Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Sveinn K. Einarsson, deildarstjóri viðskiptasamninga hjá utanríkisráðuneytinu, segir fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Indland sæta miklum tíðindum.
Indland og EFTA-ríkin – Sviss, Ísland, Noregur og Liechtenstein – undirrituðu fríverslunarsamning (TEPA) 10. mars 2024. Fjallað var um samninginn í viðtali við R. Ravindra, nýjan sendiherra Indlands á Íslandi, í ViðskiptaMogganum í gær.
„Það er jákvætt við þennan samning að þau fríðindi sem við sömdum um hafa sérstaklega mikið vægi í viðskiptalegu tilliti,“ segir Sveinn. „Tollar inn til Indlands eru almennt mjög háir og raunar með því hæsta sem fyrirfinnst á heimsvísu. Ef við tökum sem dæmi sjávarafurðir þá gilda að jafnaði 33% tollar á afurðir sem fluttar eru inn til Indlands og 55% fyrir lýsisperlur. Það er margfalt meira en við sjáum annars staðar.
Ekki síður mikilvægt
Þannig að þessar tollaniðurfellingar skipta auðvitað miklu máli fyrir íslenska útflytjendur. Síðan er annar þáttur í þessu líka, sem er ekki síður mikilvægur, og hann er sá að yfirleitt semjum við um fríverslunarsamninga við ríki sem þegar hafa gert fjölda fríverslunarsamninga við okkar keppinauta. Oft erum við að fylgja í kjölfarið á ESB og að semja um sömu fríðindi og ESB hefur tekist að semja um við viðkomandi ríki. Indverjar hafa hins vegar gert fáa fríverslunarsamninga. Eru til dæmis ekki í fríverslunarsambandi við neitt þeirra ríkja sem við erum í hvað mestri samkeppni við, sem eru þá Norður-Ameríkuríkin, Bretland, Japan að einhverju leyti þegar kemur að sjávarafurðum og síðan auðvitað ESB. Þannig að okkar útflutningsfyrirtæki verða, þegar samningurinn er genginn í gildi, með raunverulegt og í rauninni einstakt samkeppnisforskot fyrir sínar afurðir inn á Indlandsmarkað.“
Þannig að samningurinn skapar umtalsverð tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf?
„Tvímælalaust. Og ég myndi segja einstakt í samanburði við aðra nýrri EFTA-samninga sem við höfum gert. Bæði hvað varðar þetta samkeppnisforskot og líka varðandi það hvað Indland er stór og hratt vaxandi neytendamarkaður.“
Ekki gengið lengra
Fram kom í áðurnefndu viðtali við nýja indverska sendiherrann að fríverslunarsamningurinn muni auðvelda Íslendingum að hasla sér völl á Indlandi og sömuleiðis Indverjum að leita tækifæra á Íslandi.
Spurður um þetta atriði segir Sveinn að samningurinn feli ekki í sér skuldbindingar um aðgang þjónustuveitenda frá Indlandi, eða sérfræðinga í þessu tilfelli, umfram það sem íslensk löggjöf kveður nú á um. Sú regla sé viðhöfð í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna að ekki sé gengið lengra þegar kemur að aðgangi að okkar vinnumarkaði en fyrirliggjandi löggjöf kveður á um. Samningurinn kveði eftir sem áður á um gagnkvæmar skuldbindingar samningsaðila á sviði þjónustuviðskipta og skapi þannig skýran ramma og fyrirsjáanleika fyrir þjónustuviðskipti milli ríkjanna.
Greiðir leiðina
Sveinn segir enn fremur að nýtt þjónustuver í indverska viðskiptaráðuneytinu muni greiða leið íslenskra fyrirtækja að indverskum markaði. Helsti tilgangurinn sé að liðka fyrir fjárfestum frá Íslandi og hinum EFTA-ríkjunum við að rata um regluverkið í hinu víðfeðma landi og koma auga á tækifæri til fjárfestinga.
