Vanda þarf vinnubrögðin; viðhafa festu, fyrirhyggju og fyrirsjáanleika

Gangverk lýðræðisins er margslungið, en þar koma við sögu hinar þrjár megingreinar ríkisvaldsins, sem setja hver annarri mörk og mótvægi, en allar hvíla þær á fullveldi þjóðarinnar, fullveldi Alþingis og fullveldi Íslands.

Að því stuðla háleitar hugsjónir hugsuða á borð við Montesquieu, Locke og Mill, en nefna mætti ýmsa innlenda lögspekinga líka, sem þar hafa lagt hönd á plóg. Rétt eins og tilfæra mætti ýmsa þingskörunga, sem mestu réðu um framfaramál af þessu taginu eða hinu.

Í því samhengi öllu nefna menn sjaldnar erfiðari handtökin í pulsugerðinni við Austurvöll; hina minna hátíðlegu stefnumörkun, sem á sér stað í fjárlagavinnunni, með hrossakaupum í hliðarsölum og hreppapólitík á kaffistofunni.

En fjármálin skipta máli, skipta nánast öllu máli í stjórnmálum. Peningar eru hin sammælanlega stærð, afl þess sem gera þarf og það er engin tilviljun að við tölum um samfélag, þar sem menn leggja fé sitt saman.

Því það er með taki sínu á pyngjunni, sem Alþingi ræður mestu. Einu gildir hvað lög áskilja um þessa framkvæmd ríkisins eða hina, göfugar og gegnar; ef Alþingi veitir ekki fjármagni til þess leggst sá lagabókstafur í dvala það fjárlagaárið. Það er ekki ágalli á stjórnskipaninni, heldur kostur og stundum öryggisventill.

Þess vegna er 41. gr. stjórnarskrárinnar ein sú mikilvægasta, en hún kveður á um að „ekkert gjald [megi] greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“.

Þess vegna er það líka eina ófrávíkjanlega starfsskylda stjórnarmeirihlutans á Alþingi, að sjá til þess að fjárlög hljóti afgreiðslu.

En það er ekki sama hvernig það er gert og um það snúast ótal snerrur stjórnmálanna, innan þings sem utan. Stjórnvöld hafa talsvert svigrúm í misjöfnu árferði og aðstæðum, en eins og menn þekkja geta ríkisfjármálin skjótt farið úr böndum ef þar er ekki auðsýnd aðgát og ábyrgð.

Í gær birtist í ViðskiptaMogganum viðtal við Álfrúnu Tryggvadóttur, hagfræðing hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og áður hjá fjármálaráðuneytinu, sem varpar ljósi á brýna þörf fyrir bætta áætlanagerð og hagræðingu í ríkisfjármálum á Íslandi.

Sú þörf er ekki ný af nálinni og þar hefur vissulega margt verið aðhafst af hálfu fyrri fjármálaráðherra, sem til framfara horfir. Nefna má rammafjárlög og fjármálaáætlun, sem voru vissulega til bóta, en hafa einnig haft ýmsar óætlaðar afleiðingar, sem bæta þarf úr.

Þessa dagana ræða stjórnvöld fjálglega um stöðugleikareglu, sem kann að reynast lofsverð, en á hinn bóginn getur hún opnað nær sjálfvirkum skattahækkunum leið. Það verður að forðast í lengstu lög. Á hinn bóginn blasir við nauðsyn þess að hér verði útgjaldaregla lögfest og hún höfð að meginreglu við stjórn opinberra fjármála, sem stuðlaði að ábyrgri stjórn ríkisfjármála og auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Álfrún bendir á að opinber útgjöld hafi víðast aukist mikið á undanförnum árum, en efnahagsþrótturinn síður. Því hafi þess víða verið freistað að ná tökum á þeim með útgjaldagreiningum, kerfisbundinni skoðun á útgjaldagrunni til að leita hagræðingar án þess að laska hin félagslegu kerfi. Nokkur árangur hafi náðst í löndum eins og Danmörku, Hollandi og Kanada.

Slík nálgun hafi hins vegar ekki náð fótfestu á Íslandi, að hluta til vegna þess að menn hafi ekki fundið neinn hvata til slíkrar skoðunar í miðjum efnahagsuppgangi.

Það er segin saga, eins og áður hefur verið bent á á þessum stað, að freistingin til þess að bæta duglega í þegar vel gengur er sterk, en þegar miður miðar eru menn ragir við að skera niður. Þannig virðist aldrei réttur tími til hagræðingar, hvað þá skattalækkana.

Jafnvel þegar lagt er upp með hagræðingu, eins og ríkisstjórnin miklast af þessa dagana, ristir hún ekki djúpt, er ekki í hendi, sáralítil í hinu stóra samhengi og kannski engin þegar allt kemur til alls.

Álfrún nefnir einnig agaleysi í íslenskri fjárlagagerð, þar sem verkefni sem einu sinni komast inn á fjárlög festast þar nánast ótímabundið og sólarlagsákvæði eru iðulega framlengd nánast sjálfkrafa.

Í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi hefur Viðreisn haft uppi viðnám við hugmyndum um skattahækkanir, sem binda verður vonir við að fjármálaráðherra hennar standi við. Til þess þarf mikinn sjálfsaga, jafnvel þvermóðsku gagnvart samherjum.

En það þarf líka góð vinnubrögð. Flaustrið við gerð frumvarpsdraga um tvöföldun veiðigjalda bendir til þess að þeim sé stórlega ábótavant. Ekki verður séð að þar hafi gagna verið aflað eða þau greind um afleiðingar svo stórkarlalegrar og fyrirvaralausrar breytingar, hvað þá að samráð hafi verið haft við hagaðila í sjávarútvegi, sveitarfélögum eða verkalýðshreyfingu, svo augljós dæmi séu nefnd. Fjármálaráðherra virðist ekki einu sinni hafa reiknað út áhrif þessarar breytingar á ríkissjóð.

Þar verður að gera betur.