Tónlistarveisla Mugison, réttu nafni Örn Elías Guðmundsson, kom fram á Aldrei fór ég suður í fyrra.
Tónlistarveisla Mugison, réttu nafni Örn Elías Guðmundsson, kom fram á Aldrei fór ég suður í fyrra. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Írafár, FM Belfast, Apparat Organ Quartet, Una Torfa, Reykjavík!, JóiPé og Króli, Salóme Katrín, Múr, Gosi og Amor Vincit Omnia koma fram á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin verður á Ísafirði um páskana, 18

Viðtal

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Írafár, FM Belfast, Apparat Organ Quartet, Una Torfa, Reykjavík!, JóiPé og Króli, Salóme Katrín, Múr, Gosi og Amor Vincit Omnia koma fram á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin verður á Ísafirði um páskana, 18. og 19. apríl. Í fyrra voru 20 ár liðin frá því hátíðin var haldin í fyrsta sinn og það í „bríaríi í sushiverksmiðju á Ísafirði um páska 2004“, eins og segir í tilkynningu og þeir sem skipulögðu hana áttu varla von á því að hún næði þessum virðulega aldri, 20 árum, og hvað þá 21.

Á dagskrá hátíðarinnar í ár kemur fram bæði vestfirskt tónlistarfólk og landsþekkt og hefur það flest komið fram á hátíðinni áður. Einhverjar hljómsveitir og tónlistarmenn eru þó að koma í fyrsta sinn eða eftir langt hlé, þ.á m. Írafár og Reykjavík! en Apparat Organ Quartet hefur hins vegar ekki leikið á henni áður og ekki heldur Múr eða Amor Vincit Omnia. Salóme Katrín og Gosi koma einnig fram og eru í tilkynningu sögð „ísfirskar stjörnur“ og stuðboltarnir í FM Belfast snúa líka aftur, Una Torfa og JóiPé og Króli.

„Við höfum aldrei selt miða“

Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri lýsir Aldrei fór ég suður sem áhugamannafélagi um tónlistarmenningu á Ísafirði sem sé ekki hagnaðardrifið að neinu leyti og skipað eingöngu sjálfboðaliðum. Það bjóði nú sem fyrr til tónlistarveislu gestum að kostnaðarlausu.

Kristján er spurður að því hvort þetta hafi alltaf verið svona, þ.e. aðgangur ókeypis, og segir hann svo vera. „Það er alveg magnað hvað við erum léleg að segja frá þessu því árlega kemur alltaf fyrirspurn, þegar við gefum út dagskrána, um hvar sé hægt að kaupa miða en við höfum aldrei selt miða,“ segir Kristján. Með samstarfi við Ísafjarðarbæ og helstu bakhjarla sé þetta gerlegt en helstu bakhjarlar eru Icelandair, Orkubú Vestfjarða, 66°Norður, Eimskip, Landsbankinn og Kerecis ásamt Ísafjarðarbæ og Kampa. Kristján segir alla sem fram koma á hátíðinni fá greitt fyrir sína vinnu og að ýmis þjónusta sé keypt henni tengd.

Ekki klassísk bæjarhátíð

Kristján er spurður hvað geri Aldrei fór ég suður ólíka öðrum hátíðum sem haldnar séu árlega á Íslandi.

„Ég held að það sé að Aldrei fór ég suður er svo margt áður en hún verður að tónlistarhátíð. Þetta er ekki hin klassíska bæjarhátíð, eins og Bryggjudagar á Drangsnesi eða eitthvað slíkt, heldur er þetta eins og að fara á þorrablót en það er enginn súr matur á borðum, eins og að fara á ættarmót en það eru ekki allir skyldir, eins og að fara á ball í Sjallanum en það er ekkert aldurstakmark,“ svarar Kristján og bætir við að Aldrei fór ég suður sé svo margt.

Kristján segir tónlistarmenn og gesti á jafnaðargrundvelli á Aldrei fór ég suður og að þeir sem komist ekki á hana geti horft á hana eða hlustað á Rás 2 og Rúv 2. „Ég segi oft um tónlistarmennina og gestina að það eru allir á jafnaðargrundvelli,“ segir Kristján, „fólk skilur kúlið eftir heima. Það eru bara allir jafnir.“

Frændfólk fyrir vestan?

Nú koma mjög margir til Ísafjarðar þessa daga, er það ekkert mál hvað gistingu varðar?

„Það er alltaf heilmikið vesen. Ef fólk er í ferðahugleiðingum og langar á hátíðina þá er ekki bara Ísafjörður sem slíkur kjörinn að tékka á heldur líka Bolungarvík og fleiri byggðarlög. Svo er líka mjög vinsælt að fara á Íslendingabók og athuga hvort maður eigi ekki frændfólk og skyldfólk fyrir vestan og banka upp á,“ svarar Kristján kíminn.

„Ef við getum tekið kredit fyrir eitthvað þá held ég að það sé mjög algengur snertiflötur fjölda fólks hér á Íslandi að koma vestur á Aldrei fór ég suður. Ég heyri meira og meira af því og við erum náttúrlega að horfa til síðustu tuttugu ára. Ég er bara sjúklega stoltur af því að t.d. bara þessar hljómsveitir, sem telja nokkur hundruð tónlistarmanna, hafa komið og þetta fólk er sumt hvert að koma í fyrsta sinn til Ísafjarðar. Þetta kallar á margföldunaráhrif í framtíðinni, þetta fólk mun örugglega allt heimsækja Ísafjörð aftur. Það er gott fyrir fólk að kynnast því að það er menning og skemmtilegheit um allt land, ekki bara í 101 Reykjavík, bara svo það sé sagt,“ segir Kristján.

Lengi er von á páskahreti

Fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér að fara á hátíðina en hafa aldrei farið áður, eru einhver mistök sem fólk er að gera þegar kemur að farangri, hverju skal pakka niður? Er fólk að gleyma gúmmískónum eða öðru mikilvægu?

„Ja, þetta er náttúrlega „næstum því“ útihátíð, haldin í hrárri skemmu niðri við höfn. Það er mjög gott að hafa með sér góð föt. Einu mistökin eru að horfa á dagatalið og segja að þarna sé næstum kominn sumardagurinn fyrsti. Það er lengi von á einu páskahreti,“ segir Kristján. Páskarnir komi iðulega í síðasta falli á Vestfjörðum en hann sé þó sjálfur oftast á strigaskónum á páskunum fyrir vestan.

Hvað veður varðar segist Kristján lítið spá í það. „Það er skíðavika á þessum tíma og oft hefur þurft að fresta viðburðum á henni vegna snjóleysis,“ segir hann en vissulega geti verið kalt á þessum árstíma.

Vef Aldrei fór ég suður má finna á slóðinni aldrei.is.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson