu, á dísinni Evridís og örlög hans eftir að hún hverfur honum til Heljar. Inn í þá frásögn vefur hún mun eldri sögu af Demetru sem þurfti að sjá á eftir dóttur sinni til Heljar rétt eins og Orfeus.

Orpheus + Eurydike var samið fyrir leikara og leikhús en Hringur Orfeusar og annað slúður fyrir dansflokk. Útkoman úr sköpunarferlinu var því ólík þrátt fyrir að um sama efni væri að ræða. Það að færa verk úr einu listformi, leiklist, yfir í annað, danslist, krefst endursköpunar og nýrrar nálgunar. Hringur Orfeusar er ekki í línulegri frásögn með texta. Orfeus er þó þarna, líka Evridís, Hades, Demetrea, Persefónía, Jason, áhöfnin á Argo, gullna reyfið, Medea, hættulegar konur, drekar og skrímsli en þau eru ekki bara þau heldur líka heildin, hópurinn sem gefur áhorfendum tilfinningu fyrir því sem er að gerast frekar en skilning. Það er heilmikill texti í sýningunni en orðin segja áhorfandanum ekkert endilega neitt vitrænt heldur flæða inn í heildræna skynjun hans á ljósi, litum, hreyfingum, formum og rými.

Erna notar texta og rödd mikið í verkum sínum og gerir það vel. Hér ljær hún þeirri pælingu aukna vídd með því að láta flytja/dansa texta á mismunandi tungumálum, meðal annars íslenska táknmálinu. Diljá Sveinsdóttir, ungur dansari sem er heyrnarlaus frá fæðingu, var þar í aðalhlutverki og gaf áhorfendum innsýn í hvað táknmálið getur verið fallegt þegar það er vel talað/dansað.

Framsetning Ernu á sögunum um Orfeus er hvorki línuleg né vitræn. Eins og í verkum hennar og Höllu Ólafsdóttur um annars vegar Rómeó <3 Júlía og hins vegar bara Júlíu þá eru sögurnar afbyggðar og settar saman á nýjan leik út frá nýju og ekki síst kvenlægara sjónarhorni og áherslan færist frá því sem gerist til þess sem upplifist og ekki síður mennskunnar og ómennskunnar. Sagan fær á þennan hátt nýja og dýpri merkingu sem gefur áhorfendum kost á að finna fyrir henni frekar en að skilja hana.

Það er alltaf ákvörðun áður en farið er á danssýningar sem byggjast á þekktu þema hvort betra sé að lesa sér til um efnið áður eða ganga inn í óvissuna og taka á móti því sem er. Undirrituð ákvað að fara ólesin á þessa sýningu og sjá hvort hún hrifi án þess að þekking eða skilningur væri fyrir hendi. Sýningin hreif svo sannarlega. Sérstaklega fyrri hlutinn. Þar var uppbyggingin samfelld og falleg, hugmyndir fengu að lifa og þróast akkúrat þann tíma sem þær þurfa áður en ný tók við. Það er hárfín lína á milli þess að hugmynd fái að lifa og njóta sín og þess að hún verði endurtekningasöm eða of stutt. Umgjörðin, leikmynd, búningar, lýsing og hljóðheimurinn, studdi kóreógrafíuna einstaklega vel, ekki síst tónlistin/hljóðheimurinn sem var mjög flott. Þegar tjaldið féll og ljósin kviknuðu í salnum, það var komið hlé, var stemningin orðin virkilega sterk. Þá hefði verið frábært ef verkið hefði haldið áfram án þessa hlés. Það truflaði. Það er að sjálfsögðu takmörkunum háð hvað dansararnir geta dansað lengi án hvíldar og það getur þurft að skipta um búninga og sviðsmynd en mikið hefði verið gott að fá að sitja og njóta listaverksins án truflunar alveg til enda.

Það voru fallegar og sterkar senur eftir hlé eins og siglingin og þegar dansararnir unnu með gyllta og svarta efnið en það voru hugmyndir sem fengu ekki nægan tíma, eins og senan þar sem Andrean/Orfeus reis upp úr hringnum með gyllt efnið utan um sig. Seinni hlutinn var óþarflega langur og það hefði mátt stytta verkið í þann endann í staðinn fyrir að teygja lopann í lokin. Endirinn sjálfur var aftur á móti stórskemmtilegur en kannski ekki nauðsynlegur. Áhorfendur tóku vel við sér þegar sviðið fylltist af lúðrasveitarkrökkum og dansararnir sungu hástöfum lagið „Words“ („Words don’t come easy …“) við undirleik hljómsveitarinnar. Snilldarkveðja fráfarandi listdansstjóra til áhorfenda, sem tóku henni fagnandi.

Handbragð Ernu leyndi sér ekki þegar horft var á verkið. Mörg kunnugleg stef birtust áhorfendum í hreyfingum, raddbeitingu sem og búningum og efnum sem nýtt voru á sviðinu og báru þess merki hvað höfundareinkenni Ernu eru sterk. Verkið var samt eins og fágaðri útgáfa af fyrri verkum hennar. Það var ekki sami dýrslegi krafturinn og oft áður, nokkuð sem undirrituð saknaði aðeins.