Titilvörn Breiðablik mætir til leiks sem Íslandsmeistari eftir sigur á Víkingum í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni í fyrra.
Titilvörn Breiðablik mætir til leiks sem Íslandsmeistari eftir sigur á Víkingum í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni í fyrra. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar 114. Íslandsmót karla í fótbolta hefst um komandi helgi beinast flestra augu að meisturum undanfarinna fjögurra ára, Breiðabliki og Víkingi, sem þykja afar líkleg að halda áfram baráttu sinni um Íslandsmeistaratitilinn

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þegar 114. Íslandsmót karla í fótbolta hefst um komandi helgi beinast flestra augu að meisturum undanfarinna fjögurra ára, Breiðabliki og Víkingi, sem þykja afar líkleg að halda áfram baráttu sinni um Íslandsmeistaratitilinn.

Valsmenn eru það lið sem helst gæti ógnað þessum tveimur stórveldum íslenska fótboltans í dag en það yrði að teljast frekar óvænt ef eitthvert fjórða lið myndi blanda sér í toppbaráttu Bestu deildarinnar.

Það hefur oft reynst erfiðara að verja meistaratitil en að vinna hann á ný og sú kenning hefur gengið upp undanfarin sex ár þegar Valur, KR, Breiðablik og Víkingur hafa öll fengið að kynnast því.

Frá árinu 2021 hafa Víkingur og Breiðablik unnið titilinn til skiptis og báðum liðum hefur reynst erfitt að halda fullri einbeitingu á að vera bæði í toppslag í deildinni og í langri Evrópubaráttu.

Titilvonir Blika fjöruðu út haustið 2023 þegar þeir komust fyrstir karlaliða í riðlakeppni Evrópumóts og Víkingar fengu að kynnast sama álagi í lok síðasta Íslandsmóts þegar vel hvíldir Blikar einbeittu sér að meistaratitlinum og hirtu hann af þeim á dramatískan hátt í lokin.

Í ár er komið að Blikum á ný að fara í undankeppni Meistaradeildarinnar, sem gefur besta tækifærið til að komast langt, og það er því í þeirra höndum að afsanna kenninguna um að ómögulegt sé að ná hámarksárangri á hvorum tveggja vígstöðvum, heima fyrir og í Evrópukeppni.

Vörnin spurningarmerki

Varnarleikurinn er helsta spurningarmerkið hjá Blikum í byrjun móts. Damir Muminovic spilar í Singapúr og kemur í fyrsta lagi í júlí og Kristinn Jónsson hefur verið frá keppni síðan í haust. Blikar hafa ekki fyllt sérstaklega í þessi skörð.

Anton Logi Lúðvíksson snýr aftur eftir eitt ár í Noregi og Blikar stilla því upp firnasterkri miðju með hann, Viktor Karl Einarsson og Höskuld Gunnlaugsson.

Tobias Thomsen fyllir skarð Ísaks Snæs Þorvaldssonar í miðherjastöðunni og þar fékk Kópavogsliðið góðan leikmann sem vann meistaratitilinn bæði með Val og KR og hefur síðan gert það gott í Danmörku.

Þá hafa meistararnir styrkt kantstöðurnar verulega með því að fá Óla Val Ómarsson frá Stjörnunni og Ágúst Orra Þorsteinsson heim frá Genoa á Ítalíu. Halldór Árnason vann meistaratitil á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari og tekst nú á við titilvörnina.

Gerir Gylfi útslagið?

Gylfi Þór Sigurðsson er að sjálfsögðu stóra trompið hjá Víkingum sem keyptu hann af Val í febrúar eftir nokkra dramatík. Gylfi sýndi með Val í fyrra hvers hann er megnugur þegar hann er heill heilsu og vafalítið er það koma hans í Fossvoginn sem gerir útslagið um að flestir virðast telja Víkingana sigurstranglega á komandi Íslandsmóti.

Víkingar bættu varnarmanni í hópinn með Róberti Orra Þorkelssyni, sem kom frá Sogndal í Noregi, og auk Gylfa bætist Daníel Hafsteinsson, bikarmeistari með KA, í hóp miðjumannanna.

Danijel Dejan Djuric, Gísli Gottskálk Þórðarson og Ari Sigurpálsson eru hins vegar allir farnir úr landi og því spurning hvort breiddin sé nægileg. Atli Þór Jónasson, framherjinn hávaxni frá HK, og Stígur Diljan Þórðarson, sem hefur verið á Ítalíu og í Portúgal, bætast í hópinn, sem og Sveinn Margeir Hauksson frá KA, sem væntanlega kemur þó ekki mikið við sögu í ár.

Víkingar misstu af báðum stóru titlunum á dramatískan hátt síðasta haust og Sölvi Geir Ottesen ætlar vafalítið að svara fyrir það á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari.

Valsmenn í titilbaráttu?

Eru Valsmenn vanmetnir í ár, sérstaklega eftir að Gylfi fór til keppinautanna í Víkingi? Þótt þeir hafi endað í þriðja og öðru sæti undanfarin tvö ár hafa verið nokkur vonbrigði á Hlíðarenda með frammistöðuna en þar á bæ er alltaf stefnt á titil, hvort sem það er raunhæft eða ekki.

Valsmenn eru í það minnsta búnir að vinna deildabikarinn, og þótt Gylfi sé farinn hafa þeir þétt verulega hjá sér miðjuna. Birkir Heimisson, Tómas Bent Magnússon og norski varnartengiliðurinn Marius Lundemo hafa bæst á miðsvæðið og þá á norski miðvörðurinn Markus Nakkim að styrkja vörnina.

Valur státar síðan af einhverri öflugustu sóknarlínu landsins með Patrick Pedersen, Tryggva Hrafn Haraldsson og Jónatan Inga Jónsson. Auk Gylfa misstu Valsmenn hinn fertuga Birki Má Sævarsson og þar með hurfu tæplega 200 landsleikir úr sterku byrjunarliðinu. En breiddin virðist vera orðin meiri en í fyrra og ef eitthvert lið er þess megnugt að skáka Breiðabliki og Víkingi, þá er það Valur.

Sviptingar í Garðabæ

Stjarnan mætir með nokkuð breytt lið. Óli Valur Ómarsson fór í Breiðablik, Róbert Frosti Þorkelsson til GAIS í Svíþjóð og þeir Daníel Laxdal, Hilmar Árni Halldórsson og Þórarinn Ingi Valdimarsson eru hættir. Þá er Heiðar Ægisson úr leik vegna meiðsla.

En Samúel Kári Friðjónsson hefur bæst í hópinn eftir langan atvinnuferil erlendis, sem og Garðbæingurinn Alex Þór Hauksson, Þorri Mar Þórisson sem kom frá Öster í Svíþjóð og sóknarmennirnir Andri Rúnar Bjarnason og Benedikt Warén sem komu frá Vestra.

Rúnar getur breytt miklu

Skagamenn komu mörgum á óvart sem nýliðar í fyrra með því að komast í efri hluta deildarinnar. Þeir tefla fram lítið breyttu liði en talsverðu munar að missa sóknarmanninn Hinrik Harðarson til Odd í Noregi. Gísli Laxdal Unnarsson ætti þó að fylla hans skarð.

Reynsluboltinn Arnór Smárason er hættur en ef Rúnar Már Sigurjónsson hristir af sér meiðslavandræðin getur hann orðið algjör lykilmaður og haft mikil áhrif á gengi ÍA. Baldvin Þór Berndsen er áhugaverður miðvörður sem er kominn til ÍA frá Fjölni. Skagamenn gætu þurft að hafa mikið fyrir því að jafna árangur síðasta árs.

Þynnri hópur hjá FH

FH gerði ekki meira en að komast í efri hlutann í fyrra og gæti lent í erfiðari baráttu í ár. Hópurinn er þynnri, Ólafur Guðmundsson fór til Aalesund, Logi Hrafn Róbertsson til Króatíu, Vuk Oskar Dimitrijevic í Fram og Finnur Orri Margeirsson er hættur.

Þá hafa meiðsli herjað á FH-liðið í vor, en FH fékk bakvörðinn Birki Val Jónsson frá HK, miðjumanninn Einar Karl Ingvarsson frá Grindavík og markvörðinn Mathias Rosenörn frá Stjörnunni.

KA þarf að byrja betur

Bikarmeistarar KA hafa verið í basli á undirbúningstímabilinu en það er ekkert nýtt að liðið fari rólega af stað. Daníel Hafsteinsson, Sveinn Margeir Hauksson, Elfar Árni Aðalsteinsson og Harley Willard eru farnir en bakvörðurinn Guðjón Ernir Hrafnkelsson kom frá ÍBV, færeyski sóknarmaðurinn Jóan Símun Edmundsson er kominn aftur og danski markvörðurinn William Tönning kemur í staðinn fyrir Kristijan Jajalo.

Nái KA-menn upp þeim dampi sem þeim tókst seinni hluta síðasta tímabils gera þeir tilkall til sætis í efri hlutanum. En þá mega þeir ekki vera jafnlengi í gang.

Gjörbreytt KR-lið

Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur heldur betur stokkað upp lið KR sem hefur í vetur sýnt takta sem lofa góðu um að það verði mun ofar en í áttunda sæti sem var hlutskiptið í fyrra. Í síðasta leik í deildabikarnum tefldi Óskar fram í byrjunarliði átta leikmönnum sem hafa bæst við frá síðasta tímabili.

Þar má helsta telja miðjumennina Vicente Valor og Matthias Præst sem komu frá ÍBV og Fylki, framherjann Eið Gauta Sæbjörnsson frá HK og miðvörðinn Júlíus Mar Júlíusson og markvörðinn Halldór Snæ Georgsson sem báðir koma frá Fjölni. Fimm fastamenn í fyrra eru farnir úr Vesturbænum og stærsta skarðið skilur markakóngurinn Benoný Breki Andrésson eftir sig.

Margir nýir hjá Fram

Fyrir Framara voru það mikil vonbrigði í fyrra að enda í níunda sæti eftir að tímabilið hafði lengi vel lofað góðu. Þeir hafa styrkt sinn hóp ágætlega í vetur og blása væntanlega sjálfir á spár um að þeir verði í neðri kantinum.

Styrkur nýju útlendinganna getur gert gæfumuninn. Svíarnir Simon Tibbling og Jakob Byström eiga að styrkja miðju og sókn og Spánverjinn Israel García á að þétta vörnina. Vuk Oskar Dimitrijevic kom frá FH og þá hafa Framarar sótt fjóra leikmenn í 1. deildina. Eini fastamaðurinn sem er farinn úr Úlfarsárdalnum er miðjumaðurinn Tiago Fernandes.

Framlínan farin

Vestri mætir til leiks í annað sinn á þessum vettvangi eftir að hafa naumlega haldið velli á markatölu síðasta haust. Hópurinn er nokkuð breyttur og þar munar mestu að öflug sóknarlína síðasta árs er horfin á braut, Andri Rúnar Bjarnason, Benedikt Warén og Pétur Bjarnason. Eistinn Kristoffer Grauberg og Ganamaðurinn Emmanuel Duah eiga að fylla í skörð þeirra.

Svíinn Diego Montiel kemur á miðjuna fyrir Ibrahima Baldé sem fór í Þór, Guy Smit er kominn í markið í stað Williams Eskelainens og sænski bakvörðurinn Anton Kralj kemur í stað Elvars Baldvinssonar. Vestramenn verða núna á heimavelli frá byrjun móts og það hjálpar til.

Þeir nýju mikilvægir

ÍBV er aftur í deildinni eftir árs fjarveru. Fjórir fastamenn frá síðasta tímabili eru farnir, sem er aldrei gott þegar lið fer upp um deild, þrír þeirra til keppinauta í deildinni. Þorlákur Árnason fær því krefjandi verkefni við að halda Eyjamönnum uppi.

Sex nýir útlendingar eiga að hjálpa til við það. Omar Sowe sem kemur frá Leikni R. og Jörgen Pettersen sem kemur frá Þrótti R. eru þekktar stærðir hér á landi en serbneski miðjumaðurinn Milan Tomic og varnarmennirnir Mattias Edeland frá Svíþjóð og Jovan Mitrovic frá Serbíu þurfa að taka að sér lykilhlutverk. Nýr markvörður er marcel Zapytowski frá Póllandi.

Stemning í Mosfellsbæ

Afturelding leikur í efstu deild í fyrsta skipti og mikil tilhlökkun hefur verið í Mosfellsbæ í allan vetur. Þar hefur Magnús Már Einarsson byggt upp sterkt lið á undanförnum árum og mætir með það tiltölulega lítið breytt til leiks í Bestu deildinni. Þó hafa Mosfellingurinn Axel Óskar Andrésson frá KR, Oliver Sigurjónsson úr Breiðabliki og Þórður Gunnar Hafþórsson úr Fylki bæst við.

Viðbúið er að nýliðarnir þurfi að berjast fyrir lífi sínu í deildinni en stemningin og áhuginn í kringum liðið mun vafalítið hjálpa til, alla vega til að byrja með.

Höf.: Víðir Sigurðsson