„Það er nokkuð sem þeir lögðu mikla áherslu á. En auðvitað verður hægt að nýta þessa tengingu til að fá upplýsingar og aðstoð við almenn viðskiptamálefni einnig á grundvelli samningsins, viðskipti með vörur og þjónustu,“ segir Sveinn.
Samningurinn eigi sér langan aðdraganda. „Samningaviðræður hófust árið 2008. Þetta voru hefðbundnar samningaviðræður um fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Indlands og liður í þeirri fríverslunarstefnu sem Ísland hefur fylgt í áratugi að tryggja okkar útflutningsvörum viðeigandi markaðsaðgang á lykilmörkuðum á heimsvísu. Viðræður stóðu yfir með hléum í allan þennan tíma en tóku kipp fyrir tveimur árum og lauk loksins í byrjun síðasta árs,“ segir Sveinn.
Annar í Genf
Spurður hversu margir komu að samningavinnunni af hálfu utanríkisráðuneytisins segir hann að almennt taki tveir starfsmenn frá ráðuneytinu þátt í samningaviðræðum um fríverslunarsamninga EFTA með beinum hætti.
„Það er yfirleitt einn starfsmaður staðsettur í Genf, en þar eru höfuðstöðvar EFTA, og svo einn frá viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins. Síðan fáum við stuðning þegar á þarf að halda. Þar með talið frá tollinum, þegar við erum að semja um þessar flóknu upprunareglur, en líka frá því sem hét matvælaráðuneytið en heitir nú atvinnuvegaráðuneytið. Það tengist markaðsaðgangi fyrir landbúnaðarafurðir sem er viðkvæmasti þátturinn þegar kemur að Íslandi.“
Reglur varðandi uppruna
Hvernig eru þessar upprunareglur?
„Upprunareglur ákvarða það hvort vara eigi rétt á fríðindameðferð eða ekki. Þumalputtareglan hjá okkur í þessum viðræðum er að ákveðið hlutfall af virðisaukningu þarf að eiga sér stað innan viðkomandi ríkis til þess að varan geti hlotið uppruna. En síðan reynum við, sérstaklega þegar kemur að okkar helstu útflutningsafurðum eins og sjávarafurðum, að semja um víðari upprunareglur. Til dæmis þegar kemur að upprunareglum fyrir fisk að þá, samkvæmt okkar samningsmódeli sem náði meðal annars fram að ganga gagnvart Indlandi, semjum við um að fiskur sem er veiddur innan okkar lögsögu, en líka allur fiskur sem veiddur er af íslenskum skipum, eigi rétt á uppruna og þar af leiðandi fríðindameðferð.“
Grundvallarnálgun
Þú nefnir að landbúnaðarafurðir hafi verið einn viðkvæmasti þátturinn í samningunum. Hvernig verða þær heimildir nýttar? Má ætla að það verði fremur um að ræða útflutning landbúnaðarafurða frá Íslandi til Indlands en öfugt?
„Já. Það var okkar grundvallarnálgun þegar kom að þessum fríverslunarviðræðum gagnvart Indlandi sérstaklega, og gagnvart öllum aðilum sem við semjum við almennt í gegnum þetta EFTA-samstarf, að stefna Íslands er að tryggja okkar helstu útflutningsafurðum tollfrelsi. Þá erum við að tala um fisk, ál og þær iðnaðarvörur sem við framleiðum og flytjum hvað helst út. En líka það takmarkaða magn landbúnaðarafurða sem við flytjum út, sem er þá helst lambakjöt, skyr, vörur úr sjávarþara og drykkir svo fátt eitt sé nefnt. Svo er hin megináherslan á að tryggja áframhaldandi tollvernd fyrir landbúnaðarafurðir sem njóta hvað víðtækastrar tollverndar inn til Íslands,“ segir Sveinn. Samið var um tollfrelsi fyrir íslenskt lambakjöt til Indlands en það verða eftir sem áður sömu tollar á lambakjöt frá Indlandi til Íslands.