Meðal gesta Floria Sigismondi er ítölsk-kanadísk margverðlaunuð listakona og þekkt af verkum sem hún vinnur í ýmsa miðla, m.a. tónlistarmyndböndum, ljósmyndum, auglýsingum og kvikmyndum. Hér sést hún á ljósmynd sem tekin var vegna kvikmyndarinnar The Runaways frá árinu 2010.
Meðal gesta Floria Sigismondi er ítölsk-kanadísk margverðlaunuð listakona og þekkt af verkum sem hún vinnur í ýmsa miðla, m.a. tónlistarmyndböndum, ljósmyndum, auglýsingum og kvikmyndum. Hér sést hún á ljósmynd sem tekin var vegna kvikmyndarinnar The Runaways frá árinu 2010. — Ljósmynd/Wikipedia
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlega kvikmynda- og bransahátíðin Stockfish 2025 verður haldin 3.-13. apríl í Bíó Paradís og að venju verður boðið upp á vandaða dagskrá og fjölbreytta. Verða yfir 30 kvikmyndir sýndar sem fæstar hafa verið sýndar áður hér á landi og…

Viðtal

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Alþjóðlega kvikmynda- og bransahátíðin Stockfish 2025 verður haldin 3.-13. apríl í Bíó Paradís og að venju verður boðið upp á vandaða dagskrá og fjölbreytta. Verða yfir 30 kvikmyndir sýndar sem fæstar hafa verið sýndar áður hér á landi og Bransadagar, fastur liður hátíðarinnar, verða á sínum stað en á þeim mun íslensku kvikmyndagerðarfólki gefast færi á að kynna verk sín og læra hvað af öðru. Þá verður ítalskur fókus á hátíðinni í ár, vel valdar ítalskar kvikmyndir sýndar og boðið upp á ítalskan mat og vín í tengslum við þær sýningar.

Hátíðin er byggð á arfleifð Kvikmyndahátíðar Reykjavíkur og var hún endurvakin árið 2015 með áherslu á fagmennsku, gagnsæi og lýðræði, eins og segir í tilkynningu. Meðal fjölda viðburða á dagskrá eru handritasmiðja, pallborðsumræður um stöðu kvikmyndagerðar og hlutverk tónlistar í kvikmyndum, heiðursviðburður um súrrealisma í kvikmyndagerð og arfleifð leikstjórans Davids Lynch og stuttmyndakeppnin Sprettfiskur verður einnig haldin. Auk þessa má nefna verðlaun kennd við Evu Maríu Daniels kvikmyndaframleiðanda, sem lést árið 2023, og veitt eru efnilegum leikstjóra eða framleiðanda, og Physical Cinema, sérstakan dagskrárlið sem sameinar hreyfilist, tónlist og kvikmyndagerð, undir stjórn Helenu Jónsdóttur.

Tók við góðu búi

„Þetta er ellefta árið sem hátíðin er haldin og ég var sjálf í stjórn hennar þegar hún var stofnuð, fyrir hönd Félags kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi. Hátíðin var stofnuð af öllum fagfélögum í kvikmyndabransanum, við erum í miklu samstarfi við Bíó Paradís og mikilvægt fyrir okkur að vera með hátíðina þar. Það liggur að baki margra ára undirbúningur og reynsla, við erum að allt árið,“ segir Dögg Mósesdóttir framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Hún sé sjálf með um fimmtán ára reynslu af því að halda kvikmyndahátíð þar sem hún stofnaði Northern Wave-hátíðina á sínum tíma og stýrði henni í ein 15 ár.

Dögg segir að hún hafi tekið við góðu búi og sér hún nú um framkvæmdastjórn með Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. „Þetta rúllar bara eins og smurð vél,“ segir hún um Stockfish og að leggja þurfi drög að næstu hátíð um leið og einni lýkur. Sækja þurfi um styrki með góðum fyrirvara, gera fjárhagsáætlanir og fleira sem slíkum hátíðum fylgi.

Greitt eftir getu

Það sem gerir þessa hátíð ólíka öðrum á Íslandi eru svonefndir Bransadagar, ekki satt?

„Já, einmitt, það er mikil áhersla lögð á að þjónusta bransann og að bransinn njóti góðs af hátíðinni því hún er náttúrlega stofnuð af fagfólki,“ svarar Dögg. Því reyni skipuleggjendur að nýta allt það fólk sem komi á hátíðina og veita fræðslu, bjóða upp á meistaraspjall og vinnustofur, sem fagfólk geti nýtt sér. „Og mynda tengslanet sem er svo mikilvægt í okkar fagi, til að geta verið í meðframleiðslu og slíku. Við erum að reyna að hafa frítt inn á allt svoleiðis hjá okkur og það verður frítt inn á hátíðina. Við ætlum að gera tilraun sem ég veit ekki til þess að hafi verið gerð áður í menningarbransanum, alla vega ekki í bíó- eða leikhúsbransanum, að fólk geti greitt eftir getu. Eitt af þemunum í ár er „inngilding“ og við viljum að hátíðin sé aðgengileg öllum, burtséð frá þjóðfélagsstöðu og efnahag. Fólk bara greiðir eftir sinni samvisku og getu.“

Þið þurfið væntanlega að vera búin að tryggja fjármögnun ákveðinna kostnaðarliða áður en að hátíð kemur?

„Í fyrra var frítt inn af því að það var tíu ára afmælishátíð og jókst svo svakalega aðsóknin, 40% aukning, og mikið af ungu fólki sem byrjaði að mæta, skólafólki og öðru sem hefur ekki efni á að fara í bíó á hverjum degi. Við viljum halda áfram að fá þetta fólk til okkar,“ segir Dögg og nefnir einnig að hátíðin eigi í samstarfi við Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna. „Við viljum sinna grasrótinni vel og áhugafólk um kvikmyndagerð og ungt fólk sem vill fara út í kvikmyndagerð getur nýtt sér alls konar námskeið sem við höldum líka,“ segir Dögg og nefnir sem dæmi vinnustofu eða námskeið í að „pitsja“ kvikmyndaverkefni, þ.e. að setja fram hugmynd að slíkum verkefnum og kynna öðrum. Dögg segir gríðarmikla skráningu hafa verið í þá vinnustofu.

„Svo verðum við með heiðursgest sem heitir Floria Sigismondi og ég er mikill aðdáandi hennar,“ segir Dögg en Sigismondi er kunn og virt og þá einkum fyrir leikstjórn tónlistarmyndbanda. „Hún hefur gert myndbönd fyrir David Bowie, Cure, Pink, Christinu Aguilera, Marilyn Manson … þetta er endalaus listi af fólki,“ segir Dögg. Sigismondi sé „goth-ari“ og geri, auk tónlistarmynbanda, ýmis vídeóverk, myndlistarverk og hafi líka leikstýrt kvikmynd. „Hún verður í pallborði með Sigurjóni Sighvatssyni og Sjón þar sem fjallað verður um súrrealisma og kvikmyndir Davids Lynch, sem við erum mjög spennt fyrir.“

Dansað á mörkunum

„Við viljum staðsetja okkur svolítið á jaðrinum sem kvikmyndahátíð, erum með opnunarmynd sem heitir Veðurskeytin sem dansar svolítið á mörkum heimildarmyndar og leikinnar myndar. Það er sýn okkar á þessa hátíð; að lyfta upp listamönnum sem eru að prófa sig áfram með kvikmyndaformið, fara með það út í myndlist og út í jaðarinn, út í aðrar listgreinar. Við eigum líka í samstarfi við Tónlistarmiðstöð, ætlum að vera með málþing um kvikmyndatónskáld og kvikmyndatónlist. Það verður hellingur í boði, fólk þarf eiginlega að taka sér frí í vinnunni og vera á málþingum á daginn og í bíói á kvöldin,“ segir Dögg.

Handritasmiðja verður leidd af Tinu nokkurri Gharavi sem hefur m.a. verið tilnefnd til BAFTA-verðlauna og er handritshöfundur, leikstjóri og „showrunner“ en hún nam upphaflega málaralist í Bandaríkjunum og kvikmyndagerð í Frakklandi. Gharavi er írönsk-bandarísk og segist Dögg hafa sótt vinnusmiðju hjá henni í fyrra. Dögg segir hana frábæran kennara og einkar færa í að finna kjarnann í sögunni þegar komi að handritaskrifum. „Fólk í þessari smiðju fær líka aðstoð í að kjarna söguna og selja hana til framleiðanda og áhorfenda,“ segir Dögg. Hún mæli heilshugar með þeirri smiðju.

Á vefnum stockfishfestival.is, má finna allar nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar og sýningartíma myndanna.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson