Ragnar Sigurðsson
Áform stjórnvalda um stórfellda hækkun veiðigjalda eru ekki bara árás á íslenskan sjávarútveg – þau eru árás á byggðarlög, fjölskyldur, framtíðarsýn og efnahagslegan stöðugleika um land allt. Fyrir sjávarútvegssveitarfélög eins og Fjarðabyggð eru þessi áform einfaldlega ólíðandi.
Fjarðabyggð hefur um áratugaskeið verið burðarás í íslenskum sjávarútvegi. Hér eru rótgróin fyrirtæki, bæði stór og lítil – fjölskyldufyrirtæki og afurðastöðvar – sem veita fólki atvinnu, greiða skatta, byggja samfélagið og halda uppi lífi í fjölda byggðakjarna.
Ryki kastað í augu almennings
Hver einasta króna sem þessi fyrirtæki greiða í veiðigjöld, skatta og gjöld skilar sér inn í ríkissjóð. Það er staðreynd að sjávarútvegurinn í heild skilar um 50 milljörðum króna árlega í skattspor. Samkvæmt fjárlögum 2024 er gert ráð fyrir að veiðigjöldin verði 9,2 milljarðar – og um 20% þess koma frá sjávarútvegi í Fjarðabyggð.
Það er dapurlegt að sjá hvernig stjórnvöld reyna að slá ryki í augu almennings með því að halda því fram að hluti veiðigjalda skili sér aftur til viðkomandi sveitarfélaga í formi uppbyggingar. Sú fullyrðing stenst einfaldlega ekki skoðun. Þrátt fyrir að Fjarðabyggð skeri sig úr með hæstu skattgreiðslur á hvern íbúa á landsvísu hefur sú fjárhagslega þátttaka ekki endurspeglast í fjárfestingu í innviðum af hálfu ríkisins. Það væri eðlilegra og réttlátara að sýna viljann í verki og boða raunverulega innviðauppbyggingu – óháð fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda – þar sem samfélagið á nú þegar skýlausan rétt til slíks.
Það gengur einfaldlega ekki að svipta atvinnulífið súrefni á sama tíma og ætlast er til að byggð, þjónusta og vöxtur dafni. Ríkisstjórnin boðaði aukna verðmætasköpun. Fyrsta skrefið? Að taka meira frá þeim sem skapa verðmætin.
Hækkun sem grefur undan samkeppni og framtíð
Hækkun veiðigjalda af þeirri stærðargráðu sem nú er lögð til mun óhjákvæmilega draga úr samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Þegar framleiðslukostnaður hækkar umtalsvert á örfáum árum án tillits til afkomu eða sveifla í veiðum verður rekstur fyrirtækja bæði ófyrirsjáanlegur og áhættusamur.
Afleiðingarnar eru fyrirsjáanlegar: minna svigrúm til fjárfestinga, minni nýsköpun, frestun eða hætt við stækkun, samdráttur í starfsemi og tilflutningur virðisaukans. Fyrirtæki sem nú hafa sýnt samfélagslega ábyrgð með því að fjárfesta í heimabyggð munu neyðast til að endurmeta framtíð sína.
Sjávarútvegurinn er ekki aðeins útflutningsgrein – hann er líka byggðagrein. Hækkun veiðigjalda af þessu tagi grefur undan þeirri grunnstoð sem mörg samfélög standa og falla með.
Ómálefnalegur samanburður við Noreg
Stjórnvöld hafa í umræðu um veiðigjöld vísað til kerfa í öðrum löndum, einkum í Noregi, til að réttlæta breytingarnar. Það er hins vegar villandi og ómálefnalegt. Norskur sjávarútvegur starfar við allt aðrar forsendur en sá íslenski. Þar nýtur greinin víðtækra ríkisstyrkja, niðurgreiddra innviða og ríkisstuðnings við rannsóknir, þróun og verðmætasköpun. Íslenskur sjávarútvegur, þar á meðal fyrirtæki í Fjarðabyggð, stendur aftur á móti undir öllum sínum kostnaði sjálfur – frá veiðum til vinnslu, innviðum og þróun. Að leggja sömu álögur á kerfi sem ekki njóta sömu stuðningsforsendna er ósanngjarnt og skekkir alla umræðu um raunverulega samkeppnishæfni.
Alþjóðleg fordæmi sýna áhættuna
Skyndileg og íþyngjandi skattlagning á hagnað hefur ítrekað sýnt sig erlendis að hafa skaðleg áhrif. Árið 1997 lagði breska ríkisstjórnin sérstakan „windfall tax“ á orku- og vatnsfyrirtæki sem höfðu verið einkavædd. Þó að skatturinn hafi verið innheimtur leiddi hann til minni fjárfestinga oglækkunar á hlutabréfaverði og skapaði vantraust á viðskiptalegt umhverfi ríkisins. Þar sem fyrirtækin höfðu ekki gert ráð fyrir slíkum álögum drógu þau úr framkvæmdum og hægðu á þróun.
Slík saga ætti að vera viðvörun fyrir íslensk stjórnvöld: þegar skattheimta tekur skyndilega beygju í átt að refsingu fyrir verðmætasköpun bregðast markaðir, fjárfestar og samfélög ekki við með samstarfi, heldur með aðhaldi, varnarviðbrögðum og loks fækkun tækifæra.
Skortur á greiningu og andstæða við lög
Það sem vekur sérstaka furðu er að ríkisstjórnin leggur þessa hækkun fram án þess að leggja fram neina greiningu á áhrifum hennar á sveitarfélög. Engin gögn hafa verið lögð fram um áhrifin á landsbyggðina eða einstök sveitarfélög – og það er í beinni andstöðu við 129. gr. sveitarstjórnarlaga, sem kveður skýrt á um að meta eigi áhrif laga- og reglugerðabreytinga á fjárhag sveitarfélaga.
Við vitum að áhrifin verða veruleg fyrir rekstur fyrirtækja og þar með afleidd störf og tekjur sveitarfélaga. Hækkun af þessari stærðargráðu getur haft áhrif á sjálfar grundvallarrekstrarforsendur margra fyrirtækja. Hún hefur einnig áhrif á lítil fjölskyldufyrirtæki sem ekki búa við sama sveigjanleika eða fjármagn og stærri aðilar. Það er því röng og hættuleg einföldun að láta eins og málið snúist eingöngu um stórfyrirtæki.
Krafa um samtal, gagnsæi og frest
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og sveitarfélög eins og Fjarðabyggð skora á ríkisstjórnina að staldra við. Að hefja gagnsætt samtal við hagaðila, útbúa greiningar sem byggja á staðreyndum og leggja fram raunhæfa, sanngjarna og rökstudda nálgun í framhaldinu.
Höfundur er formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